Tilraunastöð Háskólans í meinafræði
Föstudaginn 23. mars 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil segja hér aðeins nokkur orð og þakka hæstv. menntmrh. fyrir góð orð hans í framsögu um málið. Vegna þess að ég átti sæti í þeirri nefnd sem samdi þetta lagafrv. vil ég taka það fram að nefndin var mjög sátt við þær niðurstöður sem hér liggja fyrir í frv. Hún hafði það að markmiði sínu að vinna samkvæmt þeim grundvelli sem henni var gefinn, þ.e. tillögum Keldnanefndar, en myndaði sér jafnframt sjálfstæðar skoðanir á því hvert mundi verða og hvert ætti að verða framtíðarhlutverk Keldna. Það var ætlun okkar að styrkja þá stofnun, tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, að tengja hana Háskólanum betur en verið hefur. Eftir að við höfðum sæst á þessi meginatriði við gerð frv. leituðum við samráðs við mjög marga aðila sem málið varðar, bæði starfsfólk á Keldum, yfirdýralækni núverandi og fyrrverandi, Háskólann, læknadeild Háskólans sérstaklega og raunvísindadeild, háskólanefnd Dýralæknafélags Íslands og aðra aðila sem vildu fá að segja sitt um málið. Við leituðumst við að samræma sjónarmið eins og frekast var kostur og gerðum tvær atrennur til þess, bæði þegar málið lá fyrir í drögum hjá okkur og síðan eftir að við höfðum komið frumvarpinu í ákveðnara form. Ég vil því leggja megináherslu á að um málið var fullkomin sátt innan nefndarinnar og það hafa verið gerðar a.m.k. tvær ef ekki þrjár tilraunir til þess að gefa sem flestum tækifæri til að segja sitt álit og tekið hefur verið tillit til skoðana þeirra að svo miklu leyti sem hægt var að samræma mismunandi sjónarmið. Voru flestir þessir aðilar nokkuð sáttir með málalok þegar gerð frv. var lokið.
    Þessa vildi ég geta við 1. umr. og vona að málið fái vinsamlega umfjöllun og verði afgreitt á þessu þingi.