Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 22. mars 1990


     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Alþingi tekur nú öðru sinni til umræðu í Sþ. skýrslu umboðsmanns Alþingis en skv. 12. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, skal umboðsmaður árlega gefa Alþingi skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Með sama hætti og gert var í fyrra þótti rétt að einn okkar þingforseta mælti fyrir skýrslunni.
    Skýrsla sú sem hér liggur fyrir er fyrir árið 1989. Lögin um umboðsmann Alþingis tóku gildi 1. jan. 1988 en á fundi í Sþ. hinn 17. des. 1987 var dr. Gaukur Jörundsson kjörinn í starf umboðsmanns Alþingis til næstu fjögurra ára. Liðið ár er því annað árið sem umboðsmaður Alþingis starfaði. Í bréfi umboðsmanns er fylgdi skýrslunni og prentað er fremst í henni er lýst efni skýrslunnar. Hún skiptist í fimm kafla og fjallar sá fyrsti um störf umboðsmanns og rekstur skrifstofu hans á árinu 1989. Í II. kafla er að finna tölulegar upplýsingar um skráð mál og afgreiðslur þeirra árið 1989. III. kafli skýrslunnar hefur að geyma álit og aðrar niðurstöður á afgreiddum málum á árinu 1989. Þar eru þó aðeins tekin með þau mál sem hafa almenna þýðingu fyrir starf umboðsmanns og starfshætti í stjórnsýslunni. Í IV. kafla er gerð grein fyrir framvindu mála sem fjallað var um í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1988. Síðasti kafli skýrslunnar hefur að geyma skrár yfir lagatilvitnanir og atriðisorð.
    Á árinu 1989 voru skráð hjá umboðsmanni 154 ný mál. Þar af voru 150 kvartanir frá einstaklingum og lögaðilum en fjögur mál tók umboðsmaður upp að eigin frumkvæði. Til samanburðar má geta þess að á árinu 1988 voru skráð hjá umboðsmanni Alþingis 70 mál en þá ber að hafa í huga að skrifstofa umboðsmanns opnaði ekki fyrr en í júlímánuði það ár. Í upphafi árs 1989 var 35 málum frá fyrra ári ólokið. Alls fjallaði umboðsmaður því á árinu um 189 mál og af þeim höfðu 122 hlotið afgreiðslu við síðustu áramót. Þær tölur sem hér hafa verið nefndar eiga þó aðeins við um þau mál sem eru formlega skráð í tilefni af skriflegri kvörtun eða umboðsmaður hefur tekið upp að eigin frumkvæði.
    Umboðsmaður tekur fram í skýrslu sinni, bls. 5, að mikið sé einnig um að menn hringi eða komi á skrifstofu hans og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oft greitt úr málum með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar án þess að til skráningar komi. Fram kemur í skýrslunni að þessi þáttur í starfi umboðsmanns sé tímafrekur og hafi farið vaxandi.
    Viðfangsefni þeirra mála sem berast til umboðsmanns eru af margvíslegum toga eins og fram kemur í yfirliti á bls. 13 í skýrslunni. Kvartanir hafa líka beinst að ýmsum ráðuneytum og stofnunum eins og sést á yfirliti á bls. 12.
    Þess var áður getið að umboðsmaður hefur heimild til að taka mál upp að eigin frumkvæði. Á síðasta ári tók umboðsmaður fjögur slík mál til meðferðar og var þremur þeirra lokið á árinu. Fjallaði eitt málið um

hækkun á gjaldskrá fyrir Bifreiðaskoðun Íslands hf. miðað við eldri gjaldskrár á þeim tíma sem hækkanir á gjaldskrám fyrirtækja á vegum ríkisins voru bannaðar á síðasta ári. Álit þetta er að finna á bls. 124--128. Í niðurstöðu sinni á bls. 128 vísaði umboðsmaður m.a. til sjónarmiða um jafnræði
við lagaframkvæmd og önnur stjórnsýslustörf. Þetta minnir á að það er eitt af hlutverkum umboðsmanns Alþingis, skv. 2. gr. laga nr. 13/1987, að gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.
    Annað mál sem umboðsmaður tók upp að eigin frumkvæði laut beint að góðum stjórnsýsluháttum en það er álit hans um nauðsyn þess að ráðuneyti og önnur stjórnvöld móti reglur um svör við erindum frá einstaklingum sem til þeirra leita. Þarna hreyfir umboðsmaður mikilsverðu máli og það er ástæða til að taka undir með honum að greið svör af hálfu stjórnvalda og skýringar á því hvað tefji svör eða hvenær þeirra megi vænta er nauðsynlegt skilyrði eðlilegra samskipta almennings og stjórnvalda og þess trausts sem stjórnvöld verða að njóta hjá almenningi.
    Í framhaldi af þessu er vert að vekja athygli á orðum á bls. 7 í skýrslunni þar sem umboðsmaður vitnar til þeirra sjónarmiða sem sett voru fram í greinargerð með frv. til stjórnsýslulaga er flutt var samhliða frv. til laga um umboðsmann Alþingis árið 1986 um náin tengsl þessara tveggja frumvarpa og að reglur um málsmeðferð í stjórnsýslulögum næðu betur tilgangi sínum ef þeim væri fylgt eftir af umboðsmanni Alþingis og að sama skapi mundu slíkar reglur styrkja starf umboðsmanns.
    Umboðsmaður tekur fram að tveggja ára reynsla hans af starfi umboðsmanns Alþingis hafi sannfært hann um að ofangreind sjónarmið eigi við veigamikil rök að styðjast og hann hvetur til þess að frv. til stjórnsýslulaga verði lagt fyrir Alþingi. Jafnframt lýsir hann sjónarmiðum sínum um nokkur efnisatriði sem eigi heima í slíkum lögum. Tilmælum um þetta efni beindi umboðsmaður til forsrh. með bréfi dags. 29. des. sl. og á bls. 8 í skýrslunni kemur fram að mál þetta er nú til meðferðar hjá nefnd þeirri sem áður hefur skilað frv. til
nýrra stjórnsýslulaga. Vonandi verður frv. til nýrra stjórnsýslulaga lagt fram hér á Alþingi sem fyrst þannig að löggjöf um það efni verði í framtíðinni til að styrkja starf umboðsmanns og auðvelda ráðuneytum að sinna skyldum sínum. Örar framfarir í tölvutækni við skrifstofuhald eiga að auðvelda opinberum stofnunum eins og öðrum að koma föstu skipulagi á meðferð mála og afgreiðslu þeirra. Þegar búið er að koma slíku skipulagi á ætti það að auðvelda viðkomandi aðila að ráða við verkefnin, a.m.k. þarf ekki að eyða tíma í að svara stöðugum fyrirspurnum um hvað afgreiðslu mála líði.
    Mörg dæmi eru um það í skýrslunni að stjórnvöld hafi ákveðið að fara að tilmælum í niðurstöðum álita umboðsmanns og á það við um meginþorra þeirra. Hins vegar nefnir umboðsmaður í skýrslu sinni að

stjórnvöld hafi í nokkrum tilvikum reynst treg til að verða við tilmælum í niðurstöðum ályktana. Vitnar hann þar m.a. til tiltekinna mála um málsmeðferð stjórnvalda varðandi ákvarðanir um forsjá barna, umgengnisrétt milli kynforeldris og barns sem komið hefur verið fyrir í fóstur, aðgang að skýrslum í vörslu stjórnvalda og niðurstöðu hans í máli er varðaði rétt til að skjóta ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðar félmrn. Af þessu tilefni ítrekar umboðsmaður þá skoðun hans, sem fram kom í skýrslu hans í fyrra, að forsenda laga nr. 13/1987 væri sú að tillit væri tekið til álita umboðsmanns Alþingis og að Alþingi verði að taka á ný afstöðu til þess með hvaða hætti skuli vikið að endurbótum í stjórnsýslu hér á landi ef þessi forsenda bregst.
    Í upphafi 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis segir að það sé hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Umboðsmanni Alþingis er hins vegar ekki fengið beint vald til afskipta af störfum stjórnvalda til að fylgja eftir því hlutverki sem lögin ætla honum. Alþingi hefur með lögum ákveðið að borgararnir geti snúið sér til þessa umboðsmanns þjóðþingsins og fengið álit hans um starfshætti í stjórnsýslunni en umboðsmaður megnar ekki að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnsýslu landsins eins og honum er ætlað samkvæmt lögum ef stjórnvöld virða hann ekki svars eða tregðast við að taka tillit til álita hans.
    Ríkisstjórn og þeir sem við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga starfa á hverjum tíma verða að gera sér grein fyrir að Alþingi hefur falið þeim manni sem gegnir starfi umboðsmanns að hafa í umboði þess eftirlit með stjórnsýslunni og Alþingi hefur valið þann mann til starfsins sem það treystir til að fara með þetta hlutverk. Það var vilji Alþingis að starf umboðsmanns yrði raunverulegt úrræði fyrir borgara landsins ef þeir teldu sig rangindum beitta í samskiptum við stjórnvöld, en tregða stjórnvalda við að taka tillit til álita umboðsmanns og tilmæla gengur þvert á þetta markmið.
    Þess verður að vænta að stjórnvöld skilji að starf og ábendingar umboðsmanns Alþingis er mikilvægur stuðningur fyrir þau í hinum þýðingarmiklu störfum þeirra við að tryggja þjóðfélagsþegnunum góða og réttláta þjónustu. Að öðrum kosti verður Alþingi að taka á ný afstöðu til þess hvert það vill stefna með starfi umboðsmanns. Það hefur sýnt sig að það var þörf fyrir þetta embætti og almenningur leitar þangað í vaxandi mæli. Það væri hins vegar miður ef afstaða stjórnvalda yrði til þess að hindra árangur af því starfi. Ég tel því að aðfinnsla í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1990 um mikinn óbeinan kostnað ráðuneyta af starfi umboðsmanns sé á misskilningi byggð, enda lögðu forsetar Alþingis áherslu á að fjárveiting til umboðsmanns gerði honum kleift að sinna starfi sínum eftir þörfum.
    Skýrsla umboðsmanns Alþingis gefur alþm. gott tækifæri til að skyggnast inn í hin ýmsu mál sem til

úrlausnar eru í stjórnsýslunni og sjá með hvaða hætti er leyst úr þeim. En þó að það sé hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með stjórnsýslunni er einn þáttur í störfum hans sem rétt er að alþm. veiti sérstaka athygli. Eru það ábendingar hans um það sem nefnt er í 11. gr. laga um umboðsmann Alþingis meinbugir á lögum. Dæmi um slíkt mál er einmitt að finna á bls. 90 í skýrslunni, þar sem fjallað er um sáttaumleitanir vegna hjónaskilnaða. Við þeirri ábendingu varð Alþingi með breytingu á lögum um stofnun og slit hjúskapar fyrr á þessu þingi.
    Það er líka athyglisvert að lesa álit umboðsmanns, á bls. 55, á máli sem fjallar um breytingar á löggjöf varðandi útreikning ellilífeyris. Það mál ætti að minna okkur hv. alþm. á að fara varlega í breytingar á slíkum réttindum fólks.
    Hæstv. forseti. Fjölmörg mál sem umboðsmaður gerir grein fyrir í skýrslu sinni vekja líka upp spurningar um hvort löggjafarvaldið þarf ekki að kveða skýrar á í ýmsum tilvikum þegar það markar valdheimildir stjórnvalda. Almennt ætti sú innsýn sem alþingismenn fá í starfshætti stjórnsýslunnar við lestur skýrslu umboðsmanns að hvetja til þess að þingmenn hafi á sér meiri andvara við afgreiðslu mála er lúta að störfum og starfsháttum í stjórnsýslunni. Lagareglur þurfa að vera skýrar og í ýmsum tilvikum sýnist eðlilegra að leitað sé eftir vilja Alþingis fremur en ráðuneyti og stjórnvöld fari að túlka óljósar lagaheimildir.
    Hæstv. forseti. Ég vil svo að lokum þakka umboðsmanni Alþingis og starfsliði hans vel unnin störf sem fram koma í skýrslunni fyrir árið 1989.