Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Mánudaginn 26. mars 1990


     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Vestf. beindi til mín tveimur fyrirspurnum eða athugasemdum. Sem svar við þeirri fyrri vil ég vitna í niðurlagsorð hv. síðasta ræðumanns um niðurstöðu þessarar umræðu, að hún hafi leitt í ljós að það sé fyrir hendi vilji til þess hjá öllum aðilum að starf umboðsmanns megi verða sem jákvæðast og árangursríkast. Þannig var mín ályktun af þessari umræðu sem ég taldi vera jákvæða.
    Hin var um það hvernig forsetar hefðu brugðist við kvörtun umboðsmanns um of litla fjárveitingu. Henni vildi ég svara með því að lesa bréf, með leyfi hæstv. forseta, dags. 18. des. 1989:
    ,,Fjárveitinganefnd Alþingis.
    Í ljós hefur komið við 2. umr. fjárlaga 1990 að engin lagfæring hefur verið gerð á fjárveitingu til umboðsmanns Alþingis þrátt fyrir óskir þar að lútandi.
    Forsetar Alþingis hafa lagt á það ríka áherslu að fjárlagatillögur umboðsmanns Alþingis verði að fullu teknar til greina, sbr. samþykkt þeirra frá 4. des. sl. sem þegar hefur verið komið á framfæri við fjvn.
    Forsetar Alþingis ítreka hér með téða samþykkt sína og beina því til hv. fjvn. að hún taki málið til velviljaðrar og skjótrar fyrirgreiðslu þannig að lagfæring á þessum fjárlagalið geti átt sér stað við 3. umr. fjárlagafrv.
    Hjálagt fylgir ljósrit af erindi umboðsmannsins til forseta Alþingis, dags. 13. des. s.l.
Fyrir hönd forseta Alþingis.

Friðrik Ólafsson,

skrifstofustjóri Alþingis.``