Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að bera blak af neinum með þeim orðum sem ég sagði áðan. Það eina sem ég óska eftir er að sú rannsókn sem færi í gang á meintri ólöglegri starfsemi hér á landi, bæði hlustunum og öðru slíku, yrði látin ná til fleiri aðila en hér voru nefndir í upphafsræðunum. Það er það eina sem ég óska eftir.
    Þessi fréttaflutningur í gær vekur líka nokkra undrun vegna þess að hv. þm. Eiður Guðnason minnti á gamla frétt Ríkisútvarpsins fyrir nokkrum árum. Ég er hér með í höndunum þessar tvær greinar í Washington Post frá 18. og 19. þessa mánaðar sem vitnað er til í fréttinni í gær. Þar er hvergi minnst á Ísland. Það er hvergi minnst á Ísland í þeim greinum, hvorugri þeirra. Annarri greininni fylgdi að vísu heimskort þar sem Ísland var með á kortinu. Hvort sú staðreynd að Ísland var á korti af þessum heimshluta gaf fréttamanninum tilefni til að hringja vestur og spyrjast fyrir um þetta veit ég ekki eða hvort einhver annar vakti athygli á því að þarna vantaði að nefna Ísland. Ég veit það ekki.
    En eins og ég sagði áðan, við erum aðilar að varnarbandalagi. Þar hljóta að vera stundaðar vissar tegundir af eftirlitsstarfsemi og við getum þess vegna kallað það njósnir um umferð í kringum landið. En ef það á að fara að kanna eitthvað í þeim dúr, þá óska ég eftir að það nái til fleiri en eins aðila hér á landi.