Yfirstjórn öryggismála
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um samhæfða yfirstjórn öryggismála. Tillögu þessa flyt ég ásamt Matthíasi Á. Mathiesen, Friðjóni Þórðarsyni og Ólafi G. Einarssyni.
    Lagt er til að könnuð verði og undirbúin setning löggjafar um yfirstjórn öryggismála. Ætlunin er að ná fram skilvirkri stjórnun með samhæfingu einstakra þátta öryggis- og löggæslu. Tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar er miðað við að nýta megi sem best mannafla og tæknibúnað fyrir það fjármagn sem til þessara mála er veitt. Hins vegar stefnt að því að efla megi öryggi ríkisins og almennings í landinu með nýjum aðferðum og nýjum vinnubrögðum eftir því sem breyttir tímar og staða landsins á hverjum tíma gera nauðsynlegt.
    Nú eru einstakir þættir öryggis- og löggæslumála aðskildir í stjórn og framkvæmd. Lögregla og Landhelgisgæsla eru aðskilin, tollgæsla er sér á báti og almannavarnir lúta sérstjórn. Hver grein fyrir sig byggir sig upp af liðsafla og útbúnaði sem í mörgum tilfellum getur þjónað fleirum en einum aðila. Það verður svo hins vegar best gert að einstakar stofnanir kosti ekki til tækjabúnaðar hver fyrir sig, heldur að tækin til sameiginlegra nota séu á einni hendi, undir einni yfirstjórn.
    En það er ekki einungis að samhæfa megi nýtingu tækjabúnaðar einstakra stofnana, heldur er og ekki síður mikilvægt að samhæfa mannaflann. Það þarf að gera með margvíslegum hætti eftir því sem atvik bera að. Það getur borið við að nauðsynlegt sé að menn Landhelgisgæslunnar komi til liðs við menn lögreglunnar og öfugt. Tollgæslumenn á vettvangi geta þurft aðstoðar lögreglu og Landhelgisgæslu. Sama er að segja um útlendingaeftirlit, fíkniefnavarnir og mengunarvarnir. Almannavarnir eru í eðli sínu ekki annað en samspil þess liðsafla sem upp á er að hlaupa í einstökum greinum öryggis- og gæslumála.
    Á miklu veltur að liðsafli sem til reiðu er sé sem haganlegast nýttur. Það verður svo hins vegar best gert að liðsaflinn taki mið af hinu víðara samhengi öryggis- og löggæslumála en besta leiðin til þess er að þau lúti einni stjórn.
    Það eru þessi sjónarmið sem liggja til grundvallar þeirri hugmynd að komið verði á fót sérstakri yfirstjórn öryggismála, þar sem verði samhæfð stjórn lögreglumála, landhelgisgæslu og mála er varða tollgæslu, almannavarnir og aðra öryggisgæslu.
    Þessari skipulegu samstjórn er ekki einungis ætlað að koma til leiðar hagræðingu og betri nýtingu fjármuna heldur og að leiða til markvissari og traustari framkvæmdar í löggæslu- og öryggismálum. Þessari skipan er ekki einungis ætlað að ná til þeirra þátta löggæslu og öryggismála sem nú er við að fást, heldur og einnig að vera umgjörð að verkefnum á þessu sviði sem ríkið kann í framtíðinni að láta til sín taka. Hér er því um að ræða breytingu sem hefur grundvallarþýðingu fyrir alla löggæslu og öryggismál þjóðarinnar.

    En sú skipan öryggis- og löggæslu sem hér er lagt til að stofnað verði til tekur mið af eðlismun einstakra þátta löggæslunnar og margbreytileik. Engin breyting er gerð á skipan umboðsstarfa lögreglustjóra þannig að gjaldheimta og tollheimta heyra undir þá sömu og áður, hvort sem um er að ræða fjmrh. eða aðra aðila. Eftir sem áður helst skipting landsins í lögsagnarumdæmi. Ekki er lögð til breyting á valdsviði og hlutverki lögreglustjóra einstakra lögsagnarumdæma. Þeir málaflokkar sem ekki fara eftir skiptingu í lögsagnarumdæmi, svo sem gæsla landhelginnar, lúta stjórn án umdæmaskiptingar eins og hingað til. Sama er að segja um almannavarnir og ýmiss konar öryggisþjónustu svo að ekki sé talað um þau verkefni sem beint varða varnir landsins.
    Gert er ráð fyrir að með yfirstjórn allra öryggis- og löggæslumála fari forstjóri eða öryggismálastjóri sem heyri undir dómsmrh. Hlutverk embættis öryggismálastjóra er að fara með yfirstjórn landhelgisgæslu, almannavarna og löggæslu að svo miklu leyti sem lögregluaðgerðir varða fleiri en eitt lögsagnarumdæmi, t.d. ef kveðja þarf til liðsafla frá fleiri en einu umdæmi og tækjabúnað sem ætlaður er til sameiginlegra nota.
    Það gefur hlutverki öryggismálastjóra aukið vægi að gert er ráð fyrir að leggja megi undir hina samhæfðu yfirstjórn öryggismála alla þætti þessara mála, hvort sem þeim hefur verið sinnt hingað til eða ekki. Eru þá landvarnir fyrst og fremst hafðar í huga.
    Öll ríki verða að láta landvarnir til sín taka með einum eða öðrum hætti. Ísland er engin undantekning í þessu efni. Við Íslendingar höfum leyst þetta viðfangsefni, að tryggja öryggi landsins út á við, með þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og samningi við Bandaríkin um varnarlið hér á landi. Eitt veigamikið verkefni varnarliðsins er að annast margs konar eftirlitsstörf til öryggis og gæslu. Ýmsum þessara starfa erum við Íslendingar jafnfærir um að gegna og öðrum öryggis- og gæslustörfum sem við höfum nú á eigin hendi. Öll slík verkefni þarf þá að samhæfa öðrum öryggis- og gæslustörfum sem ríkið hefur með höndum undir einni stjórn.
    Ekkert er eðlilegra en að þeir hinir sömu sem njóta góðs af öryggisgæslu í okkar heimshluta svo að friður megi haldast standi undir kostnaði af þeirri umsýslu. Hér væri þá um að ræða skipan ekki óáþekka þeirri sem nú er á umsýslu okkar Íslendinga á hinu víðáttumikla svæði flugumferðarstjórnar á Norður-Atlantshafi sem Alþjóðaflugmálastofnunin ber kostnað af.
    Þessi þáltill. kveður ekki á um veru varnarliðsins hér á landi. Hins vegar fjallar hún um að komið verði á fót sameiginlegri eða einni stjórn sem samhæfi þá stjórnarsýslu sem lýtur að öryggis- og löggæslu ríkis og almennings í landinu. Gert er ráð fyrir að þessi samræmda gæsla verði að skipulagi og framkvæmd þannig að hún sé þess umkomin að taka við verkefnum af varnarliðinu eftir því sem við verður komið og allri öryggis- og löggæslu á Keflavíkurflugvelli þegar til þess kemur að varnarliðið

hverfur af landi brott. Það er hvorki gengið út frá því að erlent varnarlið verði í landinu um alla framtíð né að innlendum her verði komið á fót.
    Þau störf sem varða landvarnir og til mála kemur að við Íslendingar tökum í eigin hendur eru bæði margháttuð og mikilvæg. Sum höfum við þegar tekið að okkar, svo sem flugumferðarstjórn á Keflavíkurflugvelli, lögreglustjórn á Keflavíkurflugvelli og rekstur ratsjárstöðvanna. Ekkert er svo til fyrirstöðu að Íslendingar geti annast þá þyrluþjónustu sem rekin er nú af björgunarsveit varnarliðsins. Við eigum að geta tekið við öryggissveitunum á Keflavíkurflugvelli, slökkviliðinu þar og eftirlitsstarfsemi sem þaðan er haldið uppi með haf- og loftsvæðum umhverfis Ísland. Það þarf undirbúning til að takast á hendur svo veigamikil verkefni. Þjálfun manna til slíkra verka tekur í sumum tilvikum nokkra mánuði, í öðrum nokkur ár.
    Sú þáltill. sem hér er fram borin miðar að því að koma á skipun sem geti gert okkur mögulegt að annast sjálfir í ríkum mæli mál sem varða landvarnir. Í löndum sem hafa her til reiðu mundu þeir málaflokkar sem hér um ræðir falla undir herstjórn og hermálaráðuneyti. En hér er gert ráð fyrir að þessi mál heyri til öryggismálastjóra undir dómsmrh. Jafnframt er reiknað með að mál sem varða innra öryggi ríkisins, svo sem löggæsla í vissum tilfellum og almannavarnir, falli undir sama embætti öryggismálastjóra. Hér er um að ræða málaflokka sem í erlendum ríkjum heyra gjarnan undir ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneyti. Þannig byggir þáltill. sem við nú ræðum á þeirri hugsun að hér á landi sameinum við mál er varða innra öryggi ríkisins og mál sem varða landvarnir undir einum og sama embættismanni, öryggismálastjóra, sem heyri undir dómsmrn. Þessi skipan er hugsuð með tilliti til séraðstæðna lands og þjóðar í þessum efnum.
    Þáltill. þessi er um undirbúning að mikilvægu máli. Lagt er til að undirbúin verði setning löggjafar um samhæfða yfirstjórn öryggismála. Þetta er óvenjumikið og vandasamt verk. Það kallar á vandvirk vinnubrögð. Þess vegna er ráð fyrir gert að Alþingi kjósi sérstaka þingmannanefnd til að vinna verkið. Því er og gert ráð fyrir að Alþingi fylgist með framvindu verksins. Það tekur sinn tíma að undirbúa slíka löggjöf sem hér um ræðir. Ekki má ana að neinu. Þess vegna er gert ráð fyrir tíma til stefnu.
    Samt sem áður er hér ekki um að ræða mál sem líta má svo á sem allt sé í lagi að ljúka einhvern tíma við hentugleika. Þvert á móti er hér um aðkallandi mál að ræða sem þolir enga óþarfa bið. Kemur þar raunar margt til. Það verður svo fljótt sem auðið er að koma á þeirri hagræðingu sem fylgir samhæfingu þátta í öryggis- og löggæslumálum á einni hendi. Það er mikil nauðsyn að halda sem best á því fjármagni sem nú er veitt til þessara mála. Það gerum við með bættri skipan og skilvirkari stjórnun. Þá verðum við að mæta nýjum viðhorfum og hættum með því að efla öryggi og gæslu almennings. Einnig þarf sérstaklega að gæta öryggis æðstu stjórnar og stofnana ríkisins. Við

þurfum að vera viðbúnir ef með þarf að geta mætt sem best þeirri skálmöld ofbeldis og skemmdarverka sem nú gengur yfir víða um heim.
    Þá þurfum við Íslendingar nú að hafa hliðsjón af þeirri öru þróun heimsmála um þessar mundir sem taka verður tillit til í viðhorfum til öryggis- og varnarmála landsins. Stríðsviðbúnaður fer vonandi þverrandi en umsýsla eftirlits og hvers konar gæslu vegur meira. Þannig flyst áhersla frá því sem við erum sjálfir ófærir um til þess sem er innan marka hins mögulega fyrir okkur sjálfa. Við þurfum að vera þess viðbúnir að geta aukið hlutdeild okkar í því sem varðar öryggi og varnir landsins. Það gerum við svo best að koma á fót skipan sem miðar að því að hægt sé að taka við þeim verkefnum sem eru þess eðlis að við getum annast þau sjálfir. Til þess þarf markvissan undirbúning. Það gerum við með því að koma á laggirnar þeirri samhæfðu stjórn öryggismála sem þessi tillaga gerir ráð fyrir. Þess vegna er tillagan líka tímabær og aðkallandi. Þannig verðum við Íslendingar viðbúnir til að mæta þeim kröfum sem til okkar eru gerðar sem fullvalda þjóðar.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér leitast við í stuttu máli að gera nokkra grein fyrir miklu máli. Ég hef hér reifað ýmsar hugmyndir og viðhorf sem liggja að baki þessari þáltill. um samhæfða yfirstjórn öryggismála. En ég geri mér grein fyrir að framkvæmdin getur verið á fleiri en einn veg. Og það sem ég hef hér
sagt eru í ýmsu ábendingar sem ég ætla að geti orðið að gagni. Það er hins vegar verkefni þingkjörinnar nefndar alþingismanna að grandskoða þetta umfangsmikla mál og búa í frumvarpsform. Veltur þá á mestu að það megi takast að móta aðferðina svo að grundvallarhugsunin að samhæfðri yfirstjórn öryggismála nái fram að ganga.
    Að lokum vil ég aðeins segja þetta: Til þess að ríki geti talist fullvalda þarf að vera fyrir hendi ríkisvald. Mikilvægi trausts ríkisvalds orkar ekki tvímælis. Í þjóðarsál okkar Íslendinga á að vera greypt sú staðreynd að missi sjálfstæðis þjóðarinnar hafi mátt rekja til veiks ríkisvalds á þjóðveldistímanum. Þegar íslenska þjóðin hefur nú heimt sjálfstæði sitt á ný má ekki bregðast að ríkið gæti frumskyldu sinnar við eigið öryggi og öryggi almennings í landinu. Þess vegna er mál það sem við nú hér ræðum eitt hið allra mikilvægasta.
    Hæstv. forseti. Eftir að umræðu þessari lýkur legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. allshn.