Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Suðurl. beinir nokkrum spurningum til mín.
    ,,1. Hver tók ákvörðun um vopnaburð íslenskra lögregluþjóna í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli árið 1986?``
    Svar: Þáverandi utanrrh. Geir Hallgrímsson, í samræmi við íslensk lög um forræði utanrrh. yfir varnarsvæðum sem og í samræmi við stofnskrá Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ICAO sem var samþykkt á Alþingi og gekk í gildi sem lög hér á landi 20. apríl 1947. Í viðbót nr. 17 við stofnskrána sem fjallar um öryggismál, þ.e. öryggi farþega, starfsmanna og opinberra gesta, sbr. lið 4.1.4 kemur fram að hvert ríki skuli tryggja að löglegir og þjálfaðir löggæslumenn séu til taks á alþjóðaflugvöllum til að bregðast við ólöglegum truflunum á starfsemi alþjóðaflugs. Þá hefur stofnunin gefið út leiðbeiningabók um öryggismál þar sem kemur fram í lið 3.3.2 að eitt grundvallaratriði í öryggiskerfum alþjóðaflugvalla sé að til staðar séu vopnaðir löggæslumenn sem geti brugðist við ólöglegu athæfi þar sem vopn eru um hönd höfð. Þetta eru skýringarnar á og forsendurnar fyrir þessari ákvörðun og svarið felur raunverulega í sér að búa verður eins og á bæjum er títt, þ.e. ef menn taka mið af því sem gerst hefur á flugvöllum um heim allan á undanförnum árum þá eru þetta viðbrögð við því, en samkvæmt skuldbindingum okkar.
    ,,2. Hvaða reglur eru í gildi varðandi umgengnisvenjur vopnaðra lögregluþjóna í flugstöðinni? Hversu margir starfa í vopnadeildinni?``
    Svar: Starfsemi lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli svo og öll löggæsla á varnarsvæðinu á Reykjanesi lýtur íslenskum lögum, m.a. lögum nr. 33/1954, lögum nr. 110/1951, lögum nr. 60/1943, lögum nr. 34/1964 og lögum nr. 76/1982. Þetta á einnig við um hina vopnuðu fyrirbyggjandi löggæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá eru í gildi sérstakar reglur um meðferð skotvopna sem lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli hefur gefið út til handa lögreglumönnum í flugstöðinni og er þar stuðst við reglur um meðferð og notkun skotvopna o.fl. sem dómsmrh. setti í árslok 1987 með heimild í 2. gr. laga nr. 4/1977, um skotvopn, sprengiefni og skotelda. Átta lögreglumenn starfa nú við vopnaða fyrirbyggjandi löggæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, voru áður alls 14 talsins fyrir 1. nóv. 1989 þegar ég beitti mér fyrir því að þeim var fækkað. Þeir starfa á tvískiptum vöktum allan sólarhringinn.
    ,,3. Hver er kostnaður af sérdeild vopnaðra lögreglumanna frá upphafi til síðustu áramóta?``
    Svar: Heildarkostnaður við löggæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á tímabilinu 1986--1989 er talinn 108 millj. kr., þ.e. 36 millj. kr. á ári að meðaltali þessi þrjú ár. Veruleg fækkun lögreglumanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, eða alls um sex stöðugildi, hefur átt sér stað frá 1. nóv. 1989. Það var liður í aðhaldi og rekstrarhagræðingu sem nú fer fram hjá

lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli og gert er ráð fyrir umtalsverðri lækkun rekstrarkostnaðar af þeim ástæðum.
    ,,4. Hver er ástæða þess að vopnaðir lögregluþjónar yfirtóku störf tollvarða við málm- og vopnaleitartæki í flugstöðinni í nóvember sl.?``
    Svar: Í kjölfar umfangsmikillar endurskipulagningar og sparnaðaraðgerða hjá lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli á sl. ári hefur starfsemi löggæslu og tollgæslu verið skýrt aðgreind þannig að frá og með 1. nóv. 1989 hafa lögreglumenn alfarið séð um vopnaleit í flugstöðinni í stað tollvarða áður. Vopnaleit er fyrst og fremst löggæsla og öryggisráðstöfun, en ekki tollgæsla. Því ber lögreglu að sjá um þennan þátt öryggisgæslu á svipaðan hátt og gert er á öðrum alþjóðaflugvöllum. Önnur störf lögreglumanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar felast m.a. í eftirliti með farþegum í komu- og biðsal, svo og eftirliti í stjórnstöð þar sem miðstöð boð- og öryggiskerfa er staðsett.
    ,,5. Hversu oft hefur þurft að beita vopnum?``
    Svarið er einfalt: Sem betur fer aldrei.