Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Mánudaginn 26. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Sl. fimmtudag hófst hér umræða um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Fresta varð þeirri umræðu þar sem enginn hæstv. ráðherra var viðstaddur og ekki hæstv. fjmrh. sem ég hafði áhuga á að ræða örlítið við og bið hann því að vera viðstaddan, a.m.k. um sinn.
    Ég rifja það upp að lög um umboðsmann Alþingis voru sett árið 1987. Með samþykkt þeirra laga var komið í höfn máli sem margir þingmenn höfðu í langan tíma borið fyrir brjósti. Það var brýn ástæða til þess að setja slík lög. Tilgangur þeirra var að tryggja betur en áður rétt einstaklinganna í þjóðfélaginu gagnvart stjórnvöldum, eða gagnvart kerfinu eins og það er oft nefnt í daglegu tali.
    Lögin um umboðsmann Alþingis eru nr. 13/1987. Þau eru einföld og skýr. Í 2. gr. laganna kemur fram að hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.
    Í 4. gr. laganna segir að umboðsmaður sé í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi. Í 7. gr. segir að umboðsmaður Alþingis geti krafið stjórnvöld um þær upplýsingar sem hann þarfnast vegna starfs síns. Þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öðrum gögnum sem mál varða. Og í 12. gr. laganna segir að umboðsmaður skuli gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Og það er einmitt hin lögboðna skýrsla umboðsmanns sem hér er til umræðu í dag.
    Margir hafa bundið miklar vonir við störf umboðsmanns Alþingis. Í starfið var kjörinn virtur og vel metinn lagaprófessor sem hafði mjög víðtækt traust hér á hv. Alþingi til að taka þetta starf að sér og ég efast ekki um að hafi líka mjög víðtækt traust úti í þjóðfélaginu. Þetta er í annað sinn sem umboðsmaður leggur skýrslu sína fyrir Alþingi. Þessi skýrsla er um margt athyglisverð og sýnir að mjög víða er pottur brotinn í okkar stjórnkerfi. Það vekur athygli hvernig sum stjórnvöld hafa tekið umboðsmanni Alþingis og hvernig þau hafa brugðist við lögmætum beiðnum hans um upplýsingar. Það er einnig athyglisvert hversu treg sum stjórnvöld hafa verið til að verða við tilmælum um endurbætur eða tilteknar aðgerðir sem fram koma í niðurstöðum álita umboðsmanns Alþingis.
    Sérstaka athygli vekur viðhorf hæstv. fjmrh. til umboðsmannsins en umboðsmaðurinn hefur í skýrslu sinni séð ástæðu til að gera viðskipti við hæstv. fjmrh. og ráðuneyti hans sérstaklega að umtalsefni. Í I. kafla skýrslunnar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel rétt að vekja athygli Alþingis á því, að í frv. til fjárlaga 1990 lagði fjmrh. til lækkun framlaga til embættis umboðsmanns frá því, sem ég hafði óskað

eftir og forsetar Alþingis síðan samþykkt að leggja til. Um þetta segir meðal annars í fjárlagafrv.: ,,Kostnaður vegna umboðsmanns hækkar allmikið en þó er ekki orðið við óskum embættisins um fjölgun starfsmanna og aukið framlag. Þess má og geta að mikill óbeinn kostnaður hlýst af starfi umboðsmanns Alþingis vegna mikillar vinnu í ráðuneytum og stofnunum við að svara erindum og vinna upplýsingar sem hann óskar eftir.```` --- Þetta er tilvitnun í fjárlagafrv. Og umboðsmaðurinn heldur áfram:
    ,,Það skal áréttað, að ekki var um að ræða beiðni um neina fjölgun starfsmanna umfram það, sem forsetar Alþingis höfðu ákveðið í samræmi við 14. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Þá taldi ég og tel enn, að afstaða til Alþingis og umboðsmanns Alþingis með þeim hætti, sem fram kemur í ofangreindum ummælum í fjárlagafrv., hljóti að vera alþingismönnum nokkurt umhugsunarefni. Af þessu tilefni ritaði ég forsetum Alþingis bréf 13. desember 1989. Í bréfinu fjallaði ég m.a. um nefnda athugasemd í fjárlagafrv. Um það sagði í bréfi mínu:
    ,,Ofangreind athugasemd hlýtur að vera skýring á því, hvers vegna fjárveiting er lækkuð í fjárlagafrv. miðað við tillögur umboðsmanns Alþingis og forseta Alþingis. Sú skýring verður ekki skilin öðru vísi en svo, að nauðsynlegt sé að setja starfi umboðsmanns takmörk. Nú er það hins vegar þannig, að hlutverk umboðsmanns er markað í lögum nr. 13/1987 og reglum nr. 82/1988, sem Alþingi hefur sett. Þar er kveðið á um störf hans og starfshætti. Ég tel, að hvorki umboðsmaður Alþingis né Alþingi geti unað við það, að handhafar stjórnsýsluvalds taki fram fyrir hendur Alþingis.``"
    Ég vil í þessu sambandi einnig vitna til ræðu sem hæstv. fjmrh. hélt hér í fyrirspurnatíma þann 23. nóv. sl. þar sem hann var að svara ákveðinni fsp. Þá sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Það hefur nokkuð færst í vöxt hér á Alþingi á undanförnum árum að bornar eru fram fsp. um margvíslegar upplýsingar. Oft eru hér á ferðinni óskir um upplýsingaöflun sem í reynd er meiri háttar rannsóknarverkefni. Mér finnst nokkuð skorta á um það að hv. alþm. og kannski einnig stjórnendur þingsins
geri sér nægilega grein fyrir því hvað mikið starfsálag er orðið hjá ráðuneytum og stjórnarskrifstofum við að svara þessum ítarlegu fyrirspurnum eða svara margvíslegum erindum frá umboðsmanni Alþingis eða öðrum þeim sem á vegum Alþingis leita eftir upplýsingum.``
    Það andar óneitanlega köldu frá hæstv. fjmrh. til þessa embættis sem á að standa vörð um hagsmuni almennings gagnvart stjórnkerfinu. Og ég vil reyndar taka sterkar til orða og ég vil segja að þessi ummæli bera vott um hroka sem þessi hæstv. ráðherra er nú nokkuð þekktur fyrir.
    Í 4. tölul. í I. kafla skýrslu umboðsmanns Alþingis er rætt um það hversu oft hefur dregist lengi að fá upplýsingar og greinargerðir frá ráðuneytum. Og enn kemur fjmrn. þar við sögu. Umboðsmaður Alþingis

gerir grein fyrir því að stundum séu tafir afsakanlegar þar sem í hlut eigi starfsmenn sem séu störfum hlaðnir og aukin fyrirhöfn bitni því hart á. Það eigi ekki síst við þegar margar kvartanir hafi borist á hendur sama stjórnvaldi og orðið tilefni óska af hans hálfu um upplýsingar og skýringar. Hann leggur jafnframt áherslu á að fjöldi kvartana sé í sjálfu sér ekki vísbending um að starfsháttum sé áfátt. Viðkvæm og vandmeðfarin mál verði óhjákvæmilega tilefni kvartana eins og raunin hefur orðið á. Hann segir að kvartanir dreifist á mörg ráðuneyti og stofnanir og því sé sjaldgæft að sama stjórnvaldi sé íþyngt með mörgum fyrirspurnum. Hann segir að óskir um öflun upplýsinga hafi yfirleitt ekki haft í för með sér úrvinnslu gagna eða öflun gagna sem ekki voru tiltæk í viðkomandi ráðuneyti eða stofnun. Greinargerðir ráðuneyta og stofnana varði yfirleitt ákvarðanir sem þessir aðilar hafi þegar tekið. Oft hefðu greinargerðir ekki kostað mikla vinnu ef undirbúningur mála hefði í upphafi verið nægilega vandaður. Tafir hafi stafað af því að stjórnvöld hafi staðið frammi fyrir vanda sem hefur mátt rekja til ófullnægjandi málatilbúnaðar og síðan hefur vafist fyrir þeim að greiða úr eða útskýra. Síðan segir umboðsmaður:
    ,,Þar sem fjármálaráðherra hefur talið ástæðu til að bera sig upp út af embætti umboðsmanns Alþingis, fyrst með ofangreindum hætti í frv. til fjárlaga og síðan við umræður um tiltekna fyrirspurn í Sþ. 23. nóvember 1989`` --- sem ég hef þegar vitnað hér til --- ,,er ekki úr vegi að taka tvö dæmi frá ráðuneyti, sem hann stýrir.``
    Síðan tekur hann tvö dæmi. Í fyrra dæminu dróst í meira en hálft ár að svara tilmælum um upplýsingar sem beðið var um frá umboðsmanni. Í síðara dæminu tók þrjá og hálfan mánuð að svara mjög einfaldri spurningu í máli sem reyndar er enn til meðferðar hjá umboðsmanni. Þeirri athugun mun væntanlega ljúka á árinu
1990. Það er auðvitað athyglisvert að umboðsmaður skuli telja sérstaka ástæðu til að taka fjmrn. þannig út úr í þessu efni. Því vil ég óska eftir að hæstv. fjmrh. gefi skýringu hér við umræðuna á þessum tveimur atriðum sem hér hefur verið vitnað til og fjalli nokkuð um það hvernig samskiptum hans við umboðsmann Alþingis sé háttað. Ég tel það alveg nauðsynlegt vegna þess sem fram kemur í skýrslu umboðsmannsins.
    Í 5. tölul. í I. kafla fjallar umboðsmaðurinn um tregðu stjórnvalda til að verða við tilmælum í niðurstöðum álita. Lokamálsgreinin í 5. tölul. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í framhaldi af því, sem að ofan hefur verið rakið, sé ég ástæðu til að ítreka þá skoðun, sem ég lét í ljós í skýrslu minni fyrir árið 1988, að forsenda laga nr. 13/1987 sé sú, að tillit sé tekið til álita umboðsmanns Alþingis og að Alþingi verði að taka á ný afstöðu til þess, með hvaða hætti skuli vikið að endurbótum á stjórnsýslu hér á landi, ef þessi forsenda bregst.``
    Í VI. kafla fjallar umboðsmaður um þá skoðun sína að nauðsynlegt sé að setja sérstök stjórnsýslulög og

skal ég ekki fara nánar út í það hér. En það hefur verið upplýst að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar er unnið að undirbúningi slíks lagafrv., sem er þó ekki væntanlegt fyrr en á haustþingi.
    Það er ljóst af þessari skýrslu að þörf fyrir slíkt embætti var mjög brýn. Umboðsmaður er að vísu enginn dómari en hann gefur álit. Það er ljóst að íslensk stjórnsýsla þarf slíkt aðhald sem embætti umboðsmanns er.
    Umboðsmaður hefur nú starfað í tvö ár, raunar kannski ekki nema 1 1 / 2 þegar tillit er tekið til þess að skrifstofa var ekki formlega opnuð fyrr en eftir mitt ár 1988. Það er komin reynsla á þetta starf og má segja að reynslu- og aðlögunartíma sé nú lokið. Það er auðvitað frumskylda Alþingis að gæta þess að farið sé eftir lögum um umboðsmann Alþingis. Þessar umkvartanir umboðsmannsins gagnvart ákveðnum ráðuneytum og stofnunum gefa forsetum Alþingis tilefni til að kanna þau mál rækilega. Það á að vera stolt Alþingis að sjá svo um að þessi hagsmunagæslumaður fólksins í landinu fái að sinna sínu starfi með eðlilegum hætti.
    Það kemur fram í þessari skýrslu að margar stofnanir og ýmis stjórnvöld hafa tekið fullt tillit til umboðsmanns Alþingis, svarað bréfum og tilmælum fljótt og vel og gert ýmislegt til þess að bæta sína stjórnsýslu. Ég hef hins vegar ekki heldur gert þau dæmi sérstaklega að umtalsefni þar sem verulega virðist skorta á að eðlilegt tillit sé tekið til starfs umboðsmanns Alþingis. En ég
vil, virðulegi forseti, árétta að lokum að ég vænti þess að hæstv. fjmrh. geri nokkra grein fyrir því sem fram kemur í skýrslu umboðsmanns Alþingis og lýtur að embætti hans.