Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir við þetta frv. En það vill svo til að hér í salnum er staddur hæstv. viðskrh. sem mun vera einn af höfundum þess frv. sem ég hef títt vísað til og er frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða. Ég þakka honum því fyrir að hann skuli vera viðstaddur hér þegar þetta frv. er til umfjöllunar. Hann hefur greinilega tekið eftir að þetta var á dagskrá hér.
    Ég þakka sem sagt fyrir góðar undirtektir, bæði hæstv. fjmrh. og hv. þm. Jóhanns Einvarðssonar, og undirstrika það atriði að helst hefði ég náttúrlega kosið það og ég geri ráð fyrir flestir þingmenn, að vísu hafa þeir kannski ekki athugað frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða, að við hefðum getað gengið hér frá heildarlöggjöf sem væri eitthvað í þeim dúr sem segir í þessu frv. en þó eru þar nokkur atriði sem geta verið mjög umdeild.
    Ég er ekki trúaður á að við getum á næstunni, og jafnvel ekki þótt milliþinganefnd væri sett á laggirnar í sumar er ég því miður ekki trúaður á að það takist, svona á skömmum tíma, að koma í kring heildarlöggjöf með þeim hætti sem það frv. gerir ráð fyrir og ég ætla ekki að tíunda það hér á þessu stigi hvers vegna ég er þeirrar skoðunar. Ég mun að sjálfsögðu gera það þegar hæstv. fjmrh. hefur lagt fram heildarfrumvarpið um starfsemi lífeyrissjóða.
    Þess vegna var það sem ég ákvað að taka þetta atriði út úr frv., einmitt með það í huga sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að mér fannst meira en koma til greina að taka út ákveðnar greinar þess. Mér fannst það eiginlega brýnt með tilliti til þess að það eru ákveðin atriði í frv., eins og t.d. þetta um ársreikning og endurskoðun, sem eiga ekki að þurfa að vera ágreiningsefni en eru alveg sjálfsagðir hlutir með tilliti til þess, þegar við lítum til lífeyrissjóðanna, eins og hv. þm. Jóhann Einvarðsson sagði, að þeir eru að verða svo veigamikill þáttur í íslensku peningakerfi og munu koma svo víða við
í framtíðinni að það er beinlínis skylda okkar hv. þm. og hæstv. ríkisstjórnar að setja strangari ákvæði eða ákveðnari reglur um það hvernig þessir sjóðir gera upp sína reikninga og hvernig endurskoðun fer fram og hvernig eftirliti er háttað með framkvæmd þessara mála. En þá tek ég skýrt fram að ég er ekki að leggja frv. fram vegna þess að þess sé þörf út af því að þetta hafi ekki verið gert. Þetta hefur í stórum dráttum verið gert með eðlilegum hætti en þó hefur það viljað dragast allt of lengi fram eftir ári hjá nokkuð mörgum lífeyrissjóðum að ganga frá sínum ársreikningum, því miður. Og það er bæði óheppilegt frá sjónarmiði eignaraðila og frá sjónarmiði heildarinnar og einnig frá því sjónarmiði hvernig peningastreymið í þjóðfélaginu tekur breytingum í framtíðinni og stýringu þess með tilliti til þessa mikla fjármagns.
    Að öðru leyti þakka ég enn á ný góðar undirtektir og vænti þess að þetta frv. verði að lögum núna á yfirstandandi þingi.