Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Það hafa orðið nokkrar umræður um það mál sem hér er á dagskrá og ég hafði ekki búið mig undir að taka sérstaklega á því. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að gera athugasemdir við ýmis ummæli í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. Hann drap á það m.a. að kvennalistakonur hefðu ekki beitt sér sérstaklega fyrir málefnum heimavinnandi kvenna. Þessu vil ég mótmæla því þetta er alrangt. Kvennalistakonur hafa beitt sér fyrir margvíslegum málum sem varða réttindi heimavinnandi kvenna og hagsbætur fyrir þær. M.a. höfum við ekki einu sinni heldur tvisvar lagt fram frv. til laga um lífeyrisréttindi fyrir heimavinnandi konur. Og það hefur ekki verið meiri áhugi fyrir því en svo að það hefur alls ekki fengið þær undirtektir sem það hefði þurft. Því hefur verið vísað til þessarar títtnefndu endurskoðunar tryggingalaganna sem ekki er nú enn farin að sjá dagsins ljós þó að því hafi verið hátíðlega lofað að sú endurskoðun lægi fyrir, fyrst í þingbyrjun eftir jól og síðan ekki seinna en um miðjan mars og miður mars er nú þegar liðinn og ekki bólar á þessu frv.
    En fleira hafa kvennalistakonur gert til hagsbóta fyrir heimavinnandi fólk en þetta. Þær hafa beitt sér fyrir lögum um fæðingarorlof sem vissulega fékk ekki heldur þær undirtektir sem það átti skilið en ég vil leyfa mér að fullyrða að þau lög sem síðan hafa verið samþykkt um fæðingarorlof fyrir konur tóku verulegum stakkaskiptum til bóta fyrir konur einmitt vegna óbeinna áhrifa frá Kvennalistanum.
    Við höfum einnig lagt fram frv. um bætur til handa þeim sem við köllum foreldraekkjur, konur sem stunda ýmist farlama foreldri eða skyldfólk í heimahúsum, að þær fengju umbun fyrir þau störf.
    Við höfum lagt fram fjölmörg fleiri mál í þessa veru, svo sem um launalaust leyfi fyrir foreldra, að þeir geti gengið að sínum störfum eftir að hafa annast börn á heimilum sínum tímabundið. Og við höfum lagt fram mörg mál sem varða
það að foreldrar hafi rétt til að sinna börnum sínum og mál sem varða það að einhver fjölskyldustefna sé rekin hér í þessu þjóðfélagi.
    Hv. þm. nefndi það einnig að konur ættu jafnan starfsvettvang og karlar innan pólitísku flokkanna. Ég er ekki sammála hv. þm. í þessu því hvernig stendur þá á því, ef það er rétt, að konur í pólitískum flokkum telja sig nauðbeygðar til þess að stofna sérstök samtök innan þeirra. Ég minni þar á Landssamband framsóknarkvenna og t.d. Sjálfstæðiskvennafélagið Hvöt. Í því tilviki minni ég á bók sem gefin var út fyrir nokkru og var um æviferil konu sem lengi hafði verið virk í Sjálfstfl. Þar segir hún beinum orðum að starf sitt innan Hvatar hafi orðið sér til hindrunar í pólitískum frama. Einmitt það að hún hafði starfað innan kvennasamtaka flokksins varð henni fjötur um fót. Svo þá blasir við hverjum manni að það er ekki vænlegt til framdráttar fyrir konur innan pólitísku flokkanna að hafa verið þar í sérstökum samtökum. Og yfir höfuð segir það sína

sögu að þær skuli finna sig til knúnar að mynda sérstök kvennasamtök innan pólitísku flokkanna.
    Ég vil einnig minna á varðandi það þegar verið var að tala um að karlmenn þyrftu að eiga jafnan kost á við konur að sinna sínum börnum og atvinnurekendur væru ekki tilbúnir að samþykkja það og hliðra til í þeim efnum að fyrir nokkrum árum tók einn bæjarfulltrúa á Akureyri það fyrir að hann fór á alla vinnustaði í bænum í leit að hálfs dags starfi fyrir karlmann, taldi að kunningi sinn þyrfti á því að halda. Það er skemmst af því að segja að þetta starf virtist ekki vera til og að viðmót atvinnurekenda var yfirleitt á þá lund að þessi maður hlyti að vera stórskrýtinn --- karlmaður sem vildi fá hálfsdagsstarf.
    Ég vil taka undir það með hv. 3. þm. Norðurl. e. að skilningur á jafnréttismálum hefur ekki aukist mikið á seinni árum. Hann kvartaði yfir því að Jafnréttisráð væri ekki skipað jafnt konum og körlum en það er ósköp einföld ástæða fyrir því. Ástæðan er sú að menn treysta ekki karlmönnum til að hafa þann skilning á málefnum kvenna að ástæða sé til að þeir séu þar í meiri hluta því auðvitað er það sem þarf að gera að rétta stöðu kvenna. Karlmenn hafa allan þann rétt sem þeir þurfa á að halda í þessu þjóðfélagi. Það er ekki verið að biðja um meiri réttindi fyrir þá. Það sem verið er að gera er að konur fái jafnan rétt á við þá. Hv. þm. hældi einnig hæstv. félmrh. fyrir af hve miklum krafti hún hefur tekið á jafnréttismálum sem er vissulega rétt, en skyldi það ekki vera að hluta til fyrir það að hún er kona og hefur fundið þessi mál brenna á sér? Ég hef ekki séð að fyrri félagsmálaráðherrar sem allir eru karlkyns hafi haft þennan sama áhuga.
    Ég undirstrika það út af orðum hv. 1. þm. Vesturl. að Kvennalistinn hefur barist stöðugri baráttu fyrir því að augu manna opnist fyrir því að bættur hagur kvenna er bættur hagur allra í þessu þjóðfélagi. Og ég tel að allur málflutningur okkar hér innan þings og hvar sem er hafi einkennst af því að við höfum jafnan hag og þarfir kvenna að leiðarljósi.
    Hv. 2. þm. Vestf. talaði um langlífi kvenna sem honum virtist að hlyti að stuðla að bættri eignastöðu þeirra. Mér virðist nú að það þyrfti þá oft að bíða nokkuð lengi eftir því að eignir þeirra ykjust og spurning hvort það sé það sem við viljum, að þurfa að missa maka okkar til þess að verða einhvers megandi efnalega. Ég held að það sé dálítið skökk hugsun í því hjá hv. þm.
    En hann minntist líka á menntun kvenna og þá vildi ég benda honum á í því sambandi að þrátt fyrir háskólamenntun kvenna er það alveg augljóst mál að háskólamenntaðar konur hafa mun lakari réttindi til launa hjá ríkinu en karlar. Það er eitthvað skárra úti á hinum almenna vinnumarkaði en hjá ríkinu er staða þeirra mun verri.
    Ég hef ekki miklu við þetta að bæta að sinni. Ég bjóst ekki við að fara hér upp í ræðustól en ég gat ekki setið þegjandi undir ásökunum hv. 1. þm. Vesturl. og ég tel að ég sé búin að svara honum þó að hann sé ekki hér viðstaddur. Hann getur þá

væntanlega lesið það í þingtíðindum, ef hann lítur einhvern tíma í þau. En ég endurtek það að barátta Kvennalistans hvar sem er í þjóðfélaginu hefur jafnan einkennst af því að við viljum bæta hag kvenna og teljum að með því verði hagur karla jafnframt bættur.