Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil vekja athygli á því að í minnisblaði frá fjmrn. um aðgerðir til að lækka framfærsluvísitölu segir: ,,Þessar breytingar þýða í reynd að bifreiðagjaldið hækkar um tæplega 50% á árinu en í forsendum fjárlaga var reiknað með 98% hækkun.``
    Í lesendabréfi er talað um 50% hækkun á bifreiðagjaldi þannig að þessum upplýsingum ber saman. Þó segir í minnisblaði fjmrn. ,,minni og léttari bílar hækka nokkru minna eða nálægt 40% að meðaltali``, en hitt er sem sagt aðalreglan. Kjarni málsins er ekki sá hvort ríkisstjórnin hafi ætlað sér að þyngja skattbyrðina svo og svo mikið á sl. ári og hafi raunar gert það. Það er engin vörn fyrir hæstv. fjmrh. þó hann segi að hann hafi í forsendum fjárlaga gert ráð fyrir verulegri hækkun á bifreiðagjaldi, um það snýst ekki málið. Það vita allir menn að hæstv. fjmrh. vildi hækka bifreiðagjaldið um 98%. Vildi tvöfalda bifreiðagjaldið. Það er þess vegna engin skýring, engar upplýsingar í sjálfu sér og ekki áhugavert þótt hæstv. fjmrh. endurtaki það.
    Hitt er raunalegt að ríkisstjórnin skuli ekki láta sitja við hækkunina nú, 1. apríl, heldur hyggist hækka bifreiðagjaldið enn um 15% frá 1. apríl til 1. okt. og sumt meira af þeim gjöldum sem fjallað er um í frv. Það sýnir að ríkisstjórnin vill ekki taka tillit til kjarasamninganna, ríkisstjórnin vill ekki taka á sig sömu byrðar og fólkið í landinu og kann ekki að meta það langlundargeð sem launþegar sýna ríkisstjórninni. Þetta er það hörmulega í málinu. Ég hygg að enginn atvinnurekandi komist upp með að hækka að tilefnislausu gjaldskrár sínar, hvort sem það er þjónusta eða vörur, um 15% frá aprílmánuði fram í október, það mundi engum sveitarstjórnarmönnum detta þvílíkt í hug. En ríkisstjórnin kemst upp með það. Og ég get ekki betur séð en að þögn einstakra stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar hér í deildinni bendi til þess að þessar hækkanir allar saman séu með þeirra góða samþykki og þeir séu ánægðir yfir því.