Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mál. Hér hafa orðið langar og ítarlegar umræður um frv. og að mínu viti mjög gagnlegar. Fram hafa komið margar ábendingar varðandi þetta frv. sem væntanlega verða skoðaðar í nefnd sem um málið fjallar.
    Mér sýnist að einkum séu gerðar athugasemdir við 12. gr. sem fjallar um hvernig eigi að skipa í nefndir, stjórnir og ráð og hvernig skipan Jafnréttisráðs á að vera samkvæmt frv., en það kemur fram í 15. gr.
    Ég neita því ekki að ég stoppaði svolítið við þetta ákvæði í 12. gr., hvernig eigi að haga skipun í nefndir, stjórnir og ráð, þegar nefndin skilaði frv. til mín. En ég leit svo á að um þetta ákvæði væri mjög breið samstaða, ekki síst með tilliti til þess hvernig nefndin var saman sett en í henni áttu sæti fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, þ.e. fulltrúar sex stjórnmálaflokka komu að þessu verki og skiluðu sameiginlegu áliti og niðurstöðu í þessu máli. Ég tel að þær ábendingar sem settar hafa verið fram og þau rök sem hafa komið fram í þessum ræðustól, t.d. að því er varðar 12. gr. og fram kom t.d. hjá hv. 9. þm. Reykn., eigi fyllilega rétt á sér og vænti þess að nefndin skoði þessi ákvæði.
    Aðeins örfá orð um það sem fram kom hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur. Hún taldi að verið væri að draga mjög úr starfi Jafnréttisráðs með því að tvískipta hlutverki þess, þ.e. annars vegar í kærunefnd og hins vegar mundi Jafnréttisráð starfa áfram. Ég held að þetta sé ekki alls kostar rétt vegna þess að Jafnréttisráði er með þessu frv. eins og áður ætlað mjög mikilvægt hlutverk sem er mótun stefnu í jafnréttismálum í landinu og hafa frumkvæði að aðgerðum til þess að bæta stöðu kvenna. Jafnréttisráð á einnig að hafa ýmis mikilvæg störf með höndum eins og t.d. ýmis rannsóknarverkefni.
    Hér var spurt af hv. 10. þm. Reykn. hvernig staðið yrði að kynningu á þessu frv. ef að lögum yrði. Ég er sammála hv. þm. um það að mjög mikilvægt er að kynna ítarlega ákvæði frv. Ég tel reyndar að það sé hlutverk Jafnréttisráðs að gera slíkt. Í 16. gr. kemur fram að Jafnréttisráð á að hafa með höndum ýmsa fræðslu og upplýsingastarfsemi og ég tel að það falli undir verkefni Jafnréttisráðs að sjá til þess að þetta frv., ef að lögum verður, fái ítarlega kynningu sem ég er sammála um að sé nauðsynleg.
    Hv. 3. þm. Norðurl. e. dró í efa að ákvæði sem fram kemur í frv. og fjallar um öfuga sönnunarbyrði ætti rétt á sér. Ég er ekki sammála honum í því. Ég tel að þetta sé mjög brýnt og mikilvægt ákvæði og mikilvægt einmitt við úrskurði í kærumálum og fleira þess háttar. Ég bendi á að nágrannaþjóðir okkar hafa talið sig þurfa að fara þessa leið og benti á í minni framsögu að slík ákvæði er bæði að finna í sænskum og finnskum jafnréttislögum. Það kom einnig þá fram í máli mínu, sem ég vil ítreka, að fyrir liggur tillaga, tilskipun, sem lögð var fram af framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í maí 1988 um öfuga

sönnunarbyrði á sviði launajafnréttis og jafnréttis kvenna og karla. Það er alveg auðsýnt hver þróunin verður í þessum málum.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að tefja umræðuna. Ég vona að þetta frv. fái fljóta afgreiðslu í þeirri nefnd sem um það fjallar. Ég minni á að sama frv. var til umræðu hér á síðasta þingi. Þegar hefur verið leitað umsagnar aðila sem með þessi mál fara. Þær umsagnir eiga allar að liggja fyrir.
    Ég vil taka undir það í lokin sem fram kom í máli margra sem hér töluðu að mjög mikilvægt er að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi að því er varðar jafnréttismálin. Því miður er víða brotalöm að því er varðar hið opinbera. Nefndir hafa verið nokkuð til umræðu og fyrir liggur að í þeim nefndum sem skipað er í á vegum hins opinbera er hlutur kvenna ekki nema 11--12%. Það er auðvitað afleitt vegna þess að konur eiga að hafa mótandi áhrif í þjóðlífinu, ekki síður en karlar. Mikilvægar ákvarðanir eru oft teknar í þessum nefndum, stjórnum og ráðum sem áríðandi er að konur komi að einnig. Ég vil líka benda á það að þegar maður lítur til hins opinbera, sem hefur tekið á sig skyldur, ríkið hefur tekið á sig skyldur þegar Alþingi hefur samþykkt jafnréttislög, þá vantar mikið upp á það að ríkið sinni þessum skyldum sínum. Ég vil nefna sem dæmi, af því að launamálin hefur borið á góma, að á árinu 1987 voru greiðslur á yfirvinnu 84% meiri til karla en kvenna hjá ríkinu, greiðslur á vaktaálagi 50% meiri til karla en kvenna, greiðslur á nefndalaunum 367% meiri til karla en kvenna, greiðslur á kostnaði 489% meiri til karla en kvenna. Og heildaraukagreiðslur sem hlutfall af dagvinnulaunum voru 86% meiri til karla en kvenna á árinu 1987.
    Ég hygg að þessar tölur sýni okkur ljóslega að það er langt í land að ríkið virði jafnréttislögin eins og því þó ber að gera. Ég vænti þess að þetta frv. fái greiða leið hér í gegnum þingið.