Sveitarstjórnarlög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það er aðeins ein örstutt fsp. til hæstv. ráðherra í tilefni þessa máls, vegna þess möguleika sem upp kann að koma og er jafnvel í deiglunni í ýmsum sveitarfélögum og jafnvel hér í Reykjavík að ólíkir aðilar eða flokkar komi sér saman um framboðslista fyrir kosningar. Spurningin lýtur að því hvernig taka eigi á hugsanlegu vandamáli ef síðan slitnar upp úr vinskapnum eftir kosningar og varamenn eru ef til vill ekki fulltrúar úr sama stjórnmálaflokki og aðalmaður og ef samkomulagið er jafnvel það stirt að aðalmenn neita að boða varamenn. Ég held að menn þurfi ekki mikið ímyndunarafl til að gera sér í hugarlund alls kyns möguleika sem svona vinslitum geta orðið samfara. Skal ég ekki fara nánar út í það en ég vil spyrja ráðherrann hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um hvernig leysa bæri slík vandamál, ef upp koma, hvort sem það er hér í Reykjavík eða á Seltjarnarnesi eða í Mosfellsbæ eða einhvers staðar annars staðar þar sem sameiginlegir framboðslistar ólíkra stjórnmálaafla eru í boði og þar sem ekki er ólíklegt að einhvern tímann á kjörtímabilinu slitni upp úr vinskapnum.