Tilraunastöð Háskólans í meinafræði
Föstudaginn 23. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum sem er 430. mál þingsins. Það var í maímánuði 1987 að menntmrn. skipaði nefnd til að endurskoða málefni tilraunastöðvarinnar að Keldum. Í henni áttu sæti Guðmundur Eggertsson prófessor, tilnefndur af raunvísindadeild Háskóla Íslands, formaður, Margrét Guðnadóttir prófessor, tilnefnd af læknadeild Háskóla Íslands, Bjarni Guðmundsson, þáv. aðstoðarmaður landbrh., tilnefndur af landbrn., Guðmundur Pétursson forstöðumaður, tilnefndur af tilraunastöð Háskólans í meinafræði, Jónas Hallgrímsson prófessor, tilnefndur af heilbrrn., Leifur Eysteinsson, þáv. deildarstjóri, tilnefndur af Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Stefán Stefánsson stjórnarráðsfulltrúi, tilnefndur af menntmrn., Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Rannsóknaráði ríkisins. Starfsmaður ,,Keldnanefndar``, eins og nefndin var yfirleitt kölluð, var Eiríkur Baldursson deildarstjóri, Rannsóknaráði ríkisins.
    Í framhaldi af áliti þessarar nefndar sem skilaði mér viðamikilli skýrslu í febrúar 1989 skipaði ég nefnd í mars 1989 til að semja tillögur að frv. til laga um breytingar á lögum nr. 11/1947, um tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum. Í skipunarbréfi var tekið fram að nefndinni væri ætlað að byggja tillögur sínar á grundvelli nefndarálits Keldnanefndar frá febrúar 1989. Í þessari nefnd áttu sæti Guðrún Agnarsdóttir alþm., sem var formaður nefndarinnar, Haraldur Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, og Jón Höskuldsson lögfræðingur, deildarstjóri í landbrn.
    Þessi nefnd fór ítarlega yfir álit Keldnanefndar og í kynnisferðir að Keldum og ræddi við starfsfólk þar. Þá leitaði nefndin álits stjórnar læknadeildar og raunvísindadeildar á niðurstöðum Keldnanefndar, einkum hvað varðaði stjórnunarlega stöðu og tengsl tilraunastöðvarinnar við Háskóla Íslands. Nefndin leitaði einnig álits ýmissa annarra aðila, svo sem yfirdýralæknis og fyrrv. yfirdýralæknis, rektors Háskólans og háskólanefndar Dýralæknafélags Íslands svo að nokkuð sé nefnt.
    Þetta frv. sem hér liggur fyrir, herra forseti, miðast að verulegu leyti við tillögur Keldnanefndarinnar. Nefndin hefur þó vikið frá þeim í nokkrum atriðum og eins þurfti hún að taka afstöðu til ágreinings sem var í Keldnanefnd, m.a. varðandi tengsl stöðvarinnar við Háskólann og stjórnunarlega stöðu stofnunarinnar. Rétt þykir að tilraunastöðin sé áfram háskólastofnum og rannsóknavettvangur sem tengist læknadeild. Jafnframt skal stofnunin annast þjónustu við búfé, eldisdýr og villt dýr og er það hlutverk skilgreint sérstaklega.
    Í frv. er lagt til að stjórn stofnunarinnar sé heimilt í samráði við forstöðumann hennar að skipta starfsemi tilraunastöðvarinnar í rannsóknasvið eða deildir. Í tillögum Keldnanefndar er lagt til að slík heimild verði sett í reglugerð. Starfsemi stofnunarinnar er þegar að vissu leyti deildaskipt eftir verkefnum. Þróun starfseminnar og hefð hefur ráðið því að

rannsóknadeild sauðfjársjúkdóma hefur verið aðskilin frá tilraunastöðinni stjórnunarlega þar sem hún heyrir undir landbrn. Sú skipan á sér þó ekki stoð í lögum og breyting á henni krefst því ekki lagabreytinga. Lagt er til að rannsóknadeild sauðfjársjúkdóma verði sameinuð tilraunastöðinni og tilraunastöðin annist verkefni rannsóknadeildarinnar og aðrar rannsóknir á sauðfjársjúkdómum í samræmi við hlutverk sitt samkvæmt 2. gr. fyrirliggjandi frv.
    Þá hafa nýleg lög um rannsóknadeild fisksjúkdóma, nr. 50/1986, veitt samnefndri deild eða verkefnasviði formlega sérstöðu umfram önnur verkefnasvið tilraunastöðvarinnar. Þau lög þarf nú að endurskoða sérstaklega til samræmingar við efni þessa frv. ef að lögum verður, enda segir í þeim lögum að þau skuli endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra.
    Nefndin sem fjallaði um málið og gerði tillögur um frv. þetta ákvað eftir vandlega íhugun að gera ekki tillögur um breytingar á lögum um rannsóknadeild fisksjúkdóma að sinni, en telur eindregið að málefni er varða rannsóknir fisksjúkdóma eigi að falla undir lög og reglugerð um tilraunastöðina. Rannsóknir á fisksjúkdómum eins og öðrum dýrasjúkdómum samræmast fyllilega hlutverki þessarar stofnunar eins og það er skilgreint í 2. gr. frv. Að öðru leyti ættu málefni fisksjúkdóma eins og um þau er fjallað í núgildandi lögum um rannsóknadeild fisksjúkdóma að heyra undir sérstök lög um fiskeldi, fisksjúkdóma og varnir gegn þeim, sem brýna nauðsyn ber til að setja hið fyrsta að mati nefndarinnar og er það einnig álit menntmrn. Nefndin lítur svo á að núgildandi lög um rannsóknadeild fisksjúkdóma samræmist ekki þessu frv. og skuli einungis gilda til bráðabirgða eða þar til sérstök lög um fiskeldi, fisksjúkdóma og varnir gegn þeim hafa verið sett.
    Rétt þykir að stjórn stofnunarinnar hafi lagaheimild til þess að ákvarða að hve miklu leyti og hvernig skuli skipuleggja innra starf hennar í samræmi við þarfir og viðfangsefni á hverjum tíma. Nú ráða hefðir og sérstök lög misjöfnu vægi verkefnasviða eins og áður hefur komið fram. Nánari reglur um
deildaskiptingu eða verkefnasvið og hlutverk deildastjóra er því eðlilegt að setja í reglugerð.
    Við skipan stjórnar stofnunarinnar er að mestu leyti farið að tillögu meiri hluta Keldnanefndar. Rétt þykir að efla tengsl stofnunarinnar við bæði raunvísindadeild og læknadeild með því að skipa fulltrúa þeirra í stjórn stofnunarinnar og jafnframt að kveða svo á um að annar hvor skuli gegna formennsku. Vegna mikilvægs þjónustuhlutverks tilraunastöðvarinnar við landbúnaðinn þykir rétt að landbrn. eigi tvo fulltrúa í stjórninni og er lagt til að annar þeirra komi úr hópi starfsmanna og þá væntanlega þeirra sem starfa á þeim sviðum sem sérstaklega varða landbúnað. Sjálfsagt er að starfsfólk stofnunarinnar tilnefni einnig sinn fulltrúa í stjórn hennar.
    Frv. gerir ráð fyrir því, í samræmi við flest önnur frumvörp sem ríkisstjórnin flytur um þessar mundir um opinberar stofnanir, að forstöðumaður sé ráðinn tímabundið, til sex ára í senn en ekki til fimm ára

eins og sagði í tillögum meiri hluta Keldnanefndar. Það er mikilvægt að tryggja endurmat og endurnýjun á þennan hátt. Eðlilegt er að endurnýjun í stjórn stofnunarinnar verði ekki alger á fjögurra ára fresti heldur verði þess gætt að skipta aðeins um hluta stjórnarmanna í senn. Lenging á ráðningartíma forstöðumanns miðar að því að tryggja enn frekar stöðugleika við stjórn stofnunarinnar.
    Í frv. er lagt til að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur stofnunarinnar í umboði forstöðumanns, en í tillögum Keldnanefndar er hann nefndur fjármálastjóri. Þótti rétt að víkka starfsheitið nokkuð í samræmi við fjölþætt viðfangsefni stofnunarinnar.
    Það frv. sem hér er lagt fram, herra forseti, felur í sér að gerð er tillaga um ný heildarlög um tilraunastöðina og að eldri lög frá 1947, sem að flestu leyti eru úrelt orðin, falli úr gildi. Nefndin leggur áherslu á í tillögum sínum að lög nr. 50/1986, um rannsóknadeild fisksjúkdóma, svo og ákvæði laga nr. 77/1981, um dýralækni fisksjúkdóma, verði endurskoðuð og samræmd þessu frv. Er það einlægur ásetningur minn að stuðla að því að svo verði ef niðurstaða Alþingis verður sú að þetta frv. sem hér liggur fyrir verði að lögum. Ekki er talin ástæða til þess að breyta öðrum lögum eða reglugerðum sem varða tilraunastöðina vegna ákvæða þessa frv. þó samþykkt yrði.
    Í athugasemdum við einstakar greinar frv. er aðeins ítarlegar farið yfir efni þess. Frv. er aðeins 11 greinar og meginefnisgreinarnar má segja að séu 2. gr. frv. og stjórnunargreinarnar og sömuleiðis 5. og 6. gr. frv. en síðustu greinarnar, 8., 9., 10. og 11. gr., eru í raun og veru hefðbundnar í lögum eða frumvörpum af þessu tagi. Með frv. eins og það birtist á þskj. 751 eru birt tvö fylgiskjöl, annars vegar fskj. I, Lög og reglur um tilraunastöð Háskólans í meinafræði og þar er satt að segja afar fróðlegt að sjá hvernig lög og lagarammi stofnana er, sennilega margra, enn í dag. Það er kannski einkum athyglisvert að sjá hvað stofnanir geta í raun og veru blómstrað og dafnað án þess að lögin séu ýkja merkileg. Í enn þá gildandi lögum um Keldur segir m.a.: ,,Forstöðumaður tekur laun eftir 5. launaflokki launalaga, en aðrir sérfræðingar samkvæmt 6. flokki. Laun annarra starfsmanna ákveðast af forstöðumanni, að fengnu samþykki fjmrn.``
    Ég þykist viss um að svo að segja allar greinar laganna eins og þær líta út núna a.m.k. nema þá 1. gr. stangist á við veruleikann og fjölmörg önnur lög sem þegar hafa verið sett um ýmis mál, m.a. kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þetta ýtir auðvitað undir það, virðulegi forseti, sem er algerlega óskylt þessu máli, að það er ástæða fyrir Alþingi að hugleiða hvort ekki á að vera hér til lagastofnun í landinu eða laganefnd sem sér um að gera tillögur um samræmingu á lögum eftir að Alþingi hefur samþykkt frumvörp um hina ýmsu málaflokka.
    Þá fylgir þessu frv. fskj. II sem eru niðurstöður og tillögur Keldnanefndar, þ.e. hluti af 9. kafla skýrslunnar. Þar kemur fram hvernig nefndin getur

hugsað sér að stuðlað verði að eflingu starfseminnar á komandi árum og er í raun og veru fjallað um alla þætti starfseminnar eins og hún er og ætti að verða að mati Keldnanefndar. Er það fskj. gagnlegt til hliðsjónar fyrir hv. þingnefnd um leið og hún ræðir um málið.
    Um leið og ég mæli fyrir þessu frv., virðulegi forseti, vil ég nota tækifærið til að þakka Keldnanefnd og einnig lagafrumvarpsnefndinni fyrir sérstaklega góð störf og ötul. Ég tel að hér sé um að ræða mjög vandað frv. þar sem leitast hefur verið við að samræma sjónarmið fjölmargra ólíkra aðila og einnig vandað að því leyti til að hér hefur verið farið rækilega yfir hlutverk þessarar stöðvar og gerð tillaga um að búa henni lagaramma í samræmi við veruleika nútímans og væntanlega framtíðarinnar líka.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.