Sementsverksmiðja ríkisins
Föstudaginn 23. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna spurningar, beinnar og óbeinnar sem að mér hafa beint þeir hv. 3. þm. Vesturl., 4. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Vestf. um afstöðu mína til þess hvernig standa mætti að aukningu eigin fjár í Sementsverksmiðjunni í framtíðinni ef þörf væri á henni talin. Ég vek athygli á því að ég mælti nú í viðtengingarhætti. Um það mál hef ég ekki fleira að segja en það sem fram kemur í greinargerðinni með frv. og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa þaðan örfáar línur þótt langt sé liðið á fundartímann:
    ,,Kostir þess að reka Sementsverksmiðjuna í hlutafélagsformi eru að með því verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárhagsleg uppbygging fyrirtækis veldur því að mjög æskilegt er að reka fyrirtæki í eigu ríkisins í hlutafélagaformi. Hverju fyrirtæki er nauðsynlegt að fjárfesta, ráðast í nýjungar og efla starfsemi sína til að vernda stöðu sína á markaðnum. Vilji ríkið ekki leggja fram aukið hlutafé til að halda eiginfjárhlutföllum í horfinu þegar kemur til þess að fjármagna þarf nýja fjárfestingu er unnt að leita eftir nýjum hluthöfum sem færa með sér nýtt hlutafé. Með því móti verður komist hjá því að ríkið taki í sífellu á sig skuldbindingar, t.d. í formi ríkisábyrgðar, er fyrirtæki í eigu þess þurfi að ráðast í framkvæmdir.``
    Ég vek enn athygli á viðtengingarhætti vegna þess að þetta er síðari ákvörðun, ótekin, en þetta gefur að sjálfsögðu fyrirtækinu fleiri möguleika og það veit ég að hv. þm. sem eru við málið riðnir eru mér sammála um að gera þurfi Sementsverksmiðjuna að sem styrkastri stoð undir atvinnulíf á Vesturlandi, sérstaklega á Akranesi og í grannbyggðum, og þeim mun fleiri leiðir sem þetta fyrirtæki hefur til þess að efla sína starfsemi, þeim mun betra.