Jafnréttisáætlanir
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Til mín er beint fyrirspurn sem snertir jafnréttisáætlanir sem ég vil leitast við að svara hér. Á árinu 1988 var samþykkt í ríkisstjórninni tillaga mín um að leggja til að ráðuneyti og ríkisstofnanir geri hvert fyrir sig jafnréttisáætlun til fjögurra ára fyrir tímabilið 1. jan. 1989 til 31. des. 1992, þar sem fram kæmi hvernig staðan sé nú innan ráðuneyta eða stofnana og að ráðuneyti, fyrirtæki og stofnanir setji sér markmið í jafnréttismálum sem stefnt verði að að ná á tilsettum tíma hvað varðar stöðuveitingar, launamál, starfsauglýsingar, námskeið og tilnefningar í nefndir, stjórnir og ráð. Í ágúst 1988 var öllum ráðuneytisstjórum sent bréf þar sem óskað var eftir að ráðuneytin sendu jafnréttisáætlanir og jafnframt að hvert ráðuneyti sendi bréf til stofnana og fyrirtækja er heyrðu undir viðkomandi ráðuneyti og jafnréttisáætlanir frá öllum aðilum yrðu sendar fyrir 1. nóv. 1988.
    Félmrn. sendi síðan öllum sínum stofnunum, sjö talsins, auk átta svæðisstjórna um málefni fatlaðra, bréf um gerð jafnréttisáætlana. Félmrn. ítrekaði beiðni um skil frá öllum ráðuneytum og framlengdi frest til 15. des. 1988 þar sem tiltölulega fáar áætlanir höfðu borist á þeim tíma. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir ráðuneytisins er þó ljóst að nokkuð vantar á að jafnréttisáætlanir hafi skilað sér frá öllum sem óskað var eftir að skiluðu þeim. Má þar kannski sérstaklega nefna skóla, en þaðan hafa mjög fáar áætlanir komið og eins hafa fáar áætlanir komið frá heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsum og sömuleiðis stofnunum sem heyra undir dómsmrn.
    Ef það frv. verður að lögum sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingar á jafnréttislögunum má þó vænta úrbóta í þessu efni þar sem gert er ráð fyrir að jafnréttisáætlanir verði lagðar fyrir Alþingi samhliða þáltill. um framkvæmd áætlunar í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn.
    Spurt er hve margar jafnréttisáætlanir hafi borist til félmrn. Samtals hafa borist 50 jafnréttisáætlanir. Öll ráðuneyti, þar með talin Hagstofa Íslands og Fjárlaga- og hagsýslustofnun, hafa skilað jafnréttisáætlun að undanskildum fjmrn. og dómsmrn.
    Ég vil nefna líka að gefinn hefur verið út bæklingur á vegum félmrn. og Jafnréttisráðs sem hefur að geyma ýmsar þarfar ábendingar. Í bæklingi þessum sem nefnist ,,Hvernig næst jafnrétti í atvinnulífinu? Hugmyndir, aðgerðir, áætlanir`` er einnig að finna nokkrar þeirra jafnréttisáætlana sem bárust. Í leiðbeiningum um gerð jafnréttisáætlana var tekið fram hvað æskilegt væri að jafnréttisáætlun fæli í sér. Þar er óskað eftir að fram komi hvert er hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum, hvert er hlutfall kvenna í nefndum. Í öðru lagi verkefni sem unnið væri að til að ná fram jafnrétti kynjanna og í þriðja lagi var óskað eftir að markmið væru sett til að ná fram jafnrétti með aðgerðum og hvernig best væri að ná fram þeim markmiðum.
    Í þeim jafnréttisáætlunum sem félmrn. hafa borist

er höfuðáhersla lögð á í fyrsta lagi fjölgun kvenna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum en jafnframt er lögð áhersla á að breyta hinum hefðbundnu kvennastörfum í ráðuneytum, m.a. með annarri starfslýsingu og verkefnum sem gæti fengið karlmenn til umræddra starfa. Í annan stað fjölgun kvenna í ráðum og nefndum. Í þriðja lagi endurmenntun og/eða starfsþjálfun kvenna og í fjórða lagi launajafnrétti. Þetta eru þau atriði sem helst er lögð áhersla á í þeim jafnréttisáætlunum sem ráðuneytinu og Jafnréttisráði hafa borist.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Með hvaða hætti verður þessum áætlunum fylgt eftir?``
    Um næstu áramót munu félmrn. og Jafnréttisráð fara yfir viðkomandi jafnréttisáætlanir og meta stöðuna og hvaða árangur hefur náðst. Í framhaldi af því verður síðan tekin ákvörðun um hvernig áætlununum verður fylgt eftir.