Rit um kristni á Íslandi í þúsund ár
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Guðrún Helgadóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Vegna þeirra hv. þm. sem ekki voru í salnum til að hlýða á ræðu mína vil ég taka fram að ég sagði að ég teldi ekki ástæðu til að vísa málinu til nefndar þar sem að þessu máli stæðu allir þingflokkar og hefðu um málið fjallað. Einnig hefði verið haft náið samráð við guðfræðideild Háskólans, við herra biskupinn yfir Íslandi og um málið hefði verið fjallað í samstarfsnefnd þjóðkirkjunnar og Alþingis.
    Ég sé ekki betur en að meðferð málsins í nefnd yrði sú að allir þessir sömu aðilar fengju óhjákvæmilega málið til umsagnar. Vitaskuld geri ég það ekki að neinu ágreiningsefni ef hv. 4. þm. Vestf. er það mikið mál að málið verði sent til hv. allshn. Ég taldi að hv. þm. hefðu þegar kynnt sér þetta allnákvæmlega og væru þess reiðubúnir að greiða um það atkvæði. Sé svo ekki vænti ég þess auðvitað að það verði ekki til þess að hefta framgang málsins á nokkurn hátt að það fái umfjöllun í nefnd, en við lítum svo á að í raun og veru sé ekki þörf á því. En það verður auðvitað lagt í hendur hv. alþm. að ákveða það og ég legg því til að um það verði einfaldlega greidd atkvæði.