Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Frv. sem hér er til umræðu um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla varðar mjög þýðingarmikinn málaflokk í okkar samfélagi. Það liggur hér fyrir öðru sinni með nokkrum breytingum frá því að málið var lagt fram af hæstv. félmrh. til kynningar á síðasta þingi. Ég átti sæti í þeirri stjórnskipuðu nefnd sem undirbjó þetta mál og nefni að það var mjög ánægjulegt að starfa að þessu máli með þeim hópi sem þar var tilkvaddur en það voru einstaklingar tengdir stjórnmálaflokkum sem hæstv. félmrh. tilnefndi í þessa nefnd.
    Einnig hefur það gerst eins og fram hefur komið að málið hefur verið sent til umsagnar frá því það kom hér fyrir þingið síðast og sama nefnd leit yfir umsagnir og leitaðist við að samræma sjónarmið og taka tillit til nokkurra ábendinga sem réttmætt þótti að athuguðu máli að gera tillögu um að kæmu inn í lögin. Þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frv., í tveimur atriðum, hygg ég, vegna kröfu frá þingflokkum stjórnarflokkanna og eru þær út af fyrir sig ekki til bóta, að mínu mati, þó að önnur þeirra breyti kannski aðeins formi en önnur skipti nokkru varðandi innihald.
    Með þessu frv. til nýrra jafnréttislaga er verið að styrkja verulega lagagrunninn frá því sem verið hefur til þessa og meðferð þessara mála í stjórnkerfinu. Það tel ég vera mjög þýðingarmikið þó að hitt sé jafnljóst að jafnrétti kynja verður ekki náð með lagabókstaf einum, þar þarf margt fleira til að koma. En það eru þó lögin sem mótuð eru hér á hv. Alþingi sem eru okkar tæki, kjörinna fulltrúa, til þess að hafa áhrif á þróun þessara mála og því er að sjálfsögðu skylt að leita þar sem bestra leiða til að styrkja þau markmið að ná í reynd fram jafnrétti eða jafnstöðu kynjanna. Þar greinir menn á, vitum við, út frá pólitísku sjónarhorni en þó er það nú svo að stjórnmálaflokkar taka í auknum mæli undir það markmið að jöfn staða kynjanna
í samfélaginu sé eðlileg, en það skortir hins vegar gjarnan talsvert á þegar til kastanna kemur að veita þar stuðning og þarf ekki lengra að fara en þegar kemur til fjárveitinga til þessa málaflokks úr opinberum sjóði að þar verður oft ansi langt bilið á milli orða og athafna. Það tel ég að hafi raunar komið fram nú að undanförnu við meðferð þessa máls í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna þar sem sérstaklega var spurt eftir og horft til þess að framkvæmd þessara laga kynni að kosta nokkrar millj. kr., jafnvel milljónatugi, og greinilegt að það eru allmargir hér á Alþingi sem sjá eftir þeim aurum til þess að styrkja réttlætið í þessu landi að því er varðar það misrétti sem konum er búið vegna ótal þátta í okkar samfélagi.
    Ég ætla hér, virðulegur forseti, á örfáum mínútum að nefna nokkur atriði sem snúa að frv., en hæstv. ráðherra hefur rakið skilmerkilega efni þess og meginbreytingar frá gildandi lögum og ætla ég ekki að endurtaka það. Ég vil nefna, kannski fyrst af öllu, eitt

atriði sem ég sakna úr þessari löggjöf og ég tel að hefði orðið til bóta ef upp hefði verið tekið, atriði sem ég flutti inn á vettvang nefndarinnar en fékk ekki þar þær undirtektir sem skyldi, en það varðar þátt sem nefndur er á bls. 7 í athugasemdum um umboðsmann jafnréttismála. Ég hefði talið eðlilegt að lögfest yrði að stofna til starfs umboðsmanns jafnréttismála með hliðstæðum hætti og gert hefur verið á öðrum Norðurlöndum þannig að við slægjumst þar í hóp með nágrönnum okkar og yrðum þátttakendur í því kerfi til að styrkja meðferð jafnréttismála með því að stofna til starfs umboðsmanns. Um þetta segir í athugasemdunum að hugmyndir um þetta hafi komið fram í nefndinni: ,,Nefndin tók almennt jákvætt í hugmyndina um sérstakan umboðsmann jafnréttismála, svo sem er í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, og taldi frekari samræmingu á lagareglum þessara landa styrkja stöðu jafnréttismála á Norðurlöndum. Sumir nefndarmanna töldu þó ekki að svo stöddu tímabært að leggja til skipun sérstaks umboðsmanns jafnréttismála og gerði nefndin því ekki tillögu þar um.`` Ég gerði ekki sérstakan ágreining um þetta þar sem ekki tókst um þetta full samstaða í nefndinni en ég vænti þess að þetta atriði verði haft í huga við skoðun málsins hér í þinginu en alveg sérstaklega þegar til endurskoðunar þessara mála kemur í ljósi fenginnar reynslu.
    Ég tel það einnig miður að að kröfu stuðningsflokka ríkisstjórnar einhverra skuli hafa verið veikt það ákvæði sem varðar ráðningu jafnréttisráðgjafa og kemur fram í 18. gr. frv. Í fyrra frv. var gert ráð fyrir, sett ótvírætt fram, að félmrn. skuli ráða slíka ráðgjafa til starfa, en hér hefur þetta ákvæði verið veikt með heimild til þess og það er auðvitað lakari staða en var í fyrri tillögu. Ég hygg að hér hafi nánasarsjónarmiðið varðandi fjárhæðir í þessu skyni ráðið ferðinni og þykir mér það verulega miður. Ég tel alveg brýnt að þetta mál verði tekið upp þegar við meðferð komandi fjárlaga til þess að fyrr en seinna takist að fá reynslu af starfi jafnréttisráðgjafa. Ég leyni því ekki að mér er í huga þörfin á að tengja starf þeirra við verkefni, svipuð þeim sem hafa verið í gangi á vegum samnorræns verkefnis, Brjótum múrana, sem haft hefur aðsetur á Akureyri og tengst hefur um öll Norðurlönd og verið til
verulegs gagns að mínu mati, og þyrfti að gæta þess að láta það merki ekki falla og þau störf sem þar hafa verið unnin. Ég lít svo til að jafnréttisráðgjafar geti orðið til þess m.a. að taka á málum með svipuðum hætti og þar var gert. ( Forseti: Ég vil beina því til ræðumanns hvort hann gæti lokið ræðu sinni hér á mjög stuttum tíma eða hvort hann óskar eftir að gera hlé á ræðu sinni þar sem fundartíma er lokið.) Já, virðulegur forseti. Ég hef mælt hér í 5--6 mínútur og hefði kosið kannski að taka viðlíka tíma í viðbót í sambandi við málið þannig að ég fellst á það og þakka fyrir að umræðunni verði frestað og ég fái tækifæri í framhaldi hennar að ræða málið frekar.