Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 28. mars 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er rétt að það var fundur í fjh.- og viðskn. kl. 1 í dag um þetta mál. Það kom líka í ljós að málið hafði ekki verið undirbúið fyrir þann fund nefndarinnar og skoðanir stjórnarsinna vægast sagt mjög sundurleitar um þetta efni. Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að gefa stjórnarandstöðunni svigrúm til að athuga hinn nýja texta. Ég fer fram á það að málinu verði frestað til næsta fundar þannig að við getum áttað okkur á þessum nýja texta sem hér á að leggja fram. Við erum að tala hér um stórt mál.
    Á síðasta fundi hjá hæstv. fjmrh. kom fram að það stendur ekki á frv. Ekki liggja fyrir nein drög um reglugerðina. Vilji þingsins liggur fyrir í stórum dráttum. Það er verið að athuga þetta eina atriði. En undirbúningur málsins í ráðuneyti er kominn það skammt á veg að ég tel nauðsynlegt að við reynum að vanda lagasetninguna sjálfa hvað þetta atriði áhrærir. Ég vil biðja forseta deildarinnar í fullkominni vinsemd um að bera þá virðingu fyrir þinginu og lagasetningu að við fáum að skoða hinn nýja texta til næsta fundar. Annað gengur bara ekki.