Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) (frh.) :
    Herra forseti. Það er notalegt að sjá að hæstv. fjmrh. skuli kominn í þinghúsið. Kannski hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hafi hringt í hann og minnt hann á að hann var nýbúinn að áminna hann um að vera hér og gegna þingskyldu sinni. Notalegt að sjá einn ráðherra hér í salnum jafnvel þó hann sé ekki þingmaður. Það er notalegt. Vafasamt að hæstv. ráðherra auðnist að vera oftar kjörinn á þing nema hann fari kannski fram fyrir þennan nýja vettvang sem hann styður í hjarta sínu þó hann sé formaður fyrir öðrum stjórnmálaflokki.
    En það er auðvitað ekki kjarni málsins í þessu sambandi heldur hitt að hæstv. fjmrh. er hér að leggja fram enn eitt frv. um hækkun á sköttum. Það sem er alvarlegt í þessu er að þjóðin ætlaðist til þess þegar hún gekkst inn á þá kjarasamninga sem fólu í sér kjararýrnun að ríkisstjórnin héldi að sér höndum, að ríkisstjórnin drægi úr eyðslunni, að ríkisstjórnin drægi úr skattheimtunni. En það er síður en svo að hæstv. ríkisstjórn sé að hugsa um það. Þvert á móti hefur ríkisstjórnin haldið sömu atvinnustefnu og áður. Það liggur ljóst fyrir að t.d. er ekkert lát á gjaldþrotahrinunni sem gengið hefur yfir. Það liggur fyrir að tvo fyrstu mánuði þessa árs varð að greiða 40 millj. kr. vegna ríkisábyrgðar á launum við gjaldþrot. Og það liggur fyrir að þeim mönnum sem fengu atvinnuleysisstyrk fjölgaði töluvert í febrúarmánuði nú borið saman við febrúarmánuð fyrir ári. Og það liggur í síðasta lagi fyrir að erlendir menn sem hingað hafa komið, m.a. frá Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, hafa lokið miklu lofsorði á ríkisstjórnina fyrir það að hún skuli nú beita því stjórnunartæki, þeirri svipu sem sárast svíður undan, atvinnuleysinu, til þess að reyna að koma einhverri stjórn á landið.
    Frá sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna er það auðvitað ekki undarlegt, herra forseti, að hér skuli vera félagshyggjustjórn við völd í góðæri þegar atvinnuleysið er orðin mikil vofa yfir heimilunum, öryggisleysi víða, kæruleysi fyrir einstökum atvinnugreinum. Ég minnti áðan í öðru samhengi á skipasmíðaiðnaðinn í þessu sambandi.
    En um leið og við stöndum frammi fyrir meiri skattheimtu en áður vegna þess að fyrirtækin í landinu skila minna til sameiginlegra þarfa en áður vegna þess samdráttar sem verið hefur lætur hæstv. fjmrh. skattahækkanirnar dynja á þjóðinni. Það er ekki aðeins haft orð á þessu hér á Alþingi, það er ekki aðeins talað um þetta á vinnustöðum heldur rignir lesendabréfum yfir dagblöðin, og hefur gert lengi, þar sem vakin er athygli á þessari skattgleði hæstv. fjmrh., þessari ógnarlegu skattgleði. Í Dagblaðið skrifar Þórarinn Jónsson og segir svo í bréfi hans, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vegna fréttar í Morgunblaðinu, þar sem fram kemur að lagt hafi verið fram stjfrv. um 50% hækkun bifreiðagjalds fyrir árið 1990, langar mig sem bifreiðareiganda og skattborgara að koma eftirfarandi

spurningum á framfæri til fjmrh.`` --- og ég hlýt, herra forseti, að gera spurningar þessa skattborgara og bifreiðareiganda að mínum og inna hæstv. fjmrh. eftir svörum við þessum spurningum.
    1. Telur ráðherrann, sem kennir sig við félagshyggju, það vera láglaunafólki til gleði og ánægjuauka að þurfa að borga 50% hærra bifreiðagjald í ár þegar sýnt er að kaupmáttur þessa fólks mun rýrna umtalsvert vegna erfiðleika í efnahagslífi þjóðarinnar, eins og ráðherra er að sjálfsögðu fullkunnugt um?
    2. Telur ráðherrann það vera munað að eiga bíl nú þegar báðir foreldrar þurfa að vinna úti til að eiga fyrir lífsnauðsynjum og til að geta greitt skatta og gjöld sem á þá eru lagðir af ríki og sveitarfélagi? Þetta fyrirkomulag kallar á að fólk þarf að eiga bifreið til að komast til vinnu, keyra maka til vinnu og börn á dagheimili, svo að dæmi úr daglega lífinu sé tekið.
    3. Telur ráðherrann það gott fyrirkomulag að fólk borgi jafnháa upphæð fyrir bifreið hvort sem hún er 200 þús. kr. eða 2 millj. kr. virði, einungis ef þyngdin er sú sama?
    Þetta eru spurningarnar. Jafnframt er þess getið í tengslum við þetta bréf að lesendasíða DV hafi haft samband við upplýsingafulltrúa fjmrh. sem hafi fúslega gengist inn á það að senda svör við þessum spurningum. Nú verður þetta prófsteinn á það sem ég hef oft sagt hér, að þýðingarlaust sé að spyrja þennan hæstv. ráðherra spurninga, hann svari ekki. Nú verður fróðlegt að sjá hvort hæstv. fjmrh. svarar spurningunum hér í þingsal sem blaðafulltrúi hans hefur lofast til að svarað verði á lesendasíðu Dagblaðsins. Hvort hæstv. fjmrh. telji sig skuldbundinn til að svara einföldum spurningum þingmanna.
    Málið horfir ekki aðeins svo við að ég ætlist til þess að fá svar við þessum einföldu spurningum, heldur hlýt ég jafnframt að vekja athygli á því, herra forseti, að það er ekki nóg með að bifreiðagjaldið sé hækkað hinn 1. apríl, heldur stendur til að hækka bifreiðagjaldið um 15% 1. okt. eða úr 3,40 kr. í 3,91 kr. Og aðrar hækkanir sem gert er ráð fyrir í frv. eru raunar ívið meiri. Þannig að þær hækkanir sem verða á grunngjöldum bifreiðagjalds og
lágmarksgjalds munu nema um 15--20% frá miðju ári í ár til haustsins. Ef við tölum um að gjald hækki frá 1. apríl til 1. okt. um 15% erum við að tala um hækkun sem nemur 30% á ársgrundvelli. En á sama tíma og hæstv. fjmrh. ætlar að hækka bifreiðagjaldið um 30% á ársgrundvelli, frá apríl fram í októbermánuð, er gert ráð fyrir því að kaupgjald í landinu standi í stað að verðgildi og verðbólga verði kannski rétt um 3% eða tíundi þess sem talað er um á ársgrundvelli.
    Ef við horfum á málið út frá öðru sjónarhorni má kannski rifja upp, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn er þegar farin að hafa þungar áhyggjur af þessari litlu hækkun sem orðið hefur á fiskverði, ofan í fimm milljarða sem sjávarútvegurinn er búinn að tapa á

þessari ríkisstjórn, ríkisstjórnin er þegar farin að tala um að nauðsynlegt sé að gera eitthvað af þessu: hækka vexti, hækka skatta eða hækka gengið. Ríkisstjórnin er þegar orðin hrædd um að atvinnuleysi fari kannski minnkandi og fólkið geti orðið sæmilega öruggt um afkomu sína, fólkinu kunni jafnvel að detta í hug að það sé aftur kominn möguleiki til þess að bæta lífskjörin. Og auðvitað má slíkt ekki koma fyrir. Auðvitað verðum við að standa á móti því. Þrjú þúsund manns á landinu atvinnulaus, atvinnuleysi hjá konum t.d. á Austurlandi yfir 7%, mörg þúsund hafa farið úr landi og ríkisstjórnin talar um hættu á þenslu. Þegar fólk af landsbyggðinni sem ekki fær atvinnu kemur til Reykjavíkur í atvinnuleit, fær hér ekkert að gera en dýrt húsnæði, leitar til félmrn. um atvinnutækifæri, aðallega í Svíþjóð og fer þangað, getur ekki verið í sínu ástkæra fósturlandi, þá talar ríkisstjórnin um að nauðsynlegt sé að herða enn ólina, að fyrirtækjunum, að fólkinu og þyngja skattana. Stjórna með því að stjórna með atvinnuleysi. Stjórna með því að halda fólki í óvissu og hækka svo, sem er kannski að bíta höfuðið af skömminni, að ætla að halda áfram sömu skattahækkununum fram eftir öllu árinu, líka í október. Það sýnir líka eitt
með öðru hversu illa við erum staddir Íslendingar að mörgu leyti þegar jafnvel kunnir verkalýðsleiðtogar eru farnir að gefa flokksbræðrum sínum í ríkisstjórninni syndakvittun fyrir þessar hækkanir. Sjaldan hefur niðurlæging verkalýðshreyfingarinnar orðið meiri en þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar.
    Ég vil svo að síðustu spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann geri ráð fyrir því að leggja orkuskattinn á. Hvað verður um frv. um orkuskattinn? Hæstv. viðskrh. gaf yfirlýsingu um það, eftir að við höfðum sýnt fram á það sjálfstæðismenn að sú skattlagning mundi hafa í för með sér a.m.k. 30% hækkun á almennu raforkuverði til heimilanna í haust, að frv. hæstv. fjmrh. væri svo vitlaust að ekki væri hægt að samþykkja það. Hann talaði um að frv. fjmrh. hefði í för með sér verulega og almenna hækkun á raforkuverði en hann lét þess jafnframt getið, viðskiptaráðherrann, að ekki væri hægt að láta þar við sitja, það yrði að leggja á aðra skatta í staðinn eða breyta frv. Er hæstv. fjmrh. að hugsa um það að reyna að blása lífi í frv. um orkuskattinn?

     Ólafur Ragnar segir satt
     sem er ljúft að torga.
     Hann ætlar að leggja á orkuskatt
     sem enginn þarf að borga.

    Hann sagði að það væri auðvelt að ná sér í svona hálfan milljarð, einn og tvo milljarða frá ríkisstofnunum og fyrirtækjum án þess að nokkur þyrfti að standa undir þeim, ár eftir ár, peningamaskína bara sem enginn þyrfti að standa undir, ekki bitna á nokkrum einasta manni í þjóðfélaginu. Hvað ætlar hann að gera við þetta?
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Það væri fróðlegt að sjá hvort fjmrh. svarar þeim spurningum

sem blaðafulltrúi hans hefur boðist til þess að svarað verði á lesendasíðum Dagblaðsins.