Innflutningur dýra
Föstudaginn 23. mars 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég þakka undirtektir hv. þm. og lýsi mig í flestum greinum sammála því sem kom fram þar, m.a. hjá hv. síðasta ræðumanni. Það er einmitt ætlunin að þessi lög nái betur utan um það að tryggja eftirlit og framkvæmd með þeim innflutningi sem leyfður er. Þau byggja á þeirri meginreglu að innflutningur sé óheimill nema þegar hann er sérstaklega leyfður og þá með tilteknum skilyrðum.
    Að mínu mati er ekki um að ræða umfangsmiklar efnisbreytingar á frv. frá því sem tillögur nefndarinnar gerðu ráð fyrir. Uppsetningu var nokkuð breytt. Þannig voru til að mynda teknar inn orðskýringar í 1. gr. til að skýra betur hvað við er átt. Ég lét taka upp það ákvæði að landbrh. skyldi hafa samráð við Náttúruverndarráð þegar um væri að ræða óskir um innflutning á dýrategundum eða stofnum sem ekki væru fyrir í landinu. Mér finnst óeðlilegt að landbrh. einn og sér hafi alræðisvald um slíkan dýrainnflutning. Uppsetningunni á því samráði sem haft er við dýralækna um fagleg málefni, sbr. 3. gr., var breytt nokkuð en efnislega er þar í raun og veru um sambærilega hluti að ræða og var í tillögu nefndarinnar.
    Hvað reglugerðarútgáfu snertir og framkvæmd þeirra mála sem hv. þm. vék að, þá ætla ég ekki að mótmæla því að margt hefði mátt betur fara að mínu mati í þeim efnum. M.a. þess vegna og til að ná betur utan um einn afmarkaðan þátt þessa máls, þ.e. innflutning gæludýra, tók ég um það ákvörðun á sl. ári að láta hefja vinnu við að reisa slíka stöð í Hrísey. Og með samþykki fjárveitingavaldsins, sem veitti til þess nokkra fjárhæð, hófust framkvæmdir síðla á síðasta ári. Grunnur var þá reistur og byggingarframkvæmdum verður haldið áfram á þessu ári og reynt að koma þeirri stöð upp svo unnt sé að taka á þeim málum betur en hingað til hefur verið hægt.
    Fjölmargt annað mætti um þetta segja en ég treysti hv. landbn. til að fara ofan í saumana á þeim atriðum sem hv. þm. hér vék að og öðru sem þurfa þykir.