Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 757 um að stofna hlutafélag um Sementsverksmiðju ríkisins. Tilgangurinn með frv. er, eins og kemur fram í heiti þess, að breyta rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar í hlutafélag. Þetta frv. byggir að stofni til á frv. sem var samið í iðnrn. á árunum 1987 og 1988. Meginefni frv. er eftirfarandi:
    1. Sérstök matsnefnd meti eignir Sementsverksmiðjunnar og verði þetta mat haft til hliðsjónar við ákvörðun hlutafjár í félaginu.
    2. Hlutverk félagsins verði gert víðtækara en Sementsverksmiðjunnar og félaginu verði heimilað að gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum og sameignarfélögum.
    3. Ekki verði heimilt að selja hlutabréf í Sementsverksmiðjunni hf. nema samþykki Alþingis komi til með lagabreytingu.
    4. Við verksmiðjuna starfi sérstök samstarfsnefnd starfsmanna og stjórnar og lögbundið samráð verði við Akraneskaupstað um málefni félagsins.
    5. Skipuð verði sérstök undirbúningsnefnd til að undirbúa stofnun félagsins er yfirtaki rekstur verksmiðjunnar.
    6. Stofnfundur verði haldinn ekki seinna en 31. des. 1990 og hlutafélagið yfirtaki reksturinn miðað við næstu áramót.
    Með lögum nr. 35/1948 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að reisa hér á landi verksmiðju til vinnslu sements. Á grundvelli þessara laga var síðan reist Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi sem sérstakt ríkisfyrirtæki. Verksmiðjan tók til starfa árið 1958 og hefur starfað óslitið síðan. Alþingi kýs nú fimm menn í stjórn Sementsverksmiðjunnar til fjögurra ára í senn. Iðnrh. skipar einn úr hópi stjórnarmanna sem formann.
    Fyrir hv. Nd. liggur nú frv. um þetta sama efni og reyndar með sama nafni og það frv. sem hér liggur fyrir hv. Ed. Flm. frv. sem er til meðferðar í Nd. er hv. 1. þm. Reykv. sem nú gekk úr salnum. Á þessum tveimur frv., þótt þau hafi sömu meginstefnu, er verulegur munur. Eins og ég tók fram í umræðum um það frv. fyrr á þessu þingi var það mín skoðun og er að fjalla þyrfti nánar um málefni Sementsverksmiðjunnar áður en Alþingi tæki afstöðu til málsins og þar ættu menn m.a. að nýta sér þá reynslu sem fengist hefði við lagasetninguna um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg sem breytt var í hlutafélag á liðnu ári, Prentsmiðjuna Gutenberg hf., á grundvelli frv. sem ég flutti hér á því þingi.
    Það fyrsta sem ég benti á var að ég taldi að tryggja þyrfti betur tengsl starfsmanna og stjórnenda þar sem starfsmönnum væri veitt færi á að koma sjónarmiðum sínum um aðbúnað og hagkvæmni í rekstri og fleira á framfæri. Þetta er gert í 6. gr. þessa frv.
    Í öðru lagi nefndi ég að vegna þess hversu mikilvæg Sementsverksmiðjan er fyrir Akranes og grannbyggðirnar væri nauðsynlegt að ræða stofnun

félagsins ítarlega við fulltrúa bæjarins og kanna áhuga þeirra á einhvers konar lögbundnu sambandi eða samráði. Slíkar viðræður hafa farið fram og reyndar er tryggt til frambúðar að slíkt lögbundið samráð verði regla með 7. gr. þessa frv.
    Í þriðja lagi taldi ég skynsamlegt að kveða skýrar á um það hvernig gera skyldi matið á eignum verksmiðjunnar sem lagt yrði til grundvallar stofnun félagsins og ákvörðun hlutafjár. Við mat á eignum Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg var sú leið farin að biðja yfirborgardómarann í Reykjavík að tilnefna oddamann í matsnefnd en Félag löggiltra endurskoðenda einn og Fjárlaga- og hagsýslustofnun annan. Þetta var ákvörðun mín sem iðnrh. til þess að tryggja að nefndin sem matið framkvæmdi hefði sem óháðasta stöðu þannig að ekki risu síðar deilur um það hvernig að matinu hefði verið staðið. Með þetta í huga tel ég nú hyggilegt að gert sé alveg skýrt í lögunum hvernig standa skuli að þessu mati. Þetta er gert í b-lið 1. gr. frv. þar sem segir að bæjarfógetinn á Akranesi skuli skipa þriggja manna matsnefnd þar sem a.m.k. einn nefndarmanna sé löggiltur endurskoðandi.
    Í fjórða lagi taldi ég heppilegt að skipa undirbúningsnefnd til þess að undirbúa félagsstofnunina og annast nauðsynlega samningagerð fyrir hönd hins væntanlega félags og semja drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið.
    Níunda greinin í þessu frv. kveður á um undirbúningsnefndina og hennar verkefni. Þetta var gert með hliðsjón af ákvæðum hlutafélagalaga um að greiða verði helming hlutafjár við stofnun hlutafélagsins. Hlutafjárframlag er í formi eigna verksmiðjunnar og því eðlilegt að hlutafélagið verði stofnað samtímis því er yfirtaka á rekstri á sér stað ólíkt því sem var um stofnun hlutafélags um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg og ólíkt þeim ákvæðum sem eru í fyrrnefndu frv. hv. 1. þm. Reykv. sem til umræðu er í Nd.
    Í fimmta lagi bendi ég svo á að í 8. gr. er kveðið skýrt á um það að ríkissjóður geti ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema fyrir liggi samþykki Alþingis með breytingu á b-lið 1. gr. frv.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki að svo stöddu ástæðu til að gera frekari grein fyrir frv. Ég tel að það sé mikið framfaramál, bæði fyrir verksmiðjuna
en ekki síst fyrir það sveitarfélag, það byggðarlag þar sem hún er staðsett og að forsendurnar fyrir sérstökum ákvæðum um þetta hlutafélag sem settar voru í upphafi séu nú ekki lengur til staðar. Þau ákvæði helguðust að mínu áliti fyrst og fremst af því að þá var um að ræða stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða, mikla breytingu á atvinnuháttum í Akranesbæ. Nú er þetta félag svo sannarlega orðið að grónum borgara í því byggðarlagi og því eðlilegt að það taki þátt, með öllum réttindum og skyldum, í starfsemi bæjarins eins og önnur fyrirtæki þar um slóðir.
    Ég vil mælast til þess, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.

þessarar deildar.