Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir mjög ítarlega og fróðlega ræðu sem hún flutti er hún gerði grein fyrir frv. Við athugun þessa máls kemur þó í ljós að í frv. er ýmislegt sem betur má fara. Spurning er hvort frv. þetta, ef samþykkt yrði, yrði til þess að bæta jafnrétti karla og kvenna í þjóðfélaginu frá því sem nú er og hvort í því eru einhver atriði til bóta frá því fyrirkomulagi sem núgildandi lög leyfa. Því miður verð ég að segja að við athugun málsins virðist mér að eitt meginatriði, sem ég tel sterkast af þeim úrræðum sem við höfum nú lögum samkvæmt, sé gert mjög veikt og nánast numið úr lögum. Hér á ég við Jafnréttisráð eins og það nú er skipað og hina veigamiklu úrskurði þess. Sannleikurinn er sá að Jafnréttisráð hefur unnið sér mikilvægan sess meðal þjóðarinnar og það er mjög til þess litið hverjir úrskurðir þess eru. Raunar held ég að úrskurðir Jafnréttisráðs feli í sjálfu sér mikið aðhald fyrir þá sem málum ráða og skipa í stöður. Gildir þar einu þó einn hæstv. samráðherra hæstv. félmrh. hafi æ ofan í æ orðið uppvís að því að ganga á svig við jafnréttislögin samkvæmt úrskurði Jafnréttisráðs. Vissulega er þar um atriði að ræða sem er alvarlegt og hefði þurft að bregðast við á vettvangi ríkisstjórnarinnar sjálfrar, með aðhaldi til þess að starfa í samræmi við jafnréttislögin. Mér þykir hins vegar sem menn séu að flýja kjarna málsins með því að leggja fram frv. sem byggir fyrst og fremst á því að kærumál séu orðin svo mörg hjá Jafnréttisráði að best sé að veikja stöðu þess stórlega með því að fækka fulltrúum í því og skipa þriggja manna nefnd til þess að fara með þessi mikilvægu mál. Ég tel það mjög alvarlegt skref að afnema með þessum hætti vald og sess Jafnréttisráðs sem nu er skipað fulltrúum frá ýmsum aðilum sem oftast eiga hagsmuna að gæta fyrir hönd þeirra sem misgert kann að vera við að skilningi jafnréttislaga. Þetta tel ég alvarlegasta atriðið í þessu frv.
    Við getum svo hins vegar velt því fyrir okkur hvort núgildandi jafnréttislög og tilvist Jafnréttisráðs hafi raunverulega orðið til þess að bæta jafnrétti karla og kvenna, til þess að bæta stöðu kvenna þar sem á þær hefur hallað, en í langflestum tilvikum er það konan sem á hallar í jafnréttismálum. Enn þá er það svo að það er ljóst að fjölmennar stéttir í þjóðfélaginu, sem gegna miklum og sérhæfðum ábyrgðarstörfum, eiga erfiðari stöðu en aðrar stéttir og þessar stéttir eru að meginhluta til skipaðar konum.
    Það má e.t.v. halda því fram að með þessu sé ekki verið að mismuna milli kynja í strangasta skilningi. Ég held þó að þegar við skoðum málin sé veruleikinn sá og við þessu bregðumst við ekki með því að veikja Jafnréttisráð. Við bregðumst ekki við þessu heldur með því að skipa til umfjöllunar kærumála, eða til þess að meta hvort lögin hafi verið brotin, nefnd þar sem færri fulltrúar hagsmunaaðila eiga sæti. Tel ég rangt að draga úr þeim möguleika að víðari sjónarmið geti komið til skoðunar í Jafnréttisráði eins og nú er.

Með frv. er það einmitt gert.
    Af hverju skyldi þetta þá hafa orðið niðurstaðan? Tvær ástæður erur hugsanlegar. Með þessu hefur hæstv. ráðherra lagt fram frv. sem hann gæti e.t.v. sagt að væru viðbrögð við títtnefndum brotum núv. hæstv. menntmrh., sem einnig urðu þegar hann var heilbrrh., eða svo virtist vera samkvæmt svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn sem rædd var 25. jan. sl. Þá vitnaði hæstv. ráðherra til þess að senn mundi hlaupa af stokkunum ný löggjöf um þetta efni. Spurningin fjallaði um það hvað félmrh. hygðist gera á vettvangi ríkisstjórnarinnar vegna þess að menntmrh. hafði fengið gegn sér úrskurð Jafnréttisráðs. Og hafi hæstv. ráðherra ekki séð önnur úrræði má það auðvitað vera rétt, og er auðvitað rökrétt, að svara því með nýjum lögum. Enda séu þau betur framkvæmanleg en þau sem nú gilda og séu sterkari á því sviði sem þeim er ætlað að taka til. --- Það virðast mér þau samt alls ekki vera, því miður, heldur einmitt veikari. Og það er það sem ég tel alvarlegt í þessu máli.
    Hæstv. ráðherra gæti þó hugsanlega bent á einstök atriði sem ekki eru inni í núgildandi lögum eins og t.d. 12. gr. þessa frv., þar sem nánar er útfærð 12. gr. núgildandi laga. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar.`` Og síðan, og það er nýtt í greininni: ,,Þegar tilnefnt er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga skal sá, sem skipar fulltrúa, fá tilnefningu bæði um konu og karl. Við skipun skal þess síðan gætt að fulltrúar skiptist sem jafnast milli kynja.``
    Þetta eru mjög góð markmið og viðurkenni ég sannarlega að skynsamlegt sé að stefna að þessu, enda segir í greininni ,,þar sem því verður við komið``. En það er matsatriði. Hvernig á svo að framfylgja þessu? Kærunefndin sem skipuð á að vera þremur mönnum nú í stað Jafnréttisráðs í heild áður getur gert kröfu um og farið með mál fyrir dómi þar sem ekki einungis eru dæmdar skaðabætur samkvæmt almennum reglum, sem er
náttúrlega ekki nema eðlilegur hlutur, heldur einnig að unnt sé að dæma til
miskabóta af þessum sökum, þ.e. fégjald fyrir hneisu, óþægindi eða röskun á stöðu og högum. Og mér er spurn: Hvernig á að framfylgja þessu? Ef nú t.d. félag sem er framfarafélag í byggðarlagi sem í raun og veru er jafnt skipað konum og körlum hefur nú að meiri hluta til karlmenn í stjórn sinni, er þá unnt að dæma þetta félag til þess að greiða fégjald til kvennanna sem mætavel hefðu getað komið til greina í stjórnina og e.t.v. fallið í stjórnarkjöri eða greiða einhvers konar miskabætur í þessu tilviki? Hver er þá sá einstaki aðili sem misgert er við eða hvernig á að standa að þessu? Mér virðist þetta ekki vera nægilega greinilegt, því verkefni kærunefndarinnar er að leggja mat --- á hvað? Leggja mat á það hvort 2.--13. gr. laganna hafi verið brotnar eða ekki. Þetta ákvæði sem ég er að vitna til er 12. ákvæðið þannig að þetta er eitt af þeim ákvæðum sem geta orðið grundvöllur

einhvers konar fébóta, það hvort konur eru jafnmargar og karlar í stjórn einhvers félags sem bæði er skipað konum og körlum.
    Mér virðist að þarna þurfi að gera orðalagið skýrara. Ekki efa ég að það sem fyrir frumvarpshöfundum eða hæstv. ráðherra vakir er fyrst og fremst að auka jafnréttið og í slíkum tilfellum flestum að auka áhrif kvenna. En mér þykir þetta fébótaákvæði 22. gr. þurfa sérstakrar athugunar við í þessu sambandi. Enn fremur sektarákvæði og þá þarf að gera sér grein fyrir því, ef sektarákvæði kæmi til greina, hvort þær sektir ættu að fara í ríkissjóð eða hvort ekki væri skynsamlegt að þær sektir færu til þess að reka Jafnréttisráð. Þar skilst mér að aðalvandinn hafi verið. Hin raunverulega ástæða þess að verið er að þrengja verksvið Jafnréttisráðs, hið mikla vald sem það hefur í raun og veru á viðhorf og skoðanamyndun í þjóðfélaginu með úrskurðarvaldi sínu, það er verið að þrengja það vald vegna þess að fjárframlög hafa ekki fengist til þess að það gæti sinnt vinnu sinni. Þá á að ná í þau fjárframlög með því að búa til aðra nefnd sem hefur auðvitað miklu minna vægi. Mér finnst miklu skynsamlegra, herra forseti, að nota heldur það fé sem þarf til að kosta starf kærunefndarinnar til að efla starf Jafnréttisráðs í því formi sem það er nú.
    Þá vil ég víkja að nokkrum öðrum einstökum atriðum í þessu frv. Í fyrsta lagi er það fyrsta ákvæðið. Það hefur núna viðbót sem er nokkuð umdeilanleg. Spurning er hversu viðeigandi er að þessi viðbót standi í lagagrein þar sem verið er að fjalla um jafnrétti þegna. Það er tilgangsgreinin og hún er svo orðuð, herra forseti:
    ,,Tilgangur laga þessara er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum.`` Og síðan segir, og það atriði er nýtt og umdeilanlegt í greininni: ,,Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.``
    Ég spyr, ef einhver tilvik eru þannig í þjóðfélaginu, þó að ég hafi þau ekki í huga í bili eða muni ekki eftir þeim, en ég útiloka ekki að þau gætu verið til, að einhvers staðar halli á karlmann, þýðir þetta þá það að ekki eigi að bæta stöðu hans til að ná þessu markmiði? Þetta nefni ég vegna þess að mér þykir þessi setning einfaldlega vera hortittur í greininni. Ég held að það sé sagt sem segja þarf í fyrri hluta greinarinnar: Tilgangurinn er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Ef við erum að tala um jafnrétti eigum við ekki að hafa í sömu lagagrein yfirlýsingu sem þýðir að til þess að ná þessu jafnrétti ætlum við að beita misrétti. Ég get ekki skrifað undir þá aðferð. Hins vegar getur vel verið að þessum tilgangi sé hægt að ná, og það er það sem ég vonast til að verði niðurstaða þeirra jafnréttislaga sem við höfum hverju sinni, að jafnrétti náist án þess að nokkur maður sé beittur misrétti.
    Í þessum orðum mínum felst að ég er nú sem áður andvíg hinum svokölluðu tímabundnu forréttindum. Ég tel að tímabundin forréttindi kvenna til þess að ná fram jafnrétti, eins og ég veit að tilgangurinn er, feli

í sér mótsögn. Tímabundin forréttindi geta þegar til lengri tíma er litið unnið gegn jafnréttinu. Mjög hæfar konur sækja t.d. um ýmis störf í þjóðfélaginu og eru í þau skipaðar vegna þess að þær eru annaðhvort jafnhæfar eða þá hæfari eða miklu hæfari en karlmenn sem sækja. En ef svona grein stendur í lögum, eins og þessi og aðrar sem geta leitt til tímabundinna forréttinda, er þar verið að opna leið til þess að þær séu alla tíð á einhverjum lægri stalli en karlmaðurinn í sams konar starfi því ævinlega verður hægt að vitna til þess hverjir voru hennar verðleikar. Þá segir keppinautur hennar, sem er karlmaður: Verðleikar hennar eru: Hún er kona. Jú, hún hefur þessa starfsreynslu eða þessa menntun en hún er kona og samkvæmt lögunum ræður það úrslitum. Þess vegna er ég andvíg því að í lögunum séu greinar sem veita tímabundin forréttindi og sem kvenréttindakona sækist ég eftir jafnrétti en ekki forréttindum.
    Ég held að það sé meira að segja alveg ljóst að í löndum þar sem ákvæði hafa verið um hin tímabundnu forréttindi, þá eru þau einmitt farin að kasta þessum skugga á feril kvenna sem hafa barist í því að afla sér hæfni til þess að vera metnar að verðleikum en ekki samkvæmt því hvers kyns umsækjandi um starf er. Þetta hefur orðið til þess að mjög hæfar konur í störfum eru farnar að fá það
á sig, finna andrúmsloftið gegn sér, að þær hafi þrátt fyrir alla sína viðleitni ekki hina sömu reynslu eða starfs- eða fræðilegu verðleika og karlmaðurinn sem við hlið þeirra starfar. Þess vegna vil ég enn og aftur vara við þessari viðleitni. En svo sannarlega skulum við gera allt sem við getum til að hvetja til þess að aldrei verði gengið á rétt kvennanna eins og allt of mikið hefur orðið af og einkanlega þó í þeim stóra stíl sem ég nefndi upphaflega, að ýmsar stéttir sem fyrst og fremst eru skipaðar konum búa oft við verri kjör en karlastéttir. Á það því miður oft við þótt kvennastarfið krefjist ekki síður ábyrgðar og sérhæfingar en karlastarfið.
    Einhvern veginn held ég að hæstv. ráðherra sé í hjarta sínu innilega sammála og ég vonast svo sannarlega til þess að hún beiti sér fyrir því að þetta frv. og þau lög sem í landinu gilda um þessi efni séu þannig að konur megi vera stoltar af og að það sé gengið út frá því að þær séu á öllum sviðum jafnhæfar til hvers konar starfa. Og þess vegna skipi þær störfin en ekki vegna þess að lög segi: Það á að skipa konu sem fullnægir skilyrðum til starfsins, eins og segir annars staðar í frv. En það segir hins vegar ekkert um það ef umsækjendur um starf fullnægja skilyrðunum sem sett eru, hvernig fari þegar um er að ræða mismunandi starfsreynslu eða hæfni sem er meiri en lágmarksskilyrðin. Því þarf e.t.v. að athuga þetta orðalag betur eða einfaldlega nema úr lögunum allt sem getur leitt til hinna svonefndu tímabundnu forréttinda.
    Hitt er svo annað mál að það eru önnur atriði í þessu frv. þar sem allt önnur sjónarmið en jafnrétti kynja koma til greina við tilnefningu til starfa. Það er skipan sjálfs Jafnréttisráðs, sem að vísu á að hafa mun

veigaminna hlutverk nú, ef þetta frv. verður að lögum, en áður var. Það á fyrst og fremst að verða fundavettvangur, virðist mér vera, þar sem sennilega á að gera ályktanir sem eiga að verða ráðgefandi og um fræðslu- og upplýsingastarfsemi o.s.frv., eins og er meðal núverandi verkefna Jafnréttisráðs. Það sem er einkennilegt í þessu, og er eitt aðalatriðið í frv., er að allir þingflokkar eiga að tilnefna. Það segir ekkert um það hve margir eigi að vera í Jafnréttisráði en ef það væri ljóst gætu þingflokkar haft samstarf um tilnefningu rétt eins og þegar um þingkjörnir nefndir er að ræða. En nú er það t.d. svo ef Sjálfstfl., eins og hann er núna, dytti í hug að skipta sér niður í 18 þingflokka, þá gætum við átt ansi drjúgan hluta í þessu nýja ráði. Ég tala nú ekki um ef við verðum 38. Á þetta benti flokksbróðir minn hér í gær. Virðist augljóst --- ég ætla ekki að fara nánar út í það --- að þetta ákvæði þarf að vera greinilegra.
    Ég vil aðeins ítreka, herra forseti, hve varhugavert það er að veikja Jafnréttisráð með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Sú afstaða mín verður enn ákveðnari þegar ég les ákvæði til bráðabirgða sem mér þykir satt að segja ekki hafa neina skýringu. Svo mikið liggur á að draga úr valdi Jafnréttisráðs að sett er ákvæði til bráðabirgða um að það eigi að víkja frá um leið og lögin eru sett. Þá eigi af skyndingu að skipa nýtt Jafnréttisráð samkvæmt nýju lögunum. Ekki veit ég t.d. hvort þingflokksígildi með einum manni á að vera í Jafnréttisráði eða hve margir menn þurfa að vera til þess að hafa fulltrúa eða hvort stærri flokkar hafa fleiri fulltrúa, um það segir ekki neitt í frv.
    En hvað um það, þangað til nýjar alþingiskosningar fara fram á að skipa nýtt Jafnréttisráð samkvæmt 15. gr. og þá á að skipa hina umræddu kærunefnd til þriggja ára. Það verður nefndin sem hefur hið raunverulega vald samkvæmt þessum lögum. Þeir sem ekki fá að tilnefna í nefndina, sem valdið hefur samkvæmt þessum lögum, eru eftirtaldir aðilar: Vinnuveitendasamband Íslands, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kvenfélagasamband Íslands. Þessir aðilar fá samkvæmt hinu nýja frv. ekki að verða aðilar að ákvörðunum Jafnréttisráðs nema það varði með beinum hætti einhvern þeirra. Ég skil ekki hvað hæstv. ráðherra gengur til með t.d. Kvenfélagasamband Íslands, sem er stofnun sem hefur unnið mjög mikið og þarft verk fyrir konur hér á landi í 60 ár, að afnema rétt þessa sambands sem hefur líka verið viðurkennt af Alþingi í mörg herrans ár. Af hverju má Kvenfélagasambandið ekki eiga fulltrúa í þessari mikilvægu stofnun sem nú er, Jafnréttisráði? Og hvers vegna ætti það þá ekki, ef búin eru til eins konar tvö Jafnréttisráð, að eiga fulltrúa í þeirri kærunefnd sem á að fara með hið raunverulega vald Jafnréttisráðs, úrskurðarvaldið?
    Þetta eru spurningar sem ég hygg að nauðsynlegt sé að svara. Aðalatriðið með þessu frv. ætti að vera að bæta rétt og aðstöðu kvenna í landinu til þess að ná jafnrétti á við karla þar sem á það skortir og líka á hinn veginn. Með öðrum orðum að koma á, eins og segir í 1. gr., jafnrétti karla og kvenna á öllum

sviðum. Þess vegna þarf að breyta því eða leyfa núgildandi lögum að standa.
    Ég ætla ekki að fara út í það að skilningur getur verið mismunandi á því hvað hin jafna staða þýðir, hvort það þýði að það sé jöfn aðstaða eða jafn fjöldi í störfum. Ég mun ekki fara út í það né nánari hugleiðingar um hin
hefðbundnu karlastörf og hefðbundnu kvennastörf, heldur hitt að þar sem réttur annars kynsins er fyrir borð borinn, þar verði sá hlutur færður til rétts vegar. Það er þetta sem máli skiptir en ekki hve margar nefndir eru skipaðar æ ofan í æ.