Yfirstjórn öryggismála
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Með flutningi þeirrar till. til þál. um samhæfða yfirstjórn öryggismála sem hér er til umræðu er fjallað um einn grundvallarþáttinn í rekstri hvers ríkis. Það er vísast rétt sem víða kemur fram í yfirgripsmikilli greinargerð sem fylgir með tillögunni að um margt er þróun og staða þessara mála hér á landi með öðrum hætti en með mörgum öðrum þjóðum. Engu að síður er mikilvægi hvers þessara þátta, er hér eru sérstaklega til umræðu, jafnþýðingarmikið og hvarvetna í öðrum löndum. Löggæsla, þar með talin tollgæsla, landhelgisgæsla og almannavarnir eru allt hyrningarsteinar er saman mynda þá öryggisgæslu sem ríki og þjóð er alger nauðsyn á. Auðvitað bera allir þessir þættir það með sér að sjálfstæði þjóðar okkar er ekki ýkja gamalt. Enn fremur hlýtur fólksfæð í fremur stóru en harðbýlu landi að setja mark sitt í þessu efni að ógleymdu firnavíðu hafsvæði sem fáeinum skipum og flugvélum er ætlað að gæta. Þess vegna er síst ofmælt að hér er tekið til umfjöllunar eitt þýðingarmesta mál hverrar þjóðar og í rauninni vonum sjaldnar sem mál af þessu tagi eru tekin til rækilegrar umfjöllunar eða reynt að brjóta þau til mergjar. Þegar af því tilefni er full ástæða til að þakka framsögumanni og öðrum flm. það frumkvæði og þá árvekni sem þeir sýna með flutningi tillögunnar. En meginefni hennar á vitaskuld eftir að metast og prófast í umræðu hér á þingi og ekki síður í nefndarstarfi og umsögnum þeirra fjölmörgu aðila er mál þetta varðar.
    Hver sem niðurstaða þeirrar umfjöllunar verður er jafnvíst að full ástæða er til að ræða þetta mál af fullri einurð, eins og hér hefur nú þegar verið gert, og leitast við að svara þeim spurningum sem flutningur tillögunnar óneitanlega vekur.
    Nú er það greinilega ekki ætlan flm. að leggja til byltingarkenndar breytingar í þessu efni. Miklu fremur er málum hreyft hér með ákveðna þróun í
huga og áhuga á að ýta undir þá þróun. E.t.v. er skýringin á því hve yfirleitt er hljótt um þessi efni hér á hinu háa Alþingi hin seinni árin tengd þeirri séstöðu okkar að við höfum ekki og munum ekki hafa eigin her á að skipa, en þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu og dvöl varnarliðsins hér á landi hins vegar er brennidepillinn í pólitískum deilum um áratuga skeið. Hvort sem það er rétt eða ekki leiðir flutningur þessarar þáltill. óneitanlega hugann að aukningu verkefna á þessum sviðum er leiða kynni að hugsanlegri áherslubreytingu í starfsemi varnarliðsins hér á landi, m.a. sem afleiðingu af þróun mála í Evrópu nú um þessar mundir.
    Mig langar að minna á í þessu sambandi, sem reyndar hefur komið hér fyrr fram í umræðunni, að það skipulag sem við höfum tekið upp hér á landi um almannavarnir og nú er á komin nokkur reynsla er að minni hyggju óvenju einfalt, afar ódýrt en einkar skilvirkt í þau skipti sem á það hefur reynt. Ég efast stórlega um að meðal annarra þjóða hafi jafn vel tiltekist og hér hefur raunin á orðið í því efni.

    Eins og ég áðan gat um eru hér ekki byltingarkenndar tillögur á ferð heldur meginmarkmið að ná fram meiri skilvirkni í heildarstjórn. Enda segja flm. í greinargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sú skipan öryggis- og löggæslu, sem hér er lagt til að stofnað verði til, tekur mið af eðlismun einstakra þátta löggæslunnar og margbreytileik. Engin breyting er gerð á skipan umboðsstarfa lögreglustjóra þannig að gjaldheimta og tollheimta heyra undir þá sömu og áður hvort sem um er að ræða fjmrh. eða aðra aðila. Eftir sem áður helst skipting landsins í lögsagnarumdæmi. Ekki er lögð til breyting á valdsviði og hlutverki lögreglustjóra einstakra lögsagnarumdæma. Þeir málaflokkar, sem ekki fara eftir skiptingu í lögsagnarumdæmi, svo sem gæsla landhelginnar, lúta stjórn án umdæmaskiptingar eins og hingað til. Sama er að segja um almannavarnir og ýmiss konar öryggisþjónustu svo að ekki sé talað um þau verkefni sem beint varða varnir landsins.
    Gert er ráð fyrir að með yfirstjórn allra öryggis- og löggæslumála fari forstjóri eða öryggismálastjóri sem heyrir undir dómsmálaráðherra.``
    Í þessum seinustu tilvitnuðu orðum um öryggismálastjóra og verkefni hans er í raun fólginn kjarni þeirrar till. til þál. sem hér er flutt. Ég vil fyrir minn hlut mæla með því að tillaga þessi fái þinglega meðferð og alla þá umfjöllun sem henni ber. Ég endurtek um leið þakklæti til frsm., hv. 4. þm. Vestf., og annarra flm.