Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 815 frá 2. minni hl. fjh.- og viðskn. 2. minni hl. er í sjálfu sér ekki andvígur þeirri tekjuöflun að leggja gjald á bifreiðar en hefur þó margt við framkvæmd þessarar skattlagningar að athuga og ekki síst það hvernig þessum skattpeningum skal varið. Reyndar tek ég undir það sem komið hefur fram í umræðunni, þessi hækkun er mjög erfið fyrir þá sem hafa fengið mjög óverulegar bætur í kjarasamningum og glíma við þær hækkanir sem dynja yfir fólk á almennum vettvangi. Það kom fram í viðræðum við tvo fulltrúa Verkamannasambandsins í morgun að það væru ýmsar hækkanir sem virtust fara fram úr því sem ætlað var og gengur erfiðlega að ná sambandi við menn til að knýja fram lækkanir á ýmsum sviðum. Þetta er auðvitað ein af þeim hækkunum sem við bætist.
    Kvennalistakonur hefðu kosið að bifreiðagjald ákvarðaðist ekki einungis af þyngd bifreiða heldur einnig verðmæti. Með því væru tekjujöfnunaráhrif meiri en með því fyrirkomulagi sem nú er boðað. Þetta kom reyndar fram einnig að hafði verið rætt af hálfu Verkamannasambandsins, það væri mun eðlilegri viðmiðun að miða við verðmæti bifreiðar en þunga. Annar fulltrúi þess tók dæmi af þeim sem ætti Volvo-bifreið og væri jafnþung Lada-bifreið. Það væri auðvitað ekki sambærilegt hvað Lada-bifreiðareigandinn þyrfti að endurnýja sína bifreið oft miðað við þann sem ætti Volvo-bifreið af sama þunga. Þess vegna væri þetta ósanngjörn viðmiðun í raun.
    Einnig telja kvennalistakonur hæpið að leggja bifreiðagjald með fullum þunga á bifreiðar sem eru atvinnutæki, þar sem skattlagning er ærin fyrir. En það sem vegur þó þyngst er að þrátt fyrir hækkun allra bifreiðaskatta er dregið úr framlögum til vegamála. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá fjmrn. eru áætlaðar heildartekjur af bifreiðasköttum 5 milljarðar 395 millj. kr. árið 1990, eins og sést á fskj., þar sem þessar heildartekjur eru sundurliðaðar. Á fjárlögum fyrir árið 1990 eru framlög til vegamála 4 milljarðar 575 millj. kr. Í fjáraukalögum fyrir árið 1990 var sú upphæð lækkuð um 79 millj. kr. en framlög til vegamála eru nú 4 milljarðar 496 millj. kr. Og síðan kemur í þessu nál. útlistun á dæmi, þar sem áætlaðar heildartekjur af bifreiðasköttum eru 5 milljarðar 395 millj. kr., en framlög til vegamála árið 1990 eru 4 milljarðar 496 millj. kr. og mismunurinn er því 899 millj.
    Þegar áætlaðar tekjur af bifreiðagjaldi eru um 100 millj. kr. hærri en þessi mismunur þykir 2. minni hl. fráleitt að styðja þetta frv. um bifreiðagjald þar sem ekkert af innheimtunni mun renna til vegamála heldur fara beint í ríkissjóð. Kvennalistakonur munu því greiða atkvæði gegn frv.
    Undir þetta nál. ritar Guðrún Agnarsdóttir sem fulltrúi Kvennalistans í fjh.- og viðskn.