Hjörleifur Guttormsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Ég var ósköp rólegur þó hv. 3. þm. Reykv. kæmi hér inn í umræðuna. Sjálfur var ég búinn að ræða málið í fimm mínútur eða svo þegar fundi var frestað sl. miðvikudag. Ég ætlaði að bæta nokkrum atriðum við þetta merka þingmál sem hér er rætt þar sem ég hef komið að á undirbúningsstigi sem fulltrúi í nefnd sem félmrh. fól að undirbúa þetta mál.
    Ég var þar staddur í máli mínu, ef ég man rétt, að fjalla um jafnréttisráðgjafa og ákvæði í 18. gr. frv. sem tengist heimild til félmrh. að ráða jafnréttisráðgjafa til þess að vinna í samvinnu við Jafnréttisráð að leiðréttingu á stöðu kvenna, m.a. í stofnunum og fyrirtækjum um allt land. Þetta ákvæði tengist reynslu sem nágrannalönd okkar hafa af starfi slíkrar ráðgjafar og hefur þótt gefast vel. Ég flutti ásamt fleiri hv. þm. till. til þál. um þetta efni á þinginu 1987--1988. En eftir að undirbúningur hófst að endurskoðun laga eins og hér liggur fyrir sá ég ekki ástæðu til að endurflytja það mál heldur var það tekið upp á þeim vettvangi og fékk þar stuðning. Því miður hefur þetta ákvæði verið veikt í frv. frá tillögum nefndarinnar í þá veru að í stað þess að ótvírætt sé að félmrn. skuli ráða slíka ráðgjafa til starfa er hér heimild til þess. Að vísu er kveðið nokkuð ákveðið að í skýringum við viðkomandi lagagrein um að þetta skuli gerast. Ég treysti því og verð að vænta þess að hæstv. félmrh. beiti sér mjög eindregið fyrir því að fjármagn á vegum félmrn. verði veitt svo kleift verði að koma ráðningu jafnréttisráðgjafa af stað þegar á næsta ári. Það er mikilvægt að reynsla fáist sem fyrst af starfi þeirra og fyrsta skref a.m.k. verði stigið til þess að ná því marki að slíkir ráðgjafar starfi í öllum kjördæmum landsins sem
áreiðanlega er veruleg þörf á. Ég tel hins vegar ekkert óeðlilegt að unnið sé að þessu máli í áföngum. Meginatriðið er að hafist verði handa.
    Ég leyfði mér fyrr í ræðu minni að vísa til verkefnisins ,,Brjótum múrana`` sem nú er að ljúka, þessa samnorræna verkefnis sem Valgerður Bjarnadóttir hefur starfað að sem starfsmaður íslenska hópsins sem hefur átt hlut að þessu norræna samstarfsverkefni. Hún lauk sínu starfi um síðustu áramót ef ég er rétt upplýstur um stöðu þess máls.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þennan þátt mála en vil vísa til þess sem segir á bls. 7 í greinargerð, að nefndin leggur áherslu á að reglugerð skv. 25. gr. frv. verði ítarleg og útgáfa hennar dragist ekki. Bent er á að sérstaklega er þörf á skýringum við 3. gr. laganna sem er óbreytt í frv. frá því sem verið hefur þar sem fjallað um séraðgerðir í þágu kvenna, 4. gr., sem einnig er óbreytt í frv., um það hvað sé átt við með launum kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, svo og útfærslu á 19. gr. frv. um jafnréttisráðgjafa. Þetta snertir framkvæmd laganna og er mjög veigamikið að þarna verði gengið eins langt og lög leyfa og möguleiki er til að mati framkvæmdarvaldsins til þess að styrkja réttarstöðu

kvenna. Ég bendi á að í þáltill. frá 1987 um jafnréttisráðgjafa er vísað til verkefna sem eðlilegt er að slíkir ráðgjafar sinni og bendi á að það mætti hafa einhverja hliðsjón af því þskj. þegar reglugerð er sett og störf þessara jafnréttisráðgjafa mótuð. Ég er þó engan veginn að segja að öll aðalatriði séu komin fram í þessari greinargerð, nefndu þskj.
    Ég leyfi mér einnig, virðulegur forseti, að vísa til þess að á sama þingi, 1987--1988, var flutt mál sem var 362. mál þess þings, um sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna, þingmál sem hv. 12. þm. Reykv. var 1. flm. að. Þar var verið að ýta á að mótaðar yrðu reglur og lagðar fyrir Alþingi tillögur um sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna þannig að koma mætti sem fyrst á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna. Í því máli, sem ég tók undir á þeim tíma, er að finna ábendingar í greinargerð um ýmis þau atriði sem taka þyrfti á í sambandi við framkvæmd á 3. gr laganna, sem einnig er 3. gr. þessa frv., um sérstakar tímabundnar aðgerðir í þessu skyni. Meðal þátta sem þar þurfa að koma til aðgerðar eru auðvitað launamálin og möguleikar á að leiðrétta þá bágu stöðu sem er í launahlutföllum kynjanna. Einnig spurningin um tímabundinn forgang kvenna við stöðuveitingar, m.a. á vegum hins opinbera. Að því máli er raunar vikið í einni af greinum frv., að bæta þá stöðu. Það er í 8. gr. frv. þar sem segir í upphafi: ,,Við ráðningu í starf skal það kynið, sem er í minni hluta í starfsgrein, ganga fyrir uppfylli umsækjandi tilskildar kröfur til starfsins. Gildir þetta jafnt um stöðuveitingar hjá hinu opinbera sem og á almennum vinnumarkaði``, segir í frv.
    Hv. 17. þm. Reykv. vék aðeins að þessu atriði í sínu máli og mér fannst hann vera að draga úr gildi þessa ákvæðis og að það bæri að lögfesta. Ég er þeirrar skoðunar að afar þýðingarmikið sé að þetta ákvæði verði lögfest og því verði beitt svo sem frekast er unnt til þess að bæta stöðu kvenna í störfum og ekki síst í ábyrgðarstörfum í þjóðfélaginu. Það er alveg ljóst að karlkynið hér á landi stendur mun betur að vígi vegna þess forskots sem það hefur nú og geta umsækjendur af því kyni í mörgum tilvikum vísað til reynslu og annars þess sem færir þá, samkvæmt núverandi ákvarðanatöku og reglum eða framkvæmd varðandi
stöðuveitingar, náð forskoti. Við náum ekki jafnstöðu þarna nema menn séu reiðubúnir til sérstakra aðgerða að þessu leyti og þau felast má segja í 3. gr. frv. og raunar í 3. gr. núgildandi laga þar sem löggjafinn tekur undir að slíkar sérstakar tímabundnar ráðstafanir séu réttmætar.
    Það gildir auðvitað einnig um fjárveitingar til þessara mála, og fyrr í mínu máli vék ég að því að menn verða að vera undir það búnir að þessi mál taki eitthvert fjármagn úr sameiginlegum sjóði landsmanna, að það þurfi að veita fjármagn til þessara mála, þó að það sé aðeins einn hluti málsins. En þar reynir á hvort pólitískur vilji er til þess að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið sé reiðubúið til þess að leggja nokkurt fé af mörkum umfram það sem nú er til þess að bæta

hina almennu aðstöðu til þess að ná jafnstöðu í samfélaginu milli kynjanna. Ég verð að segja það að mér finnst að ekki blási þeir vindar í sambandi við umræður um þessi mál sem þyrftu að vera. Ég vænti þess hins vegar að umræður um frv. og lögfesting þess verði til þess að þessi staða verði betri, þar á meðal sú skipan mála sem felst í 17. gr. frv. og því sem henni tengist í skýringum varðandi undirbúning áætlana og fjárveitingar til þessara þátta. Þetta eru ekki stórar upphæðir sem hér eru á ferðinni, jafnvel á okkar mælikvarða, langt frá því. En það er viljinn sem hér reynir á, hinn pólitíski vilji. Ég hlýt að minna á þennan þátt.
    Virðulegur forseti. Það er ástæða til að ræða ýmsa fleiri þætti þessa máls en ég ætla að takmarka mig við örfá atriði til viðbótar. Það er ákvæði 12. gr. frv. sem er nýmæli varðandi skipun í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Þar er verið að fara inn á braut sem reynd hefur verið í Danmörku til þess að bæta stöðu kvenna í opinberum stjórnum, nefndum og ráðum auk þess sem sett eru fram almenn stefnumið í þessu sambandi.
    Hv. 17. þm. Reykv., sem er ekki viðstaddur umræðuna en ég leyfi mér að vísa til hans málflutnings hér, gat þess að nokkuð væri óljóst um möguleika á að framkvæma ákvæði þessarar greinar frv. Ég gæti fallist á að ekki er allt sagt með þessu lagaákvæði. Það hefði verið kostur að geta orðað það skýrar en hér er verið að reyna að ná fram almennu stefnumiði, ekki aðeins hjá hinu opinbera heldur einnig í félagasamtökum í landinu, og þá er náttúrlega ekki hægt að setja fortakslaust skuldbindandi ákvæði. Sjálfur hafði ég þá hugmynd og kom því að í nefndinni sem undirbjó málið að fara aðra leið í þessum efnum, leið sem lögð var til með frv. sem flutt var hér á Alþingi af mér og hv. 13. þm. Reykv. fyrir tveimur þingum, frv. til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þskj. 75/1987. Þar var gerð tillaga um að breyta 12. gr. laganna varðandi skipan í stjórnir, nefndir og ráð hjá ríkinu og lögfesta þar ákveðið hlutfall til jöfnunar, stundum tengt hugtakinu kvóti, þ.e. það yrði aldrei meiri munur en svo að hlutföllin væru 46:60 nema í sérstökum undantekningartilfellum. Þar var einnig vikið að því sem varðar sveitarfélög og eru vissulega ákveðin vandkvæði á að ná fram þeirri skipan sem hér er lögð til í 12. gr. þar sem segir með þessum orðum, með leyfi forseta, í frv. sem ég gat um:
    ,,Sveitarfélög skulu tilkynna Jafnréttisráði um nefndir, stjórnir og ráð sem kosin eru eða tilnefnd á þeirra vegum. Jafnréttisráð sendir sveitarstjórn athugasemdir ef það telur að ekki séu uppfylltar kröfur samkvæmt þessari grein. Sveitarstjórn getur að fengnum athugasemdum Jafnréttisráðs kosið eða tilnefnt á ný, enda gangi það ekki gegn ákvæðum í öðrum lögum.``
    Þarna er í rauninni náð lengra og með ákveðnari og ljósari hætti því markmiði sem verið er að leggja til í þessu frv. Ég er hins vegar ekki að boða brtt. við frv. heldur aðeins að vísa til þess að hér er önnur

aðferð sem tekur á sama máli og að mínu mati væri hún skilvirkari og augljósara hvernig framkvæma ætti ákvæðið ef því væri beitt, en ég var fús til samkomulags við undirbúning þessa máls að sú leið yrði reynd sem felst í 12. gr. frv.
    Það eru, virðulegur forseti, ýmsir þýðingarmiklir þættir sem varða réttarfarsstöðu þessara mála í frv. og ég vænti þess að þau ákvæði fái góðan hljómgrunn hér. Þó fannst mér gæta efasemda í máli hv. 17. þm. Reykv. um viss atriði en vil ekki staðhæfa að hann hafi boðað þar fyrirstöðu. Ákvæðið sem varðar sönnunarbyrði í sambandi við ráðningu í stöður samkvæmt 6. gr. frv. er mjög þýðingarmikið ákvæði þar sem segir: ,,Ef einhver telur rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.`` Hér er auðvitað mjög þýðingarmikil breyting á ferðinni sem hefur verið tekin upp í Vestur-Evrópu og Evrópubandalagið virðist vera á leið með að lögfesta þessa skipan mála hjá sér og gefið út tilskipun um þetta efni sem er vissulega ágætt skref og við eigum að horfa til í sambandi við skipan mála hér.
    Sama gildir um breytta meðferð deilumála og stofnsetningu sérstakrar kærunefndar jafnréttismála sem auðveldar meðferð og gerir hana væntanlega skilvirkari og léttir af Jafnréttisráði verkefnum sem hafa verið aðalverkefni þess vegna þess hvernig kærumál hafa safnast upp. Ráðið á að verða færara eftir en áður að vinna að stefnumarkandi málum og sem ráðgjafi félmrn. sem er það ráðuneyti sem fer með jafnréttismálin. Það er út af fyrir sig athyglisvert
að það er fyrst með þessum lögum sem því er slegið föstu í frv. að það sé félmrn. sem fari með þessi mál, sé húsbóndinn framkvæmdarvaldsmegin í þessum málum og lögð áhersla á að styrkja ráðuneytið að því leyti. Ég hefði talið rétt að ganga lengra en gert er í frv. til að tryggja að félmrn. fengi svigrúm til þess að sinna þessum málum meira en verið hefur með því að setja upp sjálfstæða skrifstofu jafnréttismála innan ráðuneytisins. Ekki varð samstaða um að ganga svo langt að þessu sinni en ég tel engu að síður þörf á því að þannig verði að málum staðið.
    Virðulegur forseti. Það mætti margt segja um almenna stöðu jafnréttismála. Ég ætla að hafa fá orð um hana. En hitt held ég að engum dyljist sem fylgist með hvernig mál þróast hér í samfélaginu að þó benda megi á vissa ávinninga í jafnréttismálum kynja hér á landi á undanförnum árum eru landvinningarnir afar smáir og á ákveðnum sviðum má segja að þróunin sé að ganga til baka. Maður skynjar ákveðna strauma í samfélaginu í þá átt að úr þeirri sókn sem var snemma á þessum áratug í sambandi við jafnstöðumál kynjanna í samfélaginu sé að draga og þar sé að þyngjast róðurinn á því sviði. Það sjást ýmis merki þess að hið gamla veldi sé að sækja í sig veðrið á þessum sviðum, sé að safna púðri og jafnvel farið að beita skotum til þess að veikja þá ávinninga og smækka þá landvinninga sem þó hafði tekist á tryggja á þessu sviði. Ég vísa til þess sem virðist

stefna í t.d. í sambandi við sveitarstjórnarkosningar sem fram undan eru. Þó á það megi kannski benda að sums staðar fjölgar konum í framboð kemur það jafnframt í ljós að konur sem hafa lagt inn á þennan vettvang margar hverjar eru ekki reiðubúnar til þess að sinna starfi þar áfram. Ástæðurnar, sem Jafnréttisráð hefur að nokkru leyti kannað, eru m.a. neikvæð reynsla og margháttaðar persónulegar ástæður sem gera konum erfitt fyrir að sinna félagsmálastörfum, m.a. í sveitarstjórnum. Það liggur fyrir samkvæmt könnun Jafnréttisráðs að 61% aðalmanna eða kvenna sem skipað hafa sæti í sveitarstjórnum núverandi kjörtímabil segist ætla að hætta í vor og langflestar þessara kvenna voru kosnar í fyrsta sinn í sveitarstjórnir í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þetta er umhugsunarefni, þetta er liður í þeirri neikvæðu stöðu sem konum er búin hér til öflugrar þátttöku í starfi vegna almennra aðstæðna í samfélaginu. Því miður sýnist mér að stuðningurinn við að tryggja þeim möguleika til áhrifa og veita þeim stuðning til þess að færast í fang ábyrgðarstörf m.a. í sveitarstjórnum, sá stuðningur komi ekki fram í flokkunum eins og vera þyrfti. Þetta hlýtur að vera stórfellt áhyggjuefni í sambandi við jafnstöðumál kynjanna. Og það sem kannski er oftast bent á og blasir auðvitað við hverjum manni sem sjá vill er sá mikli launamunur sem er milli kynjanna í samfélaginu, tengist sumpart því að konur eru í láglaunastörfunum, fylla láglaunahópana í samfélaginu, fylla hópa þar sem störfin eru ekki metin til launa eins og eðlilegt væri og m.a. í krafti þess veldis sem ræður mestu um samninga á vinnumarkaði. Gildir þar einu hvort um er að ræða almennan vinnumarkað eða hið opinbera.
    Ég nefni í þessu sambandi og vísa til greinar sem ég rakst á í dagblaðinu Degi á Akureyri 20. mars sl. Lilja Mósesdóttir ritar þar fróðlega grein um þessi efni og kemur bæði að félagslegum réttindamálum kvenna, áhrifum þeirra í samfélaginu og aðstöðu þeirra til áhrifa og alveg sérstaklega að þeim þáttum sem varða launamun kynjanna. Hún bendir á margt í þessari grein sem er ekki löng. Ég leyfi mér aðeins að nefna það sem hún segir undir lok greinarinnar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Víðtæk samvinna útivinnandi kvenna og kvenna með þekkingu og reynslu í t.d. stjórnmálum, sagnfræði, félagsfræði, sálfræði, mannfræði og hagfræði er forsenda þess að raunhæfar leiðir finnist til að snúa undanhaldi í sókn.`` Samvinna þessara hópa --- og það er alveg fullljóst að leiðrétting á misréttinu milli kynja í samfélaginu hefst ekki öðruvísi en konurnar þjappi sér saman. En það hlýtur jafnframt að verða að höfða til hins ríkjandi valds í þjóðfélaginu sem karlar hafa í höndum sér, að þeir séu reiðubúnir til þess að láta eitthvað af mörkum í þessu og standa við orð og yfirlýsingar sem gjarnan falla í máli manna og finna má í yfirlýsingum og samþykktum stjórnmálaflokka og í ræðum manna bæði hér á þingi og víðar. Á þessi atriði reynir bæði nú og áframhaldandi. Við erum tæpast á réttri leið í þessum

efnum.
    Það eru ýmis sólarmerki í þá átt að það sé að þyngjast undir fæti í jafnréttismálum í samfélaginu, að gömul gildi séu að sækja í sig veðrið í þessum efnum. Þetta frv. er viðleitni af hálfu löggjafarvalds og hæstv. félmrh. til þess að bæta stöðuna. Það er skylt að Alþingi standi að því. Annað væri ekki sæmilegt og við skulum vona að þetta frv. verði lögfest hér fyrir lok þings.