Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi vék að í sambandi við leiðsögumenn, þá nefndi ég það að mér er kunnugt um að Ferðamálaráð mun ræða það mál á fundi sínum 30. mars nk. Þar er hins vegar því til að dreifa sem engin ástæða er til að fara dult með að nokkur ágreiningur er uppi meðal aðila í ferðaþjónustu um það hversu miklum takmörkunum beri að beita gagnvart starfsréttindum og möguleikum erlendra leiðsögumanna hér á Íslandi. Að sjálfsögðu er það okkur keppikefli að hafa sem mest af þessum rekstri og mest af þessari atvinnu í okkar höndum, en hinu er ekki hægt að neita að ákveðnar tilhneigingar til gagnkvæmnisréttinda gætir í þessum efnum og ég veit að hv. fyrirspyrjanda er það kunnugt ekki síður en öðrum að auðvitað hafa íslenskir leiðsögumenn starfað í fjölmörgum löndum á erlendri grund og það er altítt að íslenskum hópum erlendis fylgi íslenskur leiðsögumaður, en gjarnan er það þannig að í öðrum ríkjum eru þá einhverjar reglur um starfsréttindi slíkra manna og/eða að jafnframt skuli fylgja hópnum innlendur leiðsögumaður.
    Í raun og veru er ekki alveg einfalt að móta þær reglur sem skynsamlegar eru og sanngjarnar í þessum efnum og ég held að um það geti ekki orðið samstaða að taka með öllu fyrir möguleika erlendra leiðsögumanna til að fylgja hópum til landsins. En að sjálfsögðu þarf að tryggja að þeir séu starfi sínu vaxnir og þau markmið náist fram sem við viljum tryggja m.a. með því að hópar hafi leiðsögumenn og snerta auðvitað umgengnina um landið og það að réttum upplýsingum sé komið á framfæri um land og þjóð o.s.frv. o.s.frv. En þetta mun Ferðamálaráð sem sagt ræða á fundi sínum og væntanlega gera tillögur til ráðuneytisins ef það telur aðgerða þörf. Ég vil þó benda á, sem augljóst má vera, að það er nokkrum vandkvæðum bundið að breyta reglum í þessum efnum í upphafi ferðamannatímans eða rétt fyrir hann og það hlyti að koma til álita
hvort ekki væri óhjákvæmilegt að láta slíkar breytingar, ef til kæmu, eiga sér nokkurn aðdraganda, til að mynda þannig að þær tækju gildi um næstu áramót og miðuðust við ferðamannatímann að rúmu ári liðnu.