Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég hef ekki mikið að segja fram yfir það sem ég var áður búinn að tjá mig um við 1. umr. þessa máls. Ég vék mér frá áðan en ég tók eftir því þegar ég gekk í þingsalinn að hv. frsm. menntmn. var að tala um nafngiftir á stjórnsýsludeildum Háskólans. Ég kom lítillega inn á það mál við 1. umr. og taldi að betur færi á því að nota þau nöfn sem áður hafa verið nefnd yfir framkvæmdastjóra hinna ýmsu sviða, sem nú eru svo kölluð í þessu frv. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði þá. En ég hjó eftir því að hv. frsm. menntmn. sagði að hin gömlu nöfn ættu ekki við, þau væru úrelt og þau væru rangnefni.
    Ég tók ekki eftir því að færð væru veigamikil rök fyrir þessu. Helst þótti mér bitastætt í því sem hv. frsm. sagði að verkefni þau sem um væri að ræða í hverri stjórnsýsludeild væru víðtækari en hin eldri nöfn gæfu til kynna. Skal ég ekki neita því. En það er mjög algengt þegar um stöðuheiti er að ræða að þau gefa ekki til kynna öll þau verkefni sem undir þau heyra. Ég nefni bæjarfógeta sem dæmi. Undir bæjarfógeta heyrir fjöldi mála sem ekki eru fógetaréttarmál.
    Ég vek aðeins athygli á þessu. Ég tek undir það sem hv. frsm. nefndarinnar sagði að það sem við ræðum hér um er ekkert höfuðmál í þessu sambandi.