Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég mun að sjálfsögðu verða við tilmælum forseta. Ég tek það fram að ég gat ekki komið fyrr til fundar í deildinni vegna þess að ég var að mæla fyrir frv. í hv. Ed. og hlaut að fylgja því máli til loka umræðunnar.
    Vegna þess máls sem hv. 2. þm. Vestf. hreyfir hér og varðar 8. gr. þess frv. sem hér er til 1. umr. vil ég segja þetta: Ég tel þetta vera ábendingu sem er dæmigerð fyrir viðfangsefni nefndar að fjalla um. Hún verður að meta það hvort þetta geti valdið óeðlilegri röskun á högum eða kjörum atvinnuvega þegar jafnréttismarkmiðið er sett fram á þennan hátt. Það sem hér skiptir kannski mestu máli er nefnarinn í brotinu þegar litið er á hvað orðin ,,minni hluti í starfsgrein`` þýða. Hér bendir hv. 2. þm. Vestf. á það að þarna væri að hans áliti eðlilegt að líta til þess sem er í þessu eina fyrirtæki í álbræðslu sem er hér fyrir, hvernig þar er hagað hlutföllum kynjanna.
    Ég vil benda hv. þm. á það að það sem hann gefur sér um eftirsókn kvenna eftir störfum í hugsanlegu iðjuveri á þeim stað sem hann nefndi er náttúrlega getspá hans en ekki staðreynd. Ekki skal ég gera lítið úr því að hann sé maður forvitri en ekki sér hann allt fyrir. Það er hins vegar alveg rétt að nauðsynlegt er að huga vel að þessu. Og ég bendi á að þetta er eitt af því sem hv. félmn. þessarar deildar hlýtur að kanna þegar hún fær þetta mál til meðferðar.