Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil vekja sérstaka athygli á þeirri röksemdafærslu sem kom fram í máli hv. 2. þm. Vestf. Það voru sjónarmið hugsanlegra erlendra eigenda áliðju hér á landi sem áttu samkvæmt hans mati að vera ráðandi um það hvaða skilyrði eru sett í sambandi við jafnréttismál hér á landi. Ég verð að lýsa undrun minni á að ýtt skuli vera á eftir því hér á Alþingi Íslendinga að slík sjónarmið séu sérstaklega könnuð þegar verið er að setja lög um jafnrétti hér á landi.