Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu var tekið fyrir í fjh.- og viðskn. í gær og ræddar þær breytingar sem á því voru gerðar í Nd. Menn voru almennt mjög ánægðir með það hvernig frv. liti út og engar athugasemdir voru gerðar við einstakar greinar þess. Hins vegar er það rétt að hv. þm. Halldór Blöndal mætti ekki á þennan fund, ekki fyrr en fundi var lokið og gerði þá engar athugasemdir við einstakar greinar þess né orðalag greinanna. Hins vegar mætti annar fulltrúi Sjálfstfl. og var mjög áfram um það að frv. færi í gegn eins og það lítur út og ýtti raunar á það að við afgreiddum málið miðað við þá umræðu sem varð í nefndinni.
    Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að boða til nýs fundar til þess að ræða þetta mál nánar. En ég sé ekki að þær athugasemdir sem komu fram hér hjá hv. þm. Halldóri Blöndal breyti í einu eða neinu afstöðu nefndarinnar til frv. Þetta mál, eins og hæstv. fjmrh. lýsti hér yfir, er búið að fá mjög gaumgæfilega athugun í Nd. og hefur verið tekið fyrir á nefndarfundi í Ed. og menn lýst ánægju sinni með það. Ég held að það verði ekki málefnum fiskeldis til framdráttar ef við förum að draga málið öllu frekar, en þeir hafa lýst því yfir sjálfir að þeir geti fallist á frv. eins og það lítur út núna. Ég mundi leggja áherslu á það að hv. þm. Halldór Blöndal drægi þetta til baka, en ef hann krefst þess mun ég ekki standa í vegi fyrir því að það verði haldinn fundur og helst þá núna á eftir þar sem við getum rætt þetta mál og klárað það út úr deildinni í dag.