Námsgagnastofnun
Föstudaginn 23. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur þegar fengið meðferð í hv. Ed. og er samkomulagsmál. Það felur í sér nokkrar breytingar á lögunum um Námsgagnastofnun þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að forstjóri stofnunarinnar sé skipaður til takmarkaðs tíma í senn og að foreldrafélög fái aðild að námsgagnastjórn. Ráð er fyrir því gert að deildaskipting stofnunarinnar sé felld niður úr lögunum, hún verði hins vegar reglugerðaratriði. Og í ákvæði til bráðabirgða er enn byggt á því sem segir um foreldrafélög með því að gert er ráð fyrir að þar til landssamtök foreldrafélaga hafi verið stofnuð eigi aðild að námsgagnastjórn samtök foreldrafélaga í hverju fræðsluumdæmi sem tilnefni einn áheyrnarfulltrúa til eins árs í senn. Ef ekki eru starfandi foreldrasamtök í fræðsluumdæmi skuli fræðsluráð hafa tilnefningarréttinn.
    Það er þrennt sem skiptir máli í sambandi við Námsgagnastofnun á þessu þingi. Í fyrsta lagi að unnið er að því samkvæmt heimild í fjárlögum ársins 1990 að festa kaup á húsnæði fyrir stofnunina. Í öðru lagi er í fjárlögum ársins 1990 gert ráð fyrir nokkurri raunaukningu á framlögum til Námsgagnastofnunar gagnstætt því sem um er að ræða að því er varðar aðrar stofnanir m.a. á sviði mennta- og menningarmála. Og í þriðja lagi er hér um að ræða frv. sem hefur, eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, þegar sætt meðferð í hv. Ed. og verið þar vel tekið og er samkomulagsmál sem ég vænti og að verði í þessari virðulegu deild. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.