Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það þarf nú tæpast að reifa þessi mál mjög mikið fyrir þingmönnum, svo mikið hafa þau verið rædd hér áður. Þó þykir mér rétt að fjalla aðeins um þetta frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem ætlunin er að vísa til ríkisstjórnarinnar.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar að sú ríkisstjórn sem nú situr muni tæplega vera fær um að fjalla um þessi mál því þær álögur sem hún hefur staðið fyrir í eignarsköttum eru fáheyrðar. Mundi nú framsóknarmaddaman vera talin frænka Thatcher því að ósköp er þetta svipað því sem gert hefur verið í Bretlandi og þó öllu hærra. Verulegt fylgishrun hefur orðið hjá íhaldsflokknum í Bretlandi. Mætti ætla að núverandi ríkisstjórn væri sérstakur boðberi stefnu Margrétar Thatcher í skattlagningu á íbúðarhúsnæði. Er svo langt gengið að jafnvel þeir sem hafa gagnrýnt Thatcher allra mest, eins og hv. þm. Alþb., standa fyrir því að framkvæma stefnu hennar á Íslandi með álagningu eignarskatta sem nálgast sums staðar 3% ef með eru tekin fasteignagjöld sem leggjast á íbúðarhúsnæði. Þessir skattar eru, eins og margoft hefur komið fram, lagðir á án tillits til tekna og hvort menn hafa tekjur af eignum eður ei. Það leiðir hugann að því að eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi sem hefur lagt það til að fella niður eignarskatta af íbúðarhúsnæði er Frjálslyndi hægriflokkurinn. Það var náttúrlega fellt eins og við mátti búast því ekki bera menn fyrir brjósti þá stefnu að fólk eigi að fá að búa hér í þessari veðráttu í góðu húsnæði.
    Sú afstaða hefur raunar birst undanfarið í ráðstöfun þessarar ríkisstjórnar í húsnæðismálum, í lánamálum Byggingarsjóðs ríkisins og í afgeiðslu laga um húsnæðisbætur og vaxtabætur.
    Það er sorglegt að vita til þess að núv. ríkisstjórn hefur staðið sig með þeim eindæmum illa að nú er áætlað að 21 milljarð þurfi til þess að svara þeim
umsóknum sem liggja fyrir hjá Byggingarsjóði ríkisins einum. Á þessum sama tíma hefur hæstv. félmrh. reynt að mismuna fólki með enn þá freklegri hætti en nokkru sinni fyrr á Íslandi. Hæstv. félmrh., sem hefur gagnrýnt það að menn séu teknir fram fyrir í röðinni, hefur nú breytt röðinni í húsnæðismálum með þeim hætti, flokkað fólkið þannig, að það liggur við að það sé brot á öllum þeim grundvallarreglum sem ríkja í lýðræðisríkjum. Jafnframt hefur þessi ríkisstjórn lagt eignarskatta á þetta sama fólk með þeim hætti að það er með eindæmum. Að það skuli vera lagður allt að 3% eignarskattur á fólk eins og nú er gert að meðtöldum fasteignagjöldum er með eindæmum. Það er alveg ljóst að sú stefna sem núv. ríkisstjórn stendur fyrir er verri en sú stefna sem Thatcher hefur fylgt og verið gagnrýnd fyrir í Bretlandi. Thatcherismi þessarar ríkisstjórnar er með þeim hætti að Thatcher mundi verða hreykin af alþýðubandalagsmönnunum og alþýðuflokksmönnunum fyrir þær skattahækkanir sem þeir hafa lagt á eignir manna því að svo langt hefur

Thatcher ekki gengið, þrátt fyrir það að hún hafi fengið mikla gagnrýni fyrir sína skattlagningu í Bretlandi.
    Gaman væri að heyra í hæstv. ráðherrum sem þenja sig hér með hvernig þeir séu að núllstilla öll útgjöld fólksins í kjarasamningum. En núna þegar er verið að tala um skattlagningu er hún undanþegin þeirri núllstillingu. Þær hækkanir sem hafa orðið á eignarsköttum og öðrum sköttum eru ósvinnar. Það er í raun svo að þrátt fyrir fullyrðingar hæstv. ráðherra um álagningu eignarskatta hefur það komið í ljós í þeim fyrirspurnum sem ég hef fengið svör við um þessi mál að þegar þeir hafa rætt um þessi mál hafa þeir ekki vitað hvað þeir hafa verið að tala um. Þeir hafa vitnað út og suður í að svona sé þetta í hinu og þessu landinu. Sannleikurinn er sá að það sem þeir eru að tala um er allt annað og þeir hafa ekki hugmynd um hver álagningin er víða og meira að segja í nágrannalöndunum, ekki einu sinni á Norðurlöndunum, í þessum málum. Þekking hæstv. ráðherra á eignarskattsmálum er svo takmörkuð að þeir hafa ekki enn þá getað svarað hvernig þau mál eru á Norðurlöndunum. Hæstv. ríkisstjórn leggur hér á skatta og fullyrðir að þeir séu ekki svo háir, séu ekki svo miklir. En hún hefur ekki hugmynd um hvað hún er að segja. Thatcherismi þessarar ríkisstjórnar er með þeim hætti að það vekur furðu. Menn sem þykjast kenna sig við jafnrétti og félagshyggju standa hér upp og belgja sig út yfir því að þeir séu að aðstoða kjósendur með einhverjum hætti. Þeir eru bara ekki að því. Þeir eru að ráðast á fólkið. Og þeir ráðast á þá sem með ýtrustu sparsemi hafa haldið vel á sínum fjármálum. Það á að hegna þeim. Það væri nær að kalla þetta hegningarlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar sem felst í því að öllum sem hafa reynt að spara og fara vel með sína fjármuni er refsað.
    Það er sorglegt að vita til þess hvernig komið er og er þó merkilegt að hugsa til þess að thatcherismi ríkisstjórnarinnar er kominn svo langt til hægri að hann er farinn að mæta ráðstöfunum kommúnista eins og þegar þeir voru að gera eignaupptöku í Austur-Evrópu á sinni tíð. Hv. þm. Alþb. vita vel hvernig farið var að enda hafa sumir þeirra dvalið langdvölum í því sæluríki sem núna hefur runnið sitt skeið á enda.
    Það á að fella eignarskatta niður af íbúðarhúsnæði. Það er hið eina réttláta í þessu landi að eigið íbúðarhúsnæði á ekki að vera grundvöllur óréttmætra skatta og heimskulegrar hugsunar eins og núv. ríkistjórn hefur staðið að. Það er því von þegar líður að næstu kosningum að þá muni fara að ólga eitthvað í þeim blessuðum stuðningsmönnum sem eftir eru hjá núv. ríkisstjórn. Hún mun kannski reyna að sletta í fólkið einhverri smálagfæringu á eignarsköttunum, þó það sé nú reyndar ekki ljóst enn þá.
    Það er athyglisvert að í mestu góðærum Íslandssögunnar þurfa núverandi valdhafar að hrifsa til sín fjármuni í óráðsíu ráðuneytanna og nota til þess að leika sér með. Og það verður fróðlegt að sjá hvort hv. þm. ríkisstjórnarinnar muni standa undir því að

mismuna fólki í æ ríkari mæli eins og gert er með eignarsköttum, lánamálum Byggingarsjóðs ríkisins, húsnæðisbótum, vaxtabótum og með þeim hætti að það er nú stefnt að því að gera alla sem mest háða ríkinu. Helst mega menn ekki eiga eitt eða neitt. Jafnframt eiga þeir að skríða fyrir núverandi valdhöfum til að hafa möguleika á að koma sér þaki yfir höfuðið.
    Það er ekki síður ástæða til að líta á það að samþykkt var að hækka fasteignagjaldagrunn á húsnæði úti á landi á síðasta þingi. Og aðeins frjálslyndir hægrimenn mótmæltu. Þá var pólitísk samstaða allra annarra flokka um að leggja á húseigendur meiri byrðar en áður hefur verið gert og um leið að rýra lífskjör fólksins. Það var líka fróðlegt að þegar pakki ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál var hér til afgreiðslu þá var sú tillaga felld, meira að segja með atkvæðum Kvennalistans, að skráð yrði á fasteignagjaldaseðla hve hátt hlutfall hvert sveitarfélag tæki í heild miðað við fasteignamat. Það átti að fela það fyrir kjósendum. Og meira að segja Kvennalistinn studdi það að það mætti ekki vera skráð á fasteignaseðlunum.
    Það er í rauninni sorglegt að þingmenn skuli ekki átta sig á því að í þessu strjálbýla landi, þessu harðbýla landi verða menn að eiga stærra húsnæði en víðast annars staðar, einfaldlega af því að menn verða að búa innan dyra stærstan hluta ársins. Þess vegna er húsnæði hvers og eins miklu dýrmætara hér og í mörgum tilfellum miklu vandaðra en erlendis þar sem menn geta verið utan húss stóran hluta ársins í góðu veðri og við allt aðrar aðstæður. Þess vegna segi ég það að þetta mál hér er með þeim hætti að það ætti að leggja niður eignarskatta af íbúðarhúsnæði eins og við frjálslyndir hægrimenn höfum lagt til og hefur verið fellt hér. Það er hið eina raunverulega réttlæti hér á landi. Það á ekki að ásælast það sem menn hafa byggt og reyna að eiga skuldlaust. Þeir sem byggja og skulda mikið greiða auðvitað ekki eignarskatta. Við erum að stuðla að því að fólk fari ekki vel með fé og haldi vel á sínum fjármálum. Við gerum það með þeim hætti að þeir sem eyða eru verðlaunaðir og þeir sem spara, með þessum hætti, eru sektaðir. Og þessi hegningarlög ríkisstjórnarinnar, thatcherismi í hæsta veldi, ættu náttúrlega fyrir löngu að hafa verið afgreidd hér á þinginu með því að fella niður eignarskatta af íbúðarhúsnæði.
    Ég ætla að svo stöddu ekki að hafa fleiri orð um þetta en gæti svo sem talað um þetta töluvert lengi því að þetta mál er með þeim hætti.
    En ég vil að lokum segja að það er mikilvægt fyrir þingið að átta sig á því að fólkið í landinu vill fá að búa í almennilegu húsnæði án þess að þurfa að þræla dag og nótt eftir að það er búið að eignast húsnæðið. Það er nóg að það þurfi að þræla dag og nótt til þess að koma sér þaki yfir höfuðið þó það þurfi ekki að borga alla sína ævi æ hærri skatta af sínu eigin húsnæði.