Rit um kristni á Íslandi í þúsund ár
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Í greinargerð með þáltill. þessari sem hér er til meðferðar er vitnað til ályktunar Alþingis frá 1986, þar sem forsetum Alþingis var falið að vinna að athugun á því með hvaða hætti yrði af hálfu Alþingis minnst 1000 ára afmælis kristnitökunnar. Þá er og í greinargerðinni vitnað í framsöguræðu sem ég flutti fyrir þáltill. 1986. Mér þykir nú tilhlýða að ég geri grein fyrir eða rifji upp hvað gerðist og hver voru viðhorf til kristnitökuafmælisins áður en kom til aðdraganda þeirrar þáltill. sem við nú ræðum. Með leyfi hæstv. forseta vil ég nú sjálfur vitna til ræðu minnar 1986, en þar segir m.a.:
    ,,Kirkja landsins hlýtur að minnast kristnitökunnar. Þjóðkirkjan hefur þegar látið málið til sín taka. Samkvæmt ákvörðun kirkjuþings 1984 tilnefndi kirkjuráð snemma árs 1985 nefnd þriggja manna, svonefnda kristnitökunefnd. Nefnd þessa skipa herra Pétur Sigurgeirsson, biskup Íslands, og er hann formaður nefndarinnar, séra Heimir Steinsson, sóknarprestur og þjóðgarðsvörður, og séra Jónas Gíslason dósent. Nefnd þessi skal gera tillögur um það hversu haga beri athöfnum þeim og framkvæmdum sem efnt verður til af kirkjunnar hálfu vegna 1000 ára afmælis kristnitökunnar á Þingvöllum við Öxará.
    Kristnitökunefnd þjóðkirkjunnar hefur þegar unnið gott starf. Þar hafa komið fram margháttaðar hugmyndir um athafnir og framkvæmdir af hálfu kirkjunnar í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitökunnar. Miða þessar hugmyndir mjög að trúarlegri vakningu í landinu. Þessar hugmyndir voru ræddar á kirkjuþingi sl. haust og skulu ekki gerðar að umræðuefni hér.``
    Þetta var um hlut kirkjunnar í tilefni kristnitökuafmælisins. En hvað um hlut Alþingis til minningar um merkasta löggjafarstarf þess? Með leyfi hæstv. forseta vitna ég í sömu ræðu mína 1986. Þar segir um þetta efni:
    ,,Eins og þjóðkirkjan mun minnast kristnitökunnar með sínum hætti, svo hlýtur Alþingi að minnast þessa atburðar á sinn hátt. Kirkjan mun nota þetta tilefni til trúarvakningar og eflingar kristni í landinu. Hver verður þá hlutur Alþingis? Hvernig ætlar Alþingi að nota tilefni þessa merkisafmælis?
    Hafa ber í huga að ekki er aðalatriðið að halda hátíð í tilefni afmælisins heldur nota afmælið sem tilefni til varanlegra framkvæmda. Því er spurt. Einkum hefur komið til tals að Alþingi noti tilefni 1000 ára afmælis kristnitökunnar til ráðstafana og framkvæmda sem efla mættu tengsl þess við hinn forna þingstað. Slíkt mætti í senn treysta Alþingi í þjóðarvitund og auka á reisn þess.``
    Hér er gerður greinarmunur annars vegar á hlutverki kirkjunnar og hins vegar því sem tilheyrir Alþingi þegar minnst er 1000 ára afmælis kristnitökunnar. Kirkjuráð hafði árið 1985 tilnefnt sína kristnitökunefnd. Á sama hátt samþykkti Alþingi 1986 að fela forsetum þingsins að hafa forustu þessara mála

af þess hálfu. Það var gert ráð fyrir að hvor aðili fyrir sig, Alþingi og kirkjan, hefði forræði á sínu sviði um aðgerðir í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitökunnar. Hins vegar hlutu Alþingi og kirkjan að hafa samráð og samvinnu um það sem lýtur að kristnitökuafmælinu. Þannig var komið á sameiginlegum fundum forseta Alþingis og kristnitökunefndar þjóðkirkjunnar þegar árið 1985.
    Í framsöguræðu minni 1986, sem áður er vitnað til, sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þó að Alþingi og þjóðkirkjan noti tilefni 1000 ára afmælis kristnitökunnar sitt með hvorum hætti hljóta þessir aðilar að standa saman að margs konar undirbúningi að sameiginlegum hátíðahöldum á kristnitökuafmælinu. Við gerum ráð fyrir að þjóðhátíð verði árið 2000.``
    Nú er lögð fram á Alþingi þáltill. um að fela forsetum Alþingis að standa fyrir samningu ritverks um kristni á Íslandi. Það er af hinu góða að hreyfing er á viðbúnaði vegna kristnitökuafmælisins og því fagna ég. En hins vegar vil ég láta koma fram að mér finnst að þessi þáttur, samning rits um kristni á Íslandi, eigi fremur heima hjá kirkjunni sjálfri en Alþingi. Ég segi þetta með hliðsjón af viðhorfum þeim sem ríkjandi voru áður fyrr og ég hef hér greint frá. Það hefði farið betur á að Alþingi hefði látið kirkjunni sjálfri eftir þetta ritverk. Hins vegar ætti Alþingi að fara að snúa sér að viðfangsefnum sem gætu markað varanleg spor til minningar um kristnitökuna með því að auka á veg og reisn löggjafarþingsins sjálfs þar sem undrin og stórmerkin gerðust. Gleymum ekki að svo var stjórnvisku fyrir að fara að ekki má einungis nú vera til fyrirmyndar okkur Íslendingum heldur öllum þjóðum til friðsamlegra lausna á vandamálum mannlegra samskipta. Slíkir eru þeir atburðir sem minnast verður að maklegheitum.
    Ég er ekki að segja með þeim athugasemdum sem ég hef hér gert að Alþingi eigi ekki að kosta útgáfu þess rits sem hér er verið að fjalla um. Ég hefði viljað flytja tillöguna breytta í þá veru sem ég hef nú rætt um. Þá hefði tillagan orðast svo:
    ,,Alþingi samþykkir, með tilvísun til þingsályktunar frá 17. apríl 1986, um
þúsund ára afmæli kristnitökunnar, að greiða úr ríkissjóði þjóðkirkju Íslands og guðfræðideild Háskóla Íslands kostnað við að standa fyrir samningu ritverks um kristni á Íslandi og áhrif hennar á þjóðlíf og menningu í þúsund ár.`` Á þennan hátt væri sagt allt sem þarf að segja, allt sem þarf að gera af hálfu Alþingis.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að bera fram brtt. Ég vil ekki efna til ágreinings um mál sem samstaða á að vera um. En ég segi skoðun mína ef það mætti vera hv. þm. til umhugsunar og sérstaklega nefndinni sem ég tel eðlilegt að fái málið til meðferðar.