Fyrirspurnir og svör við þeim
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram skal eftirfarandi tekið fram: Það er afar erfitt fyrir forseta að hafna fyrirspurnum sem hv. þm. óska að bera fram. Oftlega hefur forseti reynt að breyta t.d. munnlegri fyrirspurn í skriflega, skriflegri fyrirspurn jafnvel í skýrslu, eins og hér var minnst á, en því er ekki að neita að bent hefur verið á það af hæstv. ráðherrum að fyrirspurnir séu oft og tíðum mjög viðamiklar og óhjákvæmilegt sé að það taki langan tíma og jafnvel hóp af starfsmönnum til þess að vinna þær svo að vel fari. Og oftlega hefur þeirri beiðni verið beint til forseta að hafa hemil á fyrirspurnagleði hv. þm. Það er einfaldlega ekki í valdi forseta. Hann getur einungis reynt að ná vinsamlegum samningum við hv. þm. um að breyta fyrirspurn þannig að gerlegt sé að svara fyrirspurninni á yfirstandandi þingi. Fyrir hefur komið að slík vinna hefur staðið mánuðum saman svo að hægt væri að svara fyrirspurn.
    Varðandi þetta umrædda mál sem hér hefur nú tekið nokkurn tíma skal þetta sagt: Hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að hann svari þessari fyrirspurn á þennan hátt. Forseti getur auðvitað ekki haft nein áhrif á þá ákvörðun hæstv. ráðherra og hið eina sem hv. þm. getur gert er þá að bera enn eina fyrirspurn fram, en forseti hefur að sjálfsögðu engin áhrif á hvernig hæstv. ráðherra kýs að svara fyrirspurn. Ég tek það fram að engin athugasemd hefur mér borist fyrr en nú um að hv. þm. sætti sig ekki við þetta svar þannig að það gafst ekki neinn tími til að kanna hvort úr því væri hægt að bæta. Ég held því að forseti geti ekki gert annað eins og áður hefur komið fram en að benda hv. þm. á að bera fram enn eina fyrirspurn um þau atriði sem hún telur sig ekki hafa fengið svar við.