Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ársreikning og endurskoðun lífeyrissjóða.
    Eins og frv. ber með sér er það í þremur megingreinum. Mun ég gera örlitla grein fyrir einstökum greinum.
    Í 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn lífeyrissjóðs skal sjá um að saminn sé ársreikningur fyrir hvert almanaksár í samræmi við reglur sem Seðlabanki Íslands setur. Ársreikningur skal hafa að geyma ársskýrslu, rekstrarreikning, efnahagsreikning, yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, fjármagnsstreymi og skýringar. Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju, bæði að því er varðar mat á hinum ýmsu liðum og framsetningu.
    Í ársskýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði er mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu er ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
    Ársreikningur lífeyrissjóðs skal lagður fyrir skoðunarmenn eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
    Ársreikningur skal undirritaður af öllum stjórnarmönnum lífeyrissjóðs. Hafi einhver stjórnarmanna mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann undirrita með fyrirvara, og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.``
    Eins og greinin ber með sér eru þarna mjög skýr ákvæði um það með hvaða hætti lífeyrissjóður skal ganga frá sínum ársreikningi og þarna er mun
ítarlegar farið út í það en nú tíðkast í þeim reglugerðum sem lífeyrissjóður starfar samkvæmt. Það er mat mitt að það sé fullkomlega tímabært að ársreikningar séu færðir upp með þeim hætti og hafi að geyma þær upplýsingar sem fram kemur í þessari grein. Einnig er það mjög þýðingarmikið, sem ekki er tiltekið í reglugerðum lífeyrissjóða, að þeir skuli hafa lokið því að ganga frá ársreikningum og ársskýrslu þremur mánuðum eftir að reikningsári lýkur. Í þessu felast ákveðnar kvaðir og skyldur sem ég tel að sé mjög nauðsynlegt að komi til framkvæmda hið fyrsta vegna þess að eins og kunnugt er og fram hefur komið, m.a. í umræðum hér á hinu háa Alþingi í sambandi við lífeyrissjóði, hefur því miður orðið misbrestur á hjá einstaka sjóðum að ganga frá lífeyrissjóðsreikningum með þeim hætti sem eðlilegt þykir. Þess vegna er mjög nauðsynlegt, virðulegi forseti, að þetta sé sett í lög þannig að ekki fari á milli mála hvaða háttur skuli á hafður.
    Í 2. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Endurskoðun hjá lífeyrissjóði skal framkvæmd af tveimur skoðunarmönnum, sem valdir eru samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sjóðsins, og einum skoðunarmanni sem er löggildur endurskoðandi.``
    Þetta er svipað því sem tíðkast núna í sambandi við framkvæmd þessara mála og er það gert á

grundvelli reglugerðar, en þetta er áréttað og styrkt enn frekar með þessari lagagrein.
    Síðan er í 3. gr. atriði um það með hvaða hætti skoðunarmenn skuli framkvæma sína endurskoðun. Þarf ég ekki að fara nánar út í það og vísa til þess sem segir um það efni í greininni. Þó eru þarna atriði sem mikilvægt er að vekja athygli á, m.a. það sem segir í 3. gr., með leyfi forseta:
    ,,Skoðunarmönnum er skylt að veita lífeyrissjóðaeftirlitinu allar þær upplýsingar um málefni lífeyrissjóðs og framkvæmd endurskoðunar sem það kann að óska eftir og þeir geta látið í té. Ef endurskoðun leiðir í ljós verulega ágalla í rekstri lífeyrissjóðs varðandi innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, greiðslutryggingar útlána, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins eða skaðað hann að öðru leyti, skulu skoðunarmenn gera stjórn sjóðsins og Seðlabanka Íslands viðvart.
    Skoðunarmenn hafa rétt til að sitja stjórnarfund þar sem fjallað er um ársreikning.``
    Í þessu ákvæði felast mjög ákveðin skilyrði um það hvernig skoðunarmenn skuli starfa og mjög mikið og strangt eftirlit með meðferð þeirra fjármuna sem eru í lífeyrissjóðunum. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hér er verið að ræða um stofnanir sem munu að öllum líkindum, eða um næstu áramót, vera með eignir upp á um það bil 100 milljarða kr. Árlegur vöxtur í lífeyrissjóðakerfi landsmanna, sjóðakerfinu, þá undanskil ég Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, mun vera þetta á bilinu, ef ég man rétt --- þá tala ég um ráðstöfunarfé sjóðanna --- 20--27 milljarðar. Þess vegna er ekki vanþörf á því að ákveðið sé í lögum með hvaða hætti gerð ársreikninga og endurskoðun þessara sjóða skuli fara fram.
    Nú vita hv. þm. það að samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda í dag er það fjmrn. eða fjmrh. sem gefur út og staðfestir reglugerðir lífeyrissjóðanna. Í þeim koma fram ákveðin almenn atriði um endurskoðun en þau eru ekki jafnítarleg og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég vek sérstaklega athygli hv. þm.
á því að í frv. er gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands gegni mjög veigamiklu hlutverki jafnframt því sem gengið er út frá að sami háttur verði á hafður sem hingað til að fjmrn. gefi út og staðfesti reglugerðir sjóðanna. Í þessu felst því að vissu marki tvíþætt eftirlitshlutverk af hálfu hins opinbera, annars vegar af hálfu fjmrn., eins og verið hefur hingað til, og hins vegar af hálfu Seðlabankans.
    Í grg. kem ég inn á það m.a. að frv. byggir í meginatriðum á kafla úr frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem enn hefur ekki verið lagt fram. Þó er sú grundvallarbreyting á frv. frá greinum þess frv. sem ekki hefur enn þá séð dagsins ljós að í stað þess að setja á laggirnar svokallað lífeyrissjóðaeftirlit, eins og tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir sem fjallaði um frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða, þá er gert ráð fyrir því í frv. sem ég mæli fyrir að þetta eftirlit verði í höndum Seðlabanka Íslands.
    Nú kann einhver að spyrja: Hvers vegna er ekki hægt að hafa þann hátt á sem nefndin sem fjallaði um

og gerði tillögu að frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóðanna mælti með, þ.e. að þarna verði svokallað lífeyrissjóðaeftirlit með 15 manna stjórn og framkvæmdastjórn þar undir?
    Ég er þeirrar skoðunar, og var það m.a. sem einn af nefndarmönnum sem tóku þátt í að semja frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða, að eðlilegra sé að hlutlaus stofnun eins og Seðlabanki Íslands gegni þessu eftirlitshlutverki. Ég tel ekki rétt að þeir aðilar, sem eru eignaraðilar og undirskriftaraðilar að lífeyrissjóðunum með þeim hætti sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar eru annars vegar og vinnuveitenda hins vegar, hafi sjálfir það eftirlitshlutverk með þessum fjármunum sem frv. um starfsemi lífeyrissjóðanna gerir ráð fyrir.
    Ég tel að Seðlabankinn eigi að koma hér til skjalanna, m.a. og fyrst og fremst vegna þessa atriðis, og svo vil ég einnig vekja athygli hv. þm. á því að samkvæmt lögum á Seðlabanki Íslands að hafa eftirlit með banka- og peningakerfi þjóðarinnar. Seðlabankinn hefur þar með góða heildaryfirsýn yfir þennan málaflokk sem gerir hann að sjálfsögðu öðrum fremri til að vega og meta eignavörslu sjóðanna og fjárhagsstöðu þeirra og einnig til að annast faglega umfjöllun um ráðstöfun fjármuna. Þá er það mín skoðun að Seðlabanki Íslands hafi á að skipa hæfu starfsfólki sem þegar hefur töluverða reynslu í samskiptum við lífeyrissjóðina. Með því að hafa þetta eftirlit í Seðlabankanum skapast líka þeir möguleikar að Seðlabankinn sé enn hæfari til að hafa gott heildaryfirlit yfir peningakerfi þjóðarinnar þannig að hann geti með beinum og óbeinum hætti haft þar áhrif á svo sem lög um Seðlabanka Íslands mæla fyrir. Ég undirstrika það að í framhaldi af þessari skoðun minni álít ég einnig að Seðlabanki Íslands eigi að vera enn sjálfstæðari en hann er í dag, þ.e. hann eigi ekki að vera háður pólitísku valdi eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.
    Það er mjög mikilvægt fyrir farsælt starf lífeyrissjóða að óháð stofnun, óháðir aðilar, hafi með höndum þetta eftirlit, þ.e. með fjárreiðum og fjárvörslu lífeyrissjóðanna með reglubundnum hætti eins og eftirlit Seðlabankans, ég bendi m.a. á bankaeftirlit Seðlabankans, á að vera gagnvart bönkum og öðrum fjármálastofnunum.
    Ég vek enn á ný athygli á því, virðulegi forseti, að frv. er ekki fram komið vegna þess að lífeyrissjóðir hafi yfirleitt ekki gengið frá sínum ársreikningum með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í því. Í stórum dráttum má segja að lífeyrissjóðirnir hafi gengið vel frá sínum ársreikningum og framkvæmt sína endurskoðun í samræmi við gildandi lög. Þess vegna vil ég enn ítreka að frv. er ekki til komið vegna þess að í núverandi fyrirkomulagi fari ekki fram uppgjör og endurskoðun reikninga lífeyrissjóða með eðlilegum hætti.
    Ég legg áherslu á það einnig, virðulegi forseti, að með þessu er skapað enn meira aðhald og ég vek enn á ný athygli á því að í landinu eru um það bil 100 lífeyrissjóðir. Þeir eru ekki með samræmdar

reglugerðir nema að vissu leyti. Hér er um að ræða fjármuni sem munu verða í árslok, hvað eignir áhrærir, um 100 milljarðar. Hér er um verulega mikla fjármuni að ræða sem er sjálfsagt og eðlilegt að Alþingi taki afstöðu til með þeim hætti sem birtist í þessu frv. hvað varðar aðhald og eðlilegt uppgjör á ársreikningum og endurskoðun lífeyrissjóða.
    Að lokinni 1. umr., virðulegi forseti, legg ég til að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn.