Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 27. mars 1990


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Í þessu frv. hv. 18. þm. Reykv. og fleiri er hreyft mikilvægu máli sem sannarlega þarf að taka til sérstakrar athugunar vegna skattlagningar fjölskyldna og aðstöðu fjölskyldna.
    Ég vil í þessu sambandi nefna tvö frv. sérstaklega sem þingmenn Sjálfstfl., með varaþingmenn hans í broddi fylkingar, hafa flutt á síðustu tveimur þingum. Hið fyrra var frv. til laga um breytingu á skattalögum og flm. þess var María Ingvadóttir. Hún lagði til að heimilt væri framteljanda að nýta óráðstafaðan skattaafslátt barna sinna eldri en 16 ára sem lögheimili eiga hjá framteljanda. Í því frv. var enginn greinarmunur gerður á því hvort um væri að ræða einstætt foreldri eða foreldra sem samvistum væru, heldur einfaldlega viðurkennd sú staðreynd að barn eða unglingur á þessum aldri, sem ekki hefur nægilegar tekjur til þess að persónuafslátturinn nýtist, er að því leyti til á framfæri foreldra sinna.
    Hér vil ég sérstaklega nefna það mikla vandamál sem orðið hefur vart við í sambandi við menntaskólastarf og framhaldsskólastarf, en það felst í því að mikill fjöldi nemenda stundar nú vinnu með námi sínu, þótt náminu sé ætlað að vera full vinna. Ýmis þeirra stunda verulega vinnu og allt að því fulla vinnu með námi. Þetta getur ekki verið skynsamlegt. Vissulega er skynsamlegt að skólafólk hafi tækifæri til að afla tekna yfir sumartímann. Það er þó sannarlega ekki alltaf hægt að fá vinnu fyrir skólafólk einungis yfir sumartímann og það getur líka verið skynsamlegt að skólafólk geti aflað sér svolítilla tekna jafnvel á skólastarfstímanum, en slíkt yrði að heyra til undantekninga. Ég held að við eigum ekki að ganga út frá því að það sé gert og alls ekki að ganga út frá því að það sé nauðsynlegt.
    Ef við viljum stuðla að því að nemendur hafi ekki þörf fyrir að ganga til slíkrar fjáröflunar á meðan þeir eiga að nota tíma sinn til að sinna námi
eigum við að samþykkja lagabreytingu sem gengur út á það að persónuafsláttur unglingsins sé færanlegur á milli hans og foreldranna, þ.e. að foreldrarnir geti nýtt þann persónuafslátt þannig að það sé auðveldara um vik að kosta að öllu framfærslu unglingsins án þess að þar þurfi einn fjölskyldumeðlimurinn enn að afla tekna til framfærslu.
    Við getum líka litið á þetta mál frá hinu sjónarmiðinu, hreinlega nýtingu skólans og nýtingu fræðslunnar. Það getur ekki verið skynsamlegt að starf sem unnið er til þess að miðla unglingum fræðslu, og það er viðurkennt nú á dögum að fátt sé ungu fólki jafnnauðsynlegt, það getur ekki verið skynsamlegt að við högum löggjöf okkar þannig að um leið séum við að knýja þetta sama fólk til þess að nota eitthvað af námstíma sínum til þess að afla sér lífsviðurværis. Einungis vegna þess að einhver hortittur í skattalögum veldur því að slíkt verður nauðsynlegt. Ég held að einföld aðgerð til þess að laga þetta atriði eða að minnsta kosti skref í þá átt, sé að heimila að persónuafsláttur ungs fólks verði, þegar hann nýtist

því ekki sjálfu, færanlegur til foreldra. Og skipti þá ekki höfuðmáli í því sambandi hvort foreldrar eru einstæðir eða ekki. Það getur verið ærið erfiði að framfæra fjölskylduna hvort sem um er að ræða hjón eða einstætt foreldri þótt oftast nær sé það erfiðara hjá einstæðu foreldri. Allt of algengt er að unglingar nýti námstíma sinn til þess að stunda aðra vinnu, komi svo illa upplagðir í skólann og geti ekki hagnýtt sér sem skyldi þá fræðslu sem þar fer fram. Þess vegna held ég að þarna ættum við að láta eitt yfir alla ganga og heimila það einfaldlega að persónuafslátturinn geti flust til foreldra. Þetta atriði var sem sé í frv. Maríu Ingvadóttur eins og hún flutti það á þinginu 1987--1988 en því miður náði það ekki fram að ganga.
    Á síðasta þingi, 1988--1989, flutti Sólveig Pétursdóttir, varaþingmaður Sjálfstfl., frv. um það að persónuafsláttur yrði að fullu færanlegur á milli hjóna. Höfuðrökin fyrir því frv. voru fólgin í því að með því væri staða heimavinnandi fólks bætt. Það hefur oft verið á orði haft og það hefur ekki síður komið fram í máli þingmanna Kvennalistans, a.m.k. á stundum, að þar sé hópur kvenna í þjóðfélaginu sem sérstaklega þurfi að líta til og rétta hlut þeirra gagnvart ýmsum öðrum. Þetta er ein leiðin til þess og getur gert það með einföldum hætti. Vissulega náðist þó að laga þetta hlutfall á milli hjóna, réttinum til þess að nýta óráðstafaðan persónuafslátt, allverulega, þegar skattalög ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar hinnar fyrri voru sett. Það þarf e.t.v. að tiltaka það nánar þegar við tölum um hinar ýmsu ríkisstjórnir Steingríms Hermannssonar, en í þann tíð, þegar þetta ákvæði var sett um að persónuafslátturinn væri nýtanlegur og færanlegur á milli hjóna um 80%, var Þorsteinn Pálsson fjármálaráðherra. Flm. og sjálfstæðismenn hafa viljað að þessi persónuafsláttur væri að fullu færanlegur á milli hjóna þannig að það skref sem var stigið í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar yrði stigið að fullu. Um það snerist frv. sem flutt var af Sólveigu Pétursdóttur og sjö öðrum sjálfstæðismönnum vorið 1989.
    Ég leyfi mér að hvetja til þess að þessi frumvörp verði skoðuð samtímis því
sem frv. kvennalistakvenna verður skoðað, ef því verður vísað til ríkisstjórnarinnar sem ég geri ráð fyrir að verði, og þess vegna er það að ég nefni þessi tvö frumvörp hér og vil hvetja til þess að þær hugmyndir sem þar koma fram fái ítarlega athugun.