Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Flugleiðir hafa ekki hikað við að rífa samninga þegar þeir hafa verið þeim óhagstæðir og gerðu það m.a. við Flugfax hf. Og þennan blessaða samning sem þarna er búið að gera á ekki að endurskoða, það á að rífa hann. Og að gjaldskrá standi undir kostnaði --- ef þeir fæla alla frá sem vilja lenda þarna þá er náttúrlega ekkert skrýtið þó upplýsingarnar fáist ekki úr bókhaldi um eðlilegan kostnað. Það gefur auga leið. Afleiðingarnar eru þær að ekki eru þau umsvif sem duga. Og að tala um að hægt sé að fá eðlileg umsvif á völlinn með þessum vinnubrögðum, það er gjörsamlega vonlaust. Hæstv. ráðherra verður því að hætta að tala aðeins við toppana, hann verður að tala við venjulegt fólk sem þarna hefur starfað og kynna sér hvílíkur furðusvipur hefur komið á flugáhafnir þegar þeim hafa verið réttir reikningar véla sem aðeins hafa ætlað að lenda á vellinum og fara svo aftur. Menn hafa vissulega borgað en jafnframt lýst því yfir að þarna mundu þeir aldrei lenda aftur.
    Ég hygg að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að þó settir séu fram einhverjir taxtar sem miða við 25 tonn þá er það gjörsamlega óraunhæft. Aðalatriðið er að átta sig á því hvort hægt sé að hafa þessa taxta þannig að þeim mun minni þjónusta sem veitt er þeim mun minna gjald. Þannig væri hægt að örva þá sem fljúga hér yfir og eru með rými, t.d. til að taka svona 10 tonn, að hægt sé að fá þá til að lenda á vellinum og taka slíkan varning út.
    Ég vil undirstrika það að ef þetta er ekki gert þá mun það skaða efnahagslega hagsmuni Íslands verulega. Og ég skora nú á hæstv. ráðherra að hafa opinn síma hjá sér og hlusta á þá sem hafa kynnst þessari þjónustu og vita hvað raunverulega er að gerast, en tala ekki aðeins við toppana sem koma með falleg línurit miðuð við 25 tonna þunga sem afgreiddur er.