Jafnréttisáætlanir
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda að það er mjög miður að ekki skyldu fleiri jafnréttisáætlanir hafa skilað sér. Það er reyndar svo að frá þeim ráðuneytum sem fáar stofnanir heyra undir hafa flestar áætlanirnar skilað sér. En það er mjög miður að t.d. frá skólunum og sjúkrastofnunum skuli fáar sem engar áætlanir hafa komið. Ef það er tekið með þá vantar örugglega 200--300 áætlanir til þess að fá heildarmynd af þessu öllu því þarna er um að ræða mjög marga skóla og mjög margar sjúkrastofnanir. Og ef það væri allt með hygg ég að það vanti kannski upp undir 300 áætlanir og jafnvel fleiri. Þetta er auðvitað mjög miður.
    Ég mun gera aðra tilraun og ítreka það við viðkomandi ráðuneyti sem ekki hafa skilað, eða þeirra undirstofnanir, skrifa þeim og ítreka að þessar áætlanir skili sér svo við höfum betri heildarmynd þegar staðan verður metin um nk. áramót.