Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég verð nú að láta í ljósi mikla undrun yfir ræðu formanns fjh.- og viðskn. Hann er lögfræðingur að mennt, kom hér upp án þess að hafa textann í höndum sem ég gerði athugasemd við og var með alls konar hugleiðingar út í bláinn í staðinn fyrir að reyna að tala hér sem fræðimaður í sinni grein og íhuga þann frumvarpstexta sem liggur hér beint fyrir framan hann ef hann mundi láta svo lítið að lesa frv. yfir.
    Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. upplýsti í sinni ræðu að vinna við reglugerð og annað þvílíkt væri það skammt á veg komin að ekki hefði áhrif á það hvenær frv. færi að verka, hvort það yrði samþykkt á þessum fundi eða síðar. Það liggur ljóst fyrir að þetta frv. hefur verið samþykkt hér við 2. umr. og án mótatkvæða. Það er ekki um það sem málið snýst, einstök efnisatriði frv., heldur er ég eingöngu að ræða um textann sjálfan hvort hann sé í samræmi við þann vilja sem ég tel að þingmenn hafi. Ég stend því fast við það að ég tel óhjákvæmilegt að þetta mál verði tekið til athugunar á fundi fjh.- og viðskn. og ég tel nauðsynlegt, vegna ummæla bæði hæstv. fjmrh. og formanns nefndarinnar, að ég geti haft svigrúm til þess að athuga þennan texta og borið hann saman við og athugað minn gang eftir að hafa ráðfært mig við menn sem ég treysti í þeim efnum.
    Það er alveg ljóst mínum huga, samkvæmt minni málkennd að orðin ,,án ríkisábyrgðar`` eiga jafnt við orðið ,,banka eða öðrum lánastofnunum.`` Eldislán frá banka eða öðrum lánastofnunum án ríkisábyrgðar. Það er alveg ljóst að þessi orð eiga saman. Þetta myndar eina efnislega samfellda heild og það er raunar næsta sorglegt að formaður fjh.- og viðskn. skuli ekki gefa þessu gaum.
    Ég þakka hins vegar hæstv. forseta fyrir að hann skuli hafa fallist á beiðni mína um það að 3. umr. verði frestað. Ég hef ekki tök á því að taka oftar til
máls við þá umræðu, nema e.t.v. gera stutta athugasemd á næsta fundi eða eftir helgi eftir atvikum þegar frv. kemur aftur hér til meðferðar.
    Hitt finnst mér vera, ég vil segja til skammar fyrir formann fjh.- og viðskn., að koma aftur með þau rök sem beitt var hér fyrir rúmu ári að enginn mætti hafa skoðanir á því hvernig ætti að standa að því að tryggja að fiskeldisfyrirtæki fengju eldislán. Hvernig gekk með Tryggingasjóðinn, hvernig gekk það? Þá var talað um það hér í deildinni að við værum að tefja og tefja og tefja, þegar við vildum fá að ræða í einn dag um málið, einn dag. Og nú er byrjaður sami söngurinn. Þó liggur það fyrir frá hæstv. fjmrh. að það stendur ekkert á ríkisstjórninni. Jafnfráleitt var hjá hæstv. fjmrh. að tala um að þetta frv. hefði verið lagt fram fyrir jólin og þess vegna mættum við í Ed. ekki skoða það í eina viku. Það er náttúrlega alveg úti í himinblámanum að halda slíku fram. (Gripið fram í.) Það sem ég fór fram á hér var það, og ég er þakklátur hæstv. forseta fyrir að hafa orðið við því, að við biðum í einn dag með að afgreiða þetta frv., af

því það skiptir engu máli, til þess að við gætum skoðað textann í ró og næði.