Fyrirspurnir og svör við þeim
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef þessi umræða þarf að snúast upp í það hvort þurfi að breyta fyrirspurnaformi. Mér finnst að tilefni máls míns hafi ekki verið það heldur hvernig þessari fsp. sem leyfð var var svarað. Ég vil endilega taka fram, þó að hæstv. viðskrh. hafi kosið að víkja úr sal, og ég efa ekki að þar hefur annríki ráðið, af því að hæstv. ráðherra sagði hér í ræðustóli að í fyrirspurninni hefði verið farið fram á að leitað yrði svara um afstöðu manna til mála, að ekki var um það beðið í fyrirspurninni. Aftur á móti var spurt um störf og mér er ekki ljóst hvernig hægt er að bera það saman við, mér liggur við að segja persónunjósnir að æskja upplýsinga um menn sem eru kjörnir til opinberra starfa og trúað fyrir opinberum störfum í jafnmikilvægum málum eins og stjórnum peningastofnana ríkisins, að það geti með nokkru móti flokkast undir persónunjósnir að það liggi ljóst fyrir hver hugsanleg tengsl þeirra eru við aðrar peningastofnanir eða fyrirtæki sem gætu tengst þessari peningastofnun eða annarri viðlíka með þeim hætti að ekki væri viðunandi. Ef menn sem kjörnir eru til þessara starfa eru ekki hafnir yfir gagnrýni, þá hljóta þeir í ljósi þess sem á undan er gengið að búa við tortryggni og væntanlega hafa menn sem taka að sér slík störf ekkert að fela sem ekki þolir að líta dagsins ljós.
    Í tilefni þessa alls langar mig rétt að ítreka það sem margoft hefur borið á góma varðandi þetta bankaráðsmál, að með hverjum degi verður ljósari þörfin fyrir stjórnsýslulög og gerði ég það nokkuð að umtalsefni hér um daginn varðandi þáltill. sem hér var til umræðu. En seinna í dag verður hér til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis og ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á að hann tekur einmitt fram í þeirri skýrslu að brýn þörf sé á stjórnsýslulögum og ég vil enn beina því til þingmanna að íhuga hver staða löggjafarvaldsins er þegar framkvæmdarvaldið getur svarað spurningum þess með þeim hætti sem hér er gert.