Innflutningur dýra
Föstudaginn 23. mars 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um innflutning dýra. Þetta er 402. mál á þskj. 702. Frv. þetta byggir í öllum aðalatriðum á tillögu nefndar sem skipuð var í framhaldi af ályktun sem gerð var hér á Alþingi hinn 24. febr. 1987. Þar ályktaði Alþingi að fela landbrh. að láta endurskoða lög um innflutning búfjár og að endurskoðun laganna tæki mið af þeim breytingum sem orðið hafa á tækni við flutning erfðaefnis búfjár og að athuguð verði sérstaklega sú grein laganna sem fjallar um þær tegundir nautgripa sem innflutningur er heimill á.
    Í samráði við þetta var skipuð nefnd 26. maí 1987. Í henni sátu Davíð Aðalsteinsson formaður, Jónas Jónsson og Þorsteinn Ólafsson.
    Málið hefur síðan verið unnið með venjulegum hætti í samráði við helstu hagsmunaaðila. Þess má geta að ýmsar samþykktir hafa verið gerðar á undanförnum árum, bæði af búnaðarþingi og víðar á vettvangi bænda, um nauðsyn þess að endurskoða lagaákvæði og sameina í einum heilstæðum lagabálki. Hér liggur fyrir frv. um slíkt efni. Lög þessi, ef af verður, kæmu þá í stað laga um innflutning búfjár, nr. 74/1962, í stað 48.--52. gr. búfjárræktarlaga, nr. 31/1973, svo og í stað 3. gr. laga um loðdýrarækt, nr. 53/1981. Hér yrðu því sameinuð í einum lagabálki öll helstu ákvæði sem verið hafa í mismunandi lögum og lúta að innflutningi búfjár eða innflutningi dýra.
    Frv. tekur til allra lifandi landdýra, hryggdýra og hryggleysingja að undanskildum manninum, og það tekur einnig til lagardýra sem lifa að hluta eða öllu leyti í fersku vatni.
    Meginregla frv. er sú að allur innflutningur dýra er bannaður nema sérstaklega sé leyft af landbrh. í samráði við og með meðmælum yfirdýralæknis. Eigi í hlut dýrategundir eða stofnar sem kæmu nýir inn í íslenska náttúru skal leita samráðs við Náttúruverndarráð um slíka hluti. Frv. þetta mun ekki fela í sér ný fjárútlát fyrir ríkissjóð þar sem ákvörðun um innflutning er sjálfstæð hverju sinni. Og frv. felur ekki í sér neinar sjálfkrafa skuldbindingar að hálfu ríkisins um slíka hluti.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.