Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hef verið að kynna mér efni þessa frv. og gallinn við það virðist mér vera sá að það er tvísaga, þ.e. bæði boðar það jafnrétti og eins boðar það að ekki skuli vera jafnrétti. Ég held að það sé grundvallaratriði í hugsun manna að menn sættist á aðra hvora niðurstöðuna. Það gengur ekki upp að tala um jafnrétti í öðru orðinu og boða forréttindi í hinu. Og það vekur einnig spurningar ef horft er á þetta út frá öðru sjónarmiði, þ.e. út frá því sjónarmiði að þar sem misrétti hafi verið í þessu landi sé nú kominn tími til að snúa því við og hafa misrétti á hinn veginn. Og fyrsta spurningin er: Lendir það þá á sömu aðilum? Ég er hræddur um að þá yrði að kalla þessa dauðu til lífsins aftur ef ætti að fullnægja réttlætinu hvað þetta snertir en ekki að tryggja það að þeir sem ekkert hafa af sér brotið í þessum efnum og eru nú að koma ungir út á vinnumarkaðinn --- þar á ég við unga karlmenn --- skuli sitja uppi með það að þeim sé ætlaður minni réttur í landinu en öðrum.
    Ég held að skynsamlegt sé, þegar menn skoða mál eins og þetta, að horfa á helstu fjallatoppa og reyna að átta sig á aðalatriðum. Yfirleitt eru lífskjör manna og aðstaða þjóða metin út frá meðalaldri, metin út frá eignum einnig. Ísland er með einn hæsta meðalaldur í heimi en það er með mun hærri meðalaldur kvenna en karla. Eiga jafnréttislög að breyta þessu? Það eru náttúrlega tveir möguleikar, að vekja upp þá dauðu eins og ég vakti athygli á áðan eða ætla menn að fara að stytta hinum aldur til að hafa þetta jafnt?
    Auðvitað stendur þetta ekki til. Það vita nú trúlega allir. En annað atriði hafa konur talað um og það eru eignir, að eignir kvenna á þessari jörðu séu miklu minni en karla. En hver verður nú afleiðingin af því næstu 30 árin að það liggur fyrir að allt útlit er fyrir að konur nái hærri meðalaldri? Þær munu erfa mestallar eignirnar. Og þær munu erfa þær hvort sem þær eru orðnar sjötugar eða eldri. Það blasir við að þær verða eigendur að mestöllum eignum í landinu.
    Hvernig er þá staðan í menntaskólunum? Útskrifast færri konur stúdentar en karlar? Nei, það útskrifast mun fleiri konur stúdentar en karlar og allt gott um það. Það er þess vegna útlit fyrir að það muni gerast á næstu árum að það verði fleiri konur sem stundi nám í Háskóla Íslands en karlar. Mér sýnist þess vegna að allt bendi til þess hér á landi að með þeim jafnréttislögum sem nú eru í gildi muni í náinni framtíð nást algjört jafnrétti hér í landinu. Þegar ég segi algjört jafnrétti á ég við það að það verði ekki hægt að flokka það eftir kynjum hver mismunun er á milli einstaklinga heldur eftir lífsaðstöðu að ýmsu öðru leyti því mér er vissulega ljóst að jafnrétti verður ekki í landinu á milli allra þegna þess. Það er staðreynd sem blasir við.
    Nú stendur svo á, herra forseti, að ég hafði óskað eftir viðveru hæstv. iðnrh. hér á fundinum og mér var tjáð að hann væri kominn í húsið og ég get ekki lokið máli mínu nema hann mæti hér en ég hef ekki áhuga á að tefja það á nokkurn hátt að þetta mál komist til

nefndar og vil þess vegna eindregið mælast til þess við forseta að iðnrh. verði boðaður. ( Forseti: Forseti vill geta þess að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að fá hæstv. iðnrh. hér í salinn, en eins og ræðumaður gat réttilega um er ráðherrann staddur í húsinu.)
    Hér hafa ýmsir ræðumenn talað á undan og ég vil vekja á því athygli að hv. 3. þm. Reykv. hafði mjög ákveðnar meiningar um það að hún vildi jafnrétti en ekki forréttindi og ég hlýt að taka undir mjög margt í þeim málflutningi. Það er ekki nóg með það að ég sé þeirrar skoðunar að frv., eins og það er, geti ekki orðið að lögum heldur er ég einnig þeirrar skoðunar að það væri hættulegt ef það yrði að lögum. Ég óttast að það yrði til þess að vekja upp ýmsa hópa sem eru kannski ekki jafnréttislega sinnaðir en mundu, ef þetta yrði að lögum, telja sig hafa fengið möguleika til þess að hefja hér verulega róttækan áróður gegn þeim jafnréttislögum sem væru í landinu. Og mér finnst að það sé heldur ekki hægt að horfa fram hjá mjög mörgu í málflutningi hv. 3. þm. Norðurl. e. þar sem hann ræddi t.d. um 6. gr. Ég er ekki búinn að sjá að það ákvæði sem þar er inni og snýr nánast sönnunarskyldu við geti verið eðlilegt ákvæði í íslenskum lögum, sem byggir á því að sá sem sækir mann til sakar á að sanna sekt hans en ekki öfugt, að sá sem sóttur er verði að sanna sitt sakleysi. Mér er ljóst að það eru oft á tíðum mjög viðkvæm mál að ræða að fullu í grunn ef þarf að segja einhverjum upp störfum og með þeim texta sem hér er sýnist mér að þar verði nánast hægt að fara fram á það að atvinnurekandi geri í það minnsta jafnheiðarlega tilraun og hann getur til að skrifta frammi fyrir alþjóð í þeim efnum og komist raunverulega ekkert undan því að gera það því að ella verði hann bara dæmdur sem sakamaður.
    Nú verð ég að segja eins og er, herra forseti, að miðað við starfsmannafjölda í þinginu vænti ég þess að gengið verði nokkuð fastar eftir því að handsama iðnrh. og koma honum í salinn eða að umræðunni verði frestað. ( Forseti: Forseti vill láta þess getið að hæstv. iðnrh. er bundinn við skyldustörf í hv. Ed. Hann er þar að auki ekki flytjandi þessa frv. en mun væntanlega koma hingað jafnskjótt og hann hefur lokið þátttöku sinni í umræðum
í hv. Ed. Ræðumanni er að sjálfsögðu frjálst að gera hlé á ræðu sinni.) Ég hlýt að sjálfsögðu að viðurkenna þá staðreynd að hæstv. iðnrh. getur ekki verið á tveimur stöðum samtímis, en að því leyti er hann þátttakandi í flutningi frv. að hann er aðili að ríkisstjórn og stýrir atvinnuvegaráðuneyti og frv. fjallar einmitt um störf manna í samfélaginu. Ég mun þá gera hlé á ræðu minni, herra forseti.