Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Kl. 1 í dag var haldinn fundur í fjh.- og viðskn. eins og boðað var í umræðunni í gær. Var þar farið yfir þessa grein frv. Menn voru sammála um að orðalagið væri e.t.v. ekki nógu skýrt. Ekki væri ljóst hvort ,,án ríkisábyrgðar`` næði til orðsins ,,banka`` í 4. gr. eða hvort aðeins væri verið að tala um aðrar lánastofnanir. Til að forðast að sá misskilningur geti verið uppi mun meiri hl. nefndarinnar, og vonandi fleiri ef gefinn verður smáfrestur á þessari umræðu, leggja fram brtt. um að greinin orðist þannig:
    ,,Það er skilyrði fyrir veitingu sjálfskuldarábyrgðar að viðkomandi fiskeldisfyrirtæki fái samningsbundin eldislán án sjálfskuldarábyrgðar ríkissjóðs frá banka eða öðrum lánastofnunum og að fyrirtækin hafi þær tryggingar sem fullnægja skilyrðum lánastofnunar`` o.s.frv.
    Þarna er verið að taka af öll tvímæli um það, sem fram kom í nefndinni, hvort ríkisbankarnir gætu veitt afurðalán eða ekki. Vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta hvort það mætti fresta umræðunni þangað til búið væri að ganga frá þessari brtt.