Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Það er aðeins örlítil athugasemd vegna þessara mála. Ég vildi aðeins hvetja til þess að því grundvallaratriði í framkvæmdinni yrði breytt frá því sem nú er, að Ríkisútvarpið ber kostnað af þessum þætti. Bæði ég og ýmsir aðrir þingmenn Sjálfstfl. hafa látið í ljós þá skoðun, sem því miður hefur ekki getað orðið að framkvæmd eða birst í framkvæmdinni, að það sé miklu eðlilegra að lífeyrir þeirra sem hér um ræðir verði nægilega hár, að uppbót verði greidd á hann til þess að standa undir gjöldunum til Ríkisútvarpsins. Það var einungis þetta sem ég vildi nefna. Mér þykir það miklu eðlilegra að lífeyririnn sé nægilega hár hverju sinni til þess að lífeyrisþeginn geti greitt fyrir þá almennu þjónustu sem í þjóðfélaginu er, eins og aðrir þegnar, í stað þess að verðið á þjónustunni sé mismunandi eftir því hver í hlut á. Eðlilegra er að þetta gangi í gegnum Tryggingastofnunina.