Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans og ég átti svo sem frekar von á því af honum að hann ætlaði að taka á þessum málum af einurð miðað við þær umræður sem við höfum hingað til átt um ferðamál hér inni á þingi. Hins vegar er þetta auðvitað bara einn angi af miklu stærra máli, þ.e. vaxandi umsvifum erlendra aðila hér í ferðaþjónustunni. Hæstv. ráðherra minntist á að Ferðamálaráð ætlaði að funda um ýmis atriði sem þessu tengjast á næstunni. Vil ég því aðeins minna á till. til þál. sem ég flutti fyrr á þessu þingi um að séð verði til þess að í skipulögðum hópferðum erlendra aðila á Íslandi sé ætíð með í för íslenskur leiðsögumaður sem nýtur réttinda samkvæmt sérstakri reglugerð gefinni út af samgrn.
    Til þess að undirstrika hvernig þróunin hefur orðið í þessum málum að undanförnu bendi ég á að árið 1988 veitti Ferðamálaráð 27 starfsleyfi til erlendra leiðsögumanna og þeir unnu hér samanlegt 360 dagsverk, en sumarið 1989 voru veitt leyfi 45 og dagsverkin um það bil 1100. Á þessu sést auðvitað hvert stefnir og þá á ég ekki eingöngu við leiðsögumenn heldur líka í ferðaþjónustunni almennt. Ferðaþjónustan ætti auðvitað að skapa nýja atvinnu fyrir okkur og þar á meðal eru leiðsögumenn ein þeirra stétta sem ættu að njóta góðs af en missa greinilega vinnu í hendur erlendra aðila. Hinir erlendu leiðsögumenn sem hingað koma þiggja laun sín frá erlendum ferðaskrifstofum og greiða því hvorki skatta né önnur gjöld hér á landi þannig að vinna þeirra hefur bæði áhrif á afkomu þeirra sjálfra og afkomu ríkissjóðs.
    Ég vildi aðeins minna á þetta hér en að öðru leyti hlýt ég að lýsa ánægju minni með þau afdráttarlausu svör sem hæstv. samgrh. gaf hér og vona að vel takist til með að framfylgja þessum reglum nú á komandi sumri því að ég held að það sé óhætt að fullyrða að ekki hefur alltaf verið hægt að setja undir allan leka hingað til.