Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það má þakka stjórnarflokkunum fyrir að verja ákveðnum tíma hér í dag til umræðna um utanríkis- og öryggismál þjóðarinnar. Það vekur hins vegar nokkra athygli með hvaða hætti það er gert. Auðvitað liggur í augum uppi þegar við höfum gert samninga við erlenda þjóð um að framkvæma hér með gagnkvæmum samningum varnir í þágu okkar og bandalagsþjóða okkar að fram þarf að fara á þeim vettvangi ákveðið eftirlit. Ég hygg að hæstv. utanrrh. hafi lýst með ágætum að varnarliðið framkvæmir hér ákveðin eftirlitsstörf og við hljótum að ætlast til þess út frá okkar eigin varnarhagsmunum að þau séu rækt í samræmi við þá samninga sem fyrir liggja. Ég tel hins vegar eðlilegt að utanrrn. á hverjum tíma fylgist með að öll sú starfsemi sem þarna fer fram sé í samræmi við samninga, í samræmi við þær heimildir sem gefnar hafa verið. Og eins og hæstv. ráðherra tók fram liggur ekkert annað fyrir en að svo sé.
    En það er sérstaklega athygli vert í þessu efni að þessi umræða sýnir auðvitað fram á það að á bak við hæstv. ríkisstjórn er enginn einn hugur í utanríkis- og öryggismálum. Þetta er ríkisstjórn sem styðst við þingmeirihluta sem er margklofinn í utanríkis- og varnarmálum. Þessi umræða varpar ljósi á þá staðreynd og veikir auðvitað stöðu Íslands í þessu efni.
    Og frú forseti, ég ætla að ljúka máli mínu en ég held að það sé ástæða til þess að varpa ljósi á þá staðreynd að e.t.v. hefði verið miklu nær fyrir stjórnarmeirihlutann, sem taldi sig hafa tíma til þess að ræða utanríkis- og öryggismál, að ræða hér í dag málefni Litáa og hernaðaríhlutun Sovétríkjanna í Litáen. Ræða það hvers vegna ríkisstjórn Íslands hefur ekki viljað með formlegum hætti viðurkenna Litáen. Það hefði verið meiri reisn yfir stjórnarliðinu ef það hefði hafið umræður um það efni.