Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ræða hæstv. fjmrh. ber vitni um það að hann og flokkur hans eru kengfastir í hinni gömlu umræðu um varnar- og öryggismál. Þetta er hefðbundin uppákoma af hálfu Alþb., að grípa fréttir erlendis frá með þessum hætti. Það hefur verið gert í mörg undanfarin ár. Ýmsir héldu að hæstv. fjmrh. væri að hafa forustu um að breyta viðhorfum Alþb. í öryggismálum en það kemur glöggt fram í þessari umræðu að hann hefur ekkert lært í þeim efnum af þeim miklu breytingum sem nú eru að eiga sér stað.
    Það er svolítið sérstakt að hæstv. fjmrh. í ríkisstjórn Íslands skuli standa hér upp og saka þingmenn um kaldastríðsáróður þegar þeir halda því fram að það hefði verið rismeira að tala nú um hernaðaríhlutun Sovétríkjanna í Eystrasaltsríkjunum, í Litáen. Þetta er það sem hæstv. fjmrh. kallar kaldastríðsáróður. Og ég spyr: Er þetta kveðjan sem hæstv. ríkisstjórn er að senda frelsisunnandi fólki sem berst núna við ógn rauða hersins þar austur frá? Eru þessi orð hæstv. fjmrh. kveðjan frá hæstv. ríkisstjórn? Það er ástæða til þess að fá skýr svör um það frá hæstv. utanrrh.