Sveitarstjórnarlög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á ákvæðum 4. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sem fjallar um kosningu varamanna í byggðarráð.
    Í 1. málsgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga kemur fram að kosið skuli byggðarráð úr hópi aðalfulltrúa í sveitarstjórninni. Varafulltrúar í sveitarstjórn eru því ekki kjörgengir í byggðarráð en byggðarráð er samheiti yfir framkvæmdaráð sveitarfélaga sem kölluð eru borgarráð, bæjarráð eða hreppsráð. Í sumum sveitarfélögum hafði sú regla gilt fyrir gildistöku þessa ákvæðis að bæjarfulltrúar og varafulltrúar sem kosningu höfðu hlotið á sama lista og hinn kjörni bæjarráðsmaður væru varamenn hans í bæjarráði í þeirri röð sem þeir skipuðu listann. Aftur á móti eru ákvæði 55. gr. sveitarstjórnarlaga skýr þess efnis að varamenn í byggðarráð skulu kosnir úr hópi kjörinna fulltrúa sveitarstjórnarmanna.
    Félmrn. hefur borist beiðni um það frá Kópavogskaupstað að regla eldri sveitarstjórnarlaga gæti gilt, þ.e. að varafulltrúar í sveitarstjórn séu kjörgengir í bæjarráð, borgarráð eða hreppsráð, en til þess þarf lagabreytingu. Þessi ósk Kópavogskaupstaðar var send Sambandi ísl. sveitarfélaga sem lýsti sig jákvætt þeirri breytingu sem hér er lögð fram. Efnislega kveður hún á um að varamenn kjörinna sveitarstjórnarmanna verði einnig kjörgengir varamenn í bæjarráð, borgarráð eða hreppsráð.
    Beiðni Kópavogskaupstaðar er rökstudd með því að eldri reglan hafi gefist vel, þ.e. að bæjarfulltrúar og varafulltrúar sem kosningu hafa hlotið af sama framboðslista og hinn kjörni bæjarráðsmaður séu varamenn hans í bæjarráði í þeirri röð er þeir skipuðu listann. Þessi skipan feli í sér að bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar séu kosnir sem varamenn í bæjarráð um leið og þeir hljóti kosningu í bæjarstjórnina, þ.e. ef framboðslistinn sem þeir skipa á aðalfulltrúa sem kosinn hefur verið í bæjarráð, einn eða fleiri.
    Með þessu móti séu allir fulltrúar hvers lista varamenn í bæjarráði og þannig muni betur séð fyrir að bæjarráð sé ávallt fullskipað þrátt fyrir skyndileg forföll en þegar einungis einn varamaður er kosinn fyrir hvern bæjarráðsmann.
    Kópavogskaupstaður bendir á í sinni röksemd að ef beita á þeirri reglu að kjósa aðeins aðalfulltrúa sem varamann í bæjarráð gætu hæglega komið upp allsérstæð tilvik. Af framboðslista sem aðeins einn bæjarfulltrúi hefði hlotið kosningu af í bæjarstjórn væri ekki mögulegt að kjósa varafulltrúa í bæjarráð ef eini aðalfulltrúi hans ætti sæti í bæjarráði sem hæglega gæti átt sér stað með t.d. þátttöku hans í meirihlutastarfi. Bent er á að bæjarstjórnarflokkur sem á þrjá fulltrúa í bæjarstjórn og tveir af þeim eiga sæti í bæjarráði gætu aðeins kosið einn varamann úr sínum röðum. Þannig þurfi í slíkum tilfellum að kveðja til varamann ef á þeim þyrfti að halda frá öðrum flokkum hvort sem það væru samherjar í meirihlutastarfi eða ekki.

    Með þessu frv. er í fyrsta lagi lagt til að bæði aðalfulltrúar og varafulltrúar úr sveitarstjórn verði kjörgengir sem varamenn í byggðarráð. Aðalmenn skulu hins vegar ætíð kosnir úr hópi aðalfulltrúa einvörðungu og er það óbreytt.
    Í öðru lagi felur frv. þetta í sér að sett er í vald sveitarstjórnanna sjálfra hvort þær kjósa varamenn í byggðarráð sérstaklega eins og verið hefur og er aðalreglan að ákveða í samþykktum stjórn sveitarfélags að aðalfulltrúar
og varafulltrúar sem kosningu hafa hlotið á sama framboðslista og hinn kjörni byggðarráðsmaður verði varamenn hans í byggðarráði í þeirri röð sem þeir skipa listann.
    Eins og ég benti á í mínu máli mælir stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga með þessari breytingu. Vænti ég þess að frv. þetta fái afgreiðslu hér á hv. Alþingi og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn.