Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þann stuðning við frv. sem fram hefur komið í umræðunum. Ég vil líka sérstaklega þakka hv. 4. þm. Vesturl. fyrir það hvernig hann lýsti afstöðu þingflokks Alþb. til frv. Ég get staðfest að henni er þar nákvæmlega rétt lýst. Ég er líka þakklátur fyrir það að hv. 4. þm. Vesturl. og aðrir þm. Alþb. hafa ekki viljað tefja það að málið kæmi hér og fengi þinglega meðferð. Ég tel það rétta ábendingu sem fram kom í máli hv. 3. þm. Vesturl. að þetta frv. sé í veigamiklum atriðum frábrugðið því frv. um sama efni sem hefur verið til meðferðar í neðri deild, en meginstefnan er að gera Sementsverksmiðju ríkisins að venjulegu fyrirtæki í Akraneskaupstað, það er kjarni málsins. Og ég vona að það fái stuðning þessarar hv. þingdeildar en tek að sjálfsögðu fram að ég býst við því að í hv. iðnn. þessarar deildar verði fjallað um þær ábendingar sem fram hafa komið í umræðunum og önnur atriði sem athuga þarf í málinu.