Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég tel það algerlega óviðunandi ef rekin er hér á landi njósnastofnun eins og greint var frá í útvarpspistli frá Bandaríkjunum. Og ég tel að það sé fyllsta ástæða til að kanna það mál eins og reyndar hæstv. utanrrh. hefur talað um að hann muni gera. Ég tel það nauðsynlegt fyrir okkur að fá upplýsingar um hvað þarna er á ferðinni. Ég tel það ekki neitt sjálfsagt þótt Bandaríkjamenn hér á Keflavíkurflugvelli telji sig þurfa að fylgjast með því sem fram fer hér í kringum landið að það geti verið að þar sé rekin víðtæk njósnastarfsemi eins og það að hlera símtöl og annað sem talað var um í fréttinni að væri gert alla vega í Bandaríkjunum. Þannig að ég fagna því að það skuli eiga að fara ofan í þetta mál og að við fáum þá væntanlega upplýsingar um það frekar, á fimmtudaginn þegar utanríkismálaumræðan fer fram, hvað þarna er í raun og veru á ferðinni.